12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Snemma beygist krókurinn. Berglind Jónsdóttir

Árið 1986 var örlagaríkt ár, ég var átta ára og fylgdist vikulega með þýsku sjónvarps-þáttunum „Sjúkrahúsið í Svarta-skógi“ hjá ömmu og afa. Ég ákvað þá og þegar að verða læknir. Seinna sama ár var undirsérgrein valin, barna-lækningar. Mamma var hjúkrunarfræðingur á Barnaspítalanum, sem mér þótti spennandi, og litla systir mín var eitt sinn lögð þar inn vegna lungnabólgu og fékk sýklalyf í æð. Mér þótti þetta alveg stórkostlegt, þarna ætlaði ég að vinna. Ég hætti alveg við fyrri áform um að eignast sjoppu og banka sem prentaði peninga. Þegar þetta lá fyrir gat ég áhyggjulaus notið barnæskunnar og skemmt mér á menntaskólaárunum, ég vissi hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór.

Læknisfræði lærði ég í Háskólanum í Kaupmannahöfn, með stuttu stoppi sem skiptinemi í Læknadeild HÍ á þriðja og fjórða ári. Barnakúrsinn var á spítalanum í Holbæk. Eftirvæntingin var mikil enda hafði ég beðið lengi. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þarna voru frábærir barnalæknar sem nutu þess að kenna og ég man ekki eftir að hafa skemmt mér jafn vel í neinu prófi eins og verklega og munnlega prófinu í barnalæknisfræði.

Eftir kandídatsár á Landspítala starfaði ég í eitt ár á Barnaspítala Hringsins. Árið á Barnaspítalanum var lærdómsríkt, Árni Þórsson og Ragnar Bjarnason sinntu börnum með innkirtlasjúkdóma sem mér fannst strax áhugavert en frekar snúið. Leiðin lá síðan til Svíþjóðar í sérnám. Við fjölskyldan settumst að í Lundi en spítalinn, Skånes universitetssjukhus, er bæði með starfsemi í Malmö og Lundi, sem jók á fjölbreytnina enda ólík-ar borgir. Í Malmö er mjög sterk hefði fyrir barnainnkirtlalækningum og rann-sóknum á því sviði. Leiðbeinandi minn í sérnáminu er barnainnkirtlalæknir og mjög virk í rannsóknum í sykursýki hjá börnum og unglingum. Svo skemmtilega vildi til að Ragnar hafði verið andmælandi hennar þegar hún varði sína doktorsritgerð, þetta var kannski einhver vísbending. Hún var ekki lengi að smita mig af sínum brennandi áhuga og kynna mig fyrir heimi vísindanna. Doktorsnám og undirsérgrein í barnainnkirtlalækningum var ekki á planinu árið 1986. Ég var aðeins treg til þess að hefja doktorsnám samhliða sérnámi í fyrstu en prófessornum sem stýrði rannsóknar-teyminu fannst ekkert vit í öðru, maður með mikinn sannfæringarkraft og óbilandi áhuga. Seinna komst ég að því að hann var einn af þeim sem uppgötvuðu betafrumumótefni á meðan ég horfði á „Sjúkrahúsið í Svartaskógi“. Aðstæður til þess að stunda doktorsnám samhliða sérnámi voru einstaklega góðar, rann-sóknarstofan var á spítalalóðinni og vinnan þar góð tilbreyting frá klínískri vinnu.

Teymið í barnainnkirtlalækningum samanstóð af einstaklega áhugasömum og skemmtilegum læknum og hjúkrunarfræðingum, það ýtti svo sannar-lega undir val mitt á undirsérgrein. Kennslan var öflug og sérfræðingarnir lögðu mikið upp úr því að við yngri læknarnir tækjum snemma ábyrgð og fengjum að taka að okkur flóknari tilfelli undir handleiðslu. Það er enn gott að geta leitað til vina minna í Skåne.

Eftir 10 ár í Svíþjóð snéri ég aftur á Barnaspítala Hringsins, þangað var gott að koma, eins og ég vissi svo sem árið 1986. Boðleiðirnar stuttar og auðvitað einstakir kollegar. Barnainnkirtlalækningar eru fjölbreyttar, innkirtla- og efnaskiptasjúkdómar greinast á öllum aldri, og sjúkdómarnir margir. Þannig getur vinnudagurinn byrjað á veikum nýbura á vökudeild og yfir daginn sinnir maður leikskólabörnum, skólakrökkum og skemmtilegum unglingum með mismunandi áskoranir.

Ég ráðlegg ungum læknum að fylgja sinni sannfæringu og velja það sem þeim finnst skemmtilegast, það er oftast vænlegt til góðs árangurs.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica