12. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
„Sinnum fólki, ekki pappírum“
Gunnar Þór Geirsson tók við sem formaður Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) um miðjan október. Gunnar hefur setið í stjórn FÍH frá árinu 2022 og verið ritari félagsins, sem telur um 270 meðlimi. Hann hefur verið heimilislæknir og kennslustjóri hjá HSS síðan 2018. Hann hyggst beita sér fyrir því að minnka skrifræðið svo heimilislæknar fái meiri tíma til að sinna sínum skjólstæðingum. Læknablaðið ræddi við Gunnar Þór.
„Það er töluverð vinna að sinna þessu starfi ef maður vill gera það vel,“ -segir hann um nýja hlutverkið. „En það er þess virði ef við getum haft raunveruleg áhrif á starfsskilyrði heimilislækna.“ Gunnar Þór útskrifaðist í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Hann tók kand-ídats-árið á Sjúkrahúsinu á Akranesi og við HSS í Reykjanesbæ. Hann hóf sérnám í heimilislækningum í Värmlandi í Svíþjóð, en tók stærsta hluta námsins við Heilsugæsluna í Efstaleiti. Hann hefur starfað sem yfirlæknir við heilsugæsluna í Vestmannaeyjum, hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og HSS, þar sem hann hefur verið frá 2018. „Faðir minn var einnig heimilislæknir, meðal annars á Ísafirði, svo ég hef alltaf haft sterkar taugar til landsbyggðarinnar,“ segir hann.
Heimilislæknar eigi betra skilið
Sem formaður hyggst Gunnar Þór leggja mesta áherslu á eitt brýnasta vandamál íslenskrar heilsugæslu: skriffinskuna. „Við verðum að draga úr pappírsvinnu. Okkar þekking og reynsla nýtist illa þegar við verjum stórum hluta af vinnudeginum í eyðublöð og vottorð,“ segir hann ákveðinn og bendir á að heimilislæknaskortur á Íslandi sé alvarlegur og þegar heimilislæknar eyði miklum tíma í skrifræði, minnki aðgengi sjúklinga. Mestur tími fari í vottorðagerð sem hafa með framfærslu að gera. „Það er ekki hlutverk heimilislækna”.
Samráð sem gleymdist
Gunnar Þór segir fagfélagið hafa of lítil áhrif á ákvarðanatöku um störf heimilislækna og nefnir sem dæmi breytingar á endurhæfingar- og örorkulífeyriskerfinu sem eru á lokametrunum. „Það eru stóru verkefnin sem bitna á okkur, án þess að við höfum nokkuð um það að segja,“ segir hann. Hann fagnar þó skrefum í rétta átt, svo sem breytingum á tilvísana-kerfi til barnalækna og sjúkraþjálfara. „Þetta sýnir að hægt er að breyta hlutunum, en það þarf samráð og raunverulegt samtal.“
Vottorðin – táknmynd vandans
Eitt skýrasta dæmið um ofvöxt skrifræðis eru vottorðin. Gunnar Þór segir þau hafa orðið nokkurs konar „táknmynd“ þess sem aflaga hefur farið í kerfinu. „Þegar tryggingafélög eða lögfræðiskrifstofur vilja láta á reyna með bætur eru það gjarnan heimilislæknar sem fá verkið, þó það tengist ekki læknismeðferðinni sjálfri.“ Hann rifjar upp vakt á Læknavaktinni þegar snjónum kyngdi niður 28. október. „Þá komu margir aðeins til að fá staðfest að þeir hefðu lent í árekstri – ekki vegna meðferðar. Þetta er aukavinna sem hleðst upp og tekur tíma frá raunverulegri læknisþjónustu.“
Kulnun og sóun
Könnun á vegum FÍH sýndi að verulegur hluti heimilislækna hefur glímt við kulnunareinkenni á einhverjum tímapunkti og Gunnar segir það aðallega vera vegna téðrar skriffinskuvinnu. „Það eru hagsmunir allra að þessu verði breytt; skjólstæðinganna, vegna skertrar þjónustu, ríkisins sem greiðir okkur laun og meira aðlaðandi starfsumhverfis fyrir heimilislækna.“
Aðspurður hvort hann sjái fram á átak í nánustu framtíð, segir Gunnar Þór að fagfélagið sé reiðubúið til að láta til sín taka og sé að undirbúa aðgerðir. „Það gerist ekkert fyrr en við látum finna fyrir okkur.“ Hann er þó hóflega bjartsýnn. „Við höfum þegar komið umræðunni af stað og það er fyrsta skrefið.“
Á annað hundrað í sérnáminu
Um 110 læknar eru nú í sérnámi í heimilislækningum og Gunnar Þór segir það jákvætt merki um að fagið sé að -styrkjast. „En við verðum að gera starfið aðlaðandi. Ungir læknar eiga að sjá framtíð í því að verða heimilislæknar, en ekki finna að þeir séu að fara inn í endalausa skriffinnsku, eins og margir upplifa í dag. Við viljum sem fagfélag að heimilislæknar geti nýtt tíma sinn í það sem þeir eru menntaðir til: að hlusta, greina, meðhöndla og leiða fólk í átt að betri heilsu. Þegar það gerist, græðir samfélagið allt.“
