12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Samstillt átak gegn sýklalyfjaónæmi

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýst því yfir sem einni stærstu heilbrigðisógn sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ef þróunin heldur áfram óáreitt gæti það þýtt að jafnvel einfaldar sýkingar verði ómeðhöndlanlegar. Ísland hefur nú sett sér heildstæða aðgerðaáætlun til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis, þar sem lögð er áhersla á samspil manna, dýra og umhverfis. Læknablaðið ræddi við Andreas Ströberg, sérfræðing í vatnamálum hjá Umhverfis- og orkustofnun, sem heldur erindið „Salerni til sjávar“ á Læknadögum 2026.

Andreas situr í starfshópi stjórnvalda sem vinnur að framfylgd aðgerða-áætl-unarinnar fyrir árin 2025-2029 og mun flytja erindi um efnið á Læknadögum í janúar. „Við höfum lengi vitað að þróun sýklalyfjaónæmis á sér ekki eingöngu stað í mönnum og dýrum, heldur líka í umhverfinu,“ segir Andreas. „Þar skipta fráveitur lykilmáli.“ Umhverfis- og orkustofnun (UO) vinnur að því að þróa vöktunaráætlun fyrir fráveitu í samvinnu við Heilbrigðisráðuneytið, Embætti landlæknis, Sóttvarnalækni, Matvælastofnun, Þróunarmiðstöð heilsugæslu og Landspítala. Þetta er fyrsta tilraunaverkefnið sem fjár-magnað er með styrk frá Evrópusambandinu í gegnum JAMRAI2. Styrkurinn veitir UO fjármögnun til að þróa og hefja vöktun á umhverfi, og sú vöktun mun hefjast með tilraunaverkefninu á næsta ári, 2026.

Fyrsta skimun hófst árið 2019 í samstarfi við Matvælastofnun. „Við tókum sýni á ellefu stöðum á landinu og í 60 prósentum tilfella mældust lyfja-leifar í fráveituvatni,“ segir Andreas. Lyfjaleifar finnast einkum í og við skólphreinsistöðvar og þar sem lítið vatnsmagn er í lækjum, til dæmis í Kópavogslæk og Eyvindará á Egilsstöðum.

Tekið skal fram að lyfjaleifar eru ekki það sama og sýklalyfjaónæmar bakteríur. UO vaktar hvort tveggja. Sýklayfja-ónæmar bakteríur hafa þróað hæfni til að lifa af þrátt fyrir meðferð með sýklalyfjum. Þetta gerist þegar bakteríur aðlagast eftir langvarandi eða óhóflega notkun sýklalyfja. Slíkar bakteríur geta valdið sýkingum sem erfitt er að meðhöndla. Lyfjaleifar eru hins vegar leifar af sjálfum lyfjunum sem finnast í vatni og skólpi eftir að fólk eða dýr hafa fengið þau eða vegna rangrar förgunar.

 

 

Sameiginleg ábyrgð og alþjóðlegt samstarf

Ísland mun á næstu mánuðum innleiða nýja fráveitutilskipun Evrópusambandsins sem felur í sér kröfur um vöktun sýkla, lyfjaleifa og sýklalyfjaónæmis, en hún hefur ekki enn verið innleidd í EES-samninginn og þar af leiðandi ekki í íslensk lög. Ísland mun þurfa að laga sig að henni á næstu árum eftir að hún verður tekin upp í EES-samninginn, en skylda til slíkrar vöktunar samkvæmt nýju reglunum er því ekki orðin lagaleg ennþá á Íslandi. „Öll Evrópulönd eru að vinna saman að því að byggja upp sameiginlega heildstæða mynd, þar sem taka þarf á þessu vandamáli á samevrópskum grunni frekar en eingöngu á landsvísu.“ Andreas bendir á að ábyrgðin sé sameiginleg: einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og ríkið. „Við þurfum öll að taka þátt. Einstaklingar mega aldrei sturta lyfjum í klósettið, fyrirtæki þurfa að hafa góða úrgangsstýringu og stjórnvöld verða að tryggja vöktun og viðbrögð þegar vandamál koma í ljós.“

Aðgerðaáætlun Íslands byggir á sex meginþáttum: markvissri notkun sýklalyfja, fræðslu og forvörnum, bættri þekkingu og vöktun, íhlutandi aðgerðum við greiningu ónæmis, aukinni alþjóðlegri samvinnu og samhæfingu aðgerða til framtíðar. Að mati Andreasar er brýnt að efla rannsóknir á lyfjaúrgangi og áhrifum hans í vistkerfinu. „Við sjáum að ýmis lyf, til dæmis hjarta- og verkjalyf, brotna illa niður í líkamanum og enda í fráveitu,“ segir hann. „Sum þessara efna geta haft áhrif á lífríki og jafnvel borist til okkar aftur í gegnum fæðu, eins og fisk.“ Hann tekur skýrt fram að verkefnið sé í þróun og að niðurstöður næstu ára muni verða grundvöllur áframhaldandi stefnumótunar. „Við erum að móta aðferðafræði og ákvarða hvernig best er að nýta mælingarnar. Þetta er hluti af stærra alþjóðlegu verkefni sem á eftir að skipta miklu fyrir lýðheilsu og umhverfisvernd.“

 

Að lokum leggur Andreas áherslu á jákvætt hugarfar: „Þó Ísland standi vel miðað við önnur lönd er mikilvægt að við bregðumst tímanlega við. Með samstilltu átaki getum við tryggt að framtíðin verði ekki sú að sýklalyf hætti að virka.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica