12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Orkuhúsið þverfagleg þjónusta á sviði stoðkerfisvandamála

Orkuhúsið í Urðarhvarfi er samstarf þriggja fyrirtækja á sviði stoðkerfisvandamála. Að Orkuhúsinu standa Læknastöðin, Sjúkraþjálfun Íslands og Röntgen Orkuhúsið og hafa þessir aðilar starfað saman frá byrjun. Haukur Björnsson, bæklunarskurðlæknir hjá Læknastöðinni segir samsteypuna leiðandi í fagmennsku, áreiðanleika og persónulegri þjónustu að öllu því sem snýr að stoðkerfi líkamans.

„Það var eiginlega ekki um neitt annað að velja en að fara að vinna í Orkuhúsinu þegar ég kom heim úr sérnámi, þar sem hvergi annarsstaðar var verið að gera það sem ég hafði sérhæft mig í,“ segir Haukur Björnsson, bæklunarskurðlæknir, með sérhæfingu í öxlum og hnjám. „Það voru algjör forréttindi að ganga inn í þá vel smurðu starfssemi sem forverar minir höfðu byggt upp, en hugsunin er að hér geti skjólstæðingar fengið þverfaglega þjónustu varðandi stoðkerfisvandamál og þannig farið í myndrannsókn, hitti lækni og farið í sjúkraþjálfun,“ segir Haukur, sem sjálfur lauk sérnámi í bæklunarskurðlækningum frá Sahlgrenska háskólasjúkrunahúsinu 2010 og doktorsprófi frá háskólanum í Gautaborg árið 2016.

 

Haukur að laga slitið fremra krossband. Mynd Orkuhúsið.

Þótti ótækt að skjólstæðingar þyrftu að bíða í marga mánuði eftir aðgerðum

Orkuhúsið var upphaflega stofnað árið 1997 af þeim Ágústi Kárasyni, Brynjólfi Jónssyni og Stefáni Carlssyni bæklunarlæknum ásamt Sighvati Snæbjörnssyni svæfingalækni. Starfsemin byrjaði í einni skurðstofu í Álftamýri, var á Suðurlandsbraut frá árinu 2003 og fluttist svo í Urðarhvarf fyrir fimm árum.

En, hver var aðdragandinn að stofnun Orkuhússins? „Samkvæmt einum af stofnendunum þá voru, á árunum áður en Orkuhúsið var stofnað, ungir sérfræðingar að koma heim með nýja þekkingu, til dæmis hvernig var hægt að laga krossbönd og axlaáverka. Ekki var pláss fyrir þetta á spítalanum og biðlistar urðu bara lengri og lengri þar sem annað hafði forgang. Mönnum fannst ekki hægt að bjóða skjólstæðingum upp á að bíða í marga mánuði eftir aðstoð og þar sem mikið hagkvæmara og ódýrara var að framkvæma þessar aðgerðir á einkarekinni læknastöð, var farið af stað með að opna Orkuhúsið,“ segir Haukur.

Aðspurður hvers vegna Hann hafi valið sína sérgrein, segist Haukur í raun ekki muna hvenær eða hvernig hann tók endanlega ákvörðun um að fara í læknisfræði: „Ég man samt eftir því strax í grunnskóla að það var það sem mig langaði að gera og það hefur aldrei breyst. Faðir minn er læknir og það gæti hafa ýtt undir þá ákvörðun. Ætli bæklunarskurðlækningarnar séu ekki tilkomnar vegna áhuga míns á íþróttum og því að vinna með höndunum. Ég hef þannig náð að sameina starfið mitt og áhugamál, en ég hef verið læknir karlalandsliðsins í knattspyrnu síðastliðin tíu ár,“ segir Haukur.

Samstarf þriggja fyrirtækja á sviði stoðkerfisvandamála

Sem fyrr segir, er Orkuhúsið samstarf þriggja fyrirtækja á sviði stoðkerfisvandamála, en þau eru Læknastöðin, Sjúkraþjálfun Íslands og Röntgen Orkuhúsið.

Sjúkraþjálfun Íslands starfrækir bæði stofur í Urðarhvarfi og í Kringlunni. Á þeim starfa nú samtals 56 sjúkraþjálfarar sem sinna allri hefðbundinni sjúkraþjálfun en hafa sérhæft sig í stoðkerfisvandamálum, íþróttameiðslum, sogæðameðferð og endurhæfingu eftir hnjá- og axlaraðgerðir. Nálastungumeðferðir eiga sér stað á báðum stöðum auk þess sem gerð eru þrekpróf og ýmsar mælingar, svo sem mjólkursýrumælingar. Sjúkraþjálfararnir eru í góðum tengslum við íslenska íþróttahreyfingu og starfa með mörgum félagsliðum og landsliðum Íslands. Röntgen Orkuhúsið er í eigu Íslenskrar myndgreiningar ehf. og veitir heildastæða myndgreiningarþjónstu með sérhæfðum úrlestri allra líffærakerfa.

Framkvæma nú bæði brjósklosaðgerðir og liðskiptaaðgerðir

Allir skjólstæðingar sem sækja þjónustu til Orkuhússins koma með tilvísun frá heimilislækni eða sjúkraþjálfara og greiða Sjúkratryggingar hluta, eða allan kostnað þeirra sem eru sjúkratryggðir vegna heilbrigðisþjónustu, en það fer eftir greiðslustöðu hvers og eins hjá Sjúkratryggingum. Fimm ára samningur á milli Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga var undirritaður 1. september árið 2023.

„Á Læknastöðinni starfa rúmlega 70 manns, þar með talið bæklunarlæknar, heila- og taugaskurðlæknar, svæfingalæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, heilbrigðisgagnafræðingar og móttökuritarar. „Læknastöðin sinnir miklum fjölda fólks með stoðkerfisvandamál alls staðar að af landinu. Á skurðstofum félagsins eru gerðar um 6000 aðgerðir á ári, einkum ýmsar liðspeglunaraðgerðir, krossbandsaðgerðir, handa- og fótaaðgerðir og brjósklosaðgerðir. Mestmegnis eru það dagaðgerðir þar sem sjúklingar fara fljótlega heim að lokinni aðgerð. Við erum alltaf að skoða hvernig við getum þróað og útvíkk-að okkar starfsemi. Við skrifuðum til dæmis undir þriggja ára samning við Sjúkratryggingar Íslands um framkvæmd hryggjar- og liðskiptaaðgerða á árinu. Þrír heila- og taugaskurðlæknar hafa sinnt hryggjaraðgerðunum og framkvæmt brjósklosaðgerðir í gegnum smásjá, en með þeim hætti er unnt að minnka inngrip með minna skurðsári og flýta bata þannig að sjúklingar geta farið heim samdægurs og eru fljótari að jafna sig. Þá eru þrír bæklunarskurðlæknar sem sérhæfa sig í liðskiptaaðgerðum að framkvæma liðskiptaaðgerðinar. Þeir sjúklingar liggja inni á legudeild hjá okkur í eina nótt eftir aðgerð. Við leggjum metnað okkar í að veita sem besta þjónustu við sjúklinga í þægilegu umhverfi,“ segir Haukur.

Leiðandi í fagmennsku, áreiðanleika og persónulegri þjónustu

Haukur segir framtíðarsýn Orkuhússins skýra; „Læknastöðin er í örum vexti og hefur starfsemin nærri tvöfaldast eftir flutning í nýtt húsnæði árið 2020. Við erum nýlega búin að fjölga skurðstofum úr fjórum í sex og tókum meðal annars aðra hæð í sama húsnæði á leigu vegna fjölgunar lækna og nýrra verkefna. Þessa dagana erum við að undirbúa nýtt verk-efni hjá stöðinni, en við erum búin að koma á fót verkjateymi. Það mun sérhæfa þjónustuna að verkjum tengdum stoðkerfi líkamans. Við vitum að þörfin er mikil og allt að nokkurra ára bið eftir að komast að hjá verkjateymi Landspítalans. Móttaka fyrstu sjúklinga er í nóvember, en svo verðum við að sjá hvaða meðferðir Sjúkratryggingar samþykkja inn á gjaldskrá, en viðræður milli þeirra og svæfingalækna standa yfir. Svæfingalæknar sem hafa sérhæft sig í verkjalækningum leiða verkefnið, en það er þverfaglegt með öllum fyrirtækjum Orkuhússins.

En, okkar markmið er fyrst og síðast að vera leiðandi í fagmennsku, áreiðanleika og persónulegri þjónustu við aðgerðir og meðferð á vandamálum sem snúa að stoðkerfi líkamans. Þannig veitum við einstaklingum þá þjónustu sem nauðsynleg er til að viðhalda lífsgæðum og virkni í lífi og starfi,“ segir Haukur að lokum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica