12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Barnalækningar og innkirtlalækningar barna og unglinga – frábært „val“! Ragnar Bjarnason

Eftir menntaskólaárin í MH hafði ég óljósar hugmyndir um hvað ég vildi verða þegar að ég yrði stór, reyndar snemma hávaxinn. Hafði mikinn áhuga á náttúruvísindum almennt, líffræði og jarðfræði efst á blaði. Margir af félögunum stefndu á læknisfræði sem ég ákvað að láta reyna á. Framan af var námið frekar þurrt og lítið gert til að gera það áhugavert. Allt breyttist þegar klíníska námið byrjaði.

Eftir útskrift 1985 hafði ég þekkst boð um vinnu í sex mánuði á heilsugæslu í Skara, Skaraborg, Svíþjóð. Þar fékk maður aðlögun þess tíma, það er: sýnd stöðin og síðan á vaktina eftir hádegið. Góður tími meðan sænskan síaðist inn. Þessi tími reyndist líka vel því síðan fékk ég allt sem ég vildi á kandídatsárinu. Lyflækningar á Borgarspítala og sex mánuði á barnadeildinni á Landakoti. Landakot reyndist vendipunktur, ég hafði hugsað mér heilsugæslulækningar en barnalæknarnir Þröstur Laxdal, Sævar Halldórsson og Árni V. Þórsson sögðu það af og frá, ég ætti að verða barnalæknir. Mjög ánægður með þá hvatningu í dag. 

Úr varð eins og hálfs árs vinna á barnadeildinni á Landakoti og hálft annað ár í lyflækningum á Borgarspítalanum. Gaman á báðum deildum, en barna átti betur við mig. Mikil vinna var á þessum árum, sérstaklega á Landakoti, tvískiptar vaktir í sex mánuði og síðan þrískiptar sem ég bætti upp með þyrluvöktum hjá Landhelgisgæslunni, minni óþarfur frítími. Þegar leikskólakennararnir á Njálsborg höfðu ekki séð mig í hálft ár og dóttirin alltaf sagt að ég væri í vinnunni spurðu þær mömmuna hvort við værum að skilja. Sem betur fer er vinnutíminn öðruvísi í dag þó klíníska þjálfunin hafi verið ómetanleg. Þegar strákurinn okkar fæddist, 5 árum á eftir systurinni, tók ég hálfan dag í fæðingarorlof – geri aðrir betur 2025.

Út í sérnám skyldi haldið og við Friðrik Sigurbergsson barna- og bráðalæknir fórum til Borås í Svíþjóð. Góður tími og mikil þjálfun í tvö ár. Komumst í tæri við rannsóknir fyrir alvöru. Kynntumst góðum vini, Nele Sigurs, sem spurði hvort við gætum ekki gert eitthvað við börn með respiratory cyncytial bronchiolitis sem höfðu streymt inn fyrsta veturinn og við haldið skrá yfir greiningar. Úr varð mikið rannsóknarverkefni með síðustu eftirfylgd við 18 ára aldur og ég á leið í ofnæmislækningar barna! Þá greip Árni V. Þórsson aftur í taumana og spurði hvort ég ætlaði ekki í innkirtlalækningar. Ég hafði kynnst þeim af Árna á Landakoti, og jú það gæti verið áhugavert.

Skrifaði því til Gautaborgarog fékk í framhaldinu símtal í lok júlí 1991 og spurt hvort ég gæti byrjað afleysingu í næstu viku. Fékk mánaðarfrest til að ganga frá mínum málum í Borås. Fjórum mánuðum seinna var ég byrjaður í innkirtlalækningum á Östra sjukhuset og aldrei séð eftir því.

Þar var öflug klíník þar sem mjög reyndur og duglegur klíníker var við störf, Otto Westphal, og mikil rannsóknarvinna sem Kerstin Albertsson-Wikland stóð fyrir. Hún tók mér vel og vildi fá mig í rannsóknarvinnu. En úr varð að ég valdi að vinna með Lenu Carlsson, þá nýkominni úr post doc í Bandaríkjunum. Á „gamals aldri“ lá því leiðin í „hard core molekúlar biologiu“. Skrýtið fyrir sjóaðan klíníker að kunna ekkert í því sem hann hellti sér út í,  en lærdómsríkt og gaman. Úr varð doktors-próf, post doc í London, docentur og síðan staða við Gautaborgarháskóla. Samtals 13 góð, en oft fátæk, ár í Svíþjóð, þar af eitt ár í London. Var kominn með háskólastöðu í Gautaborg en Ísland togaði.

Fjölskyldan flutti heim 2002 og ég tók 50% stöðu á Barnaspítalanum en ég hélt 50% vinnu við Gautaborgarháskóla í 5 ár. Góður tími í Svíþjóð en gott að koma heim. Hef náð að halda áfram rann-sóknum samhliða klínískri vinnu og verið 14 ár sem yfirlæknir. Mæli eindregið með vísindavinnu með klíník, hvort tveggja mjög skemmtilegt en ólíkt.

Það eru forréttindi að finna vinnu sem er alltaf jafn skemmtileg og fjölbreytt og barna- og innkirtlalækningar. Engir tveir dagar eins og börn eru skemmtileg að vinna með. Ég hef verið heppinn með samstarfsfólk í öllum starfsstéttum.

Vandið valið og finnið þá fjöl sem hentar ykkur og hlustið á ráð og ábendingar varðandi starfsval!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica