12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Breytt úthlutanakerfi Vísindasjóðs Landspítala

Í ár verða gerðar veigamiklar breytingar á úthlutunarkerfi Vísindasjóðs Landspítala. Þessar breytingar byggja á þeim áherslubreytingum sem koma fram í nýrri vísindastefnu spítalans. Í stuttu máli er stefnan sú að styrkja vísindarannsóknir innan spítalans og leggja áherslu á stór og metnaðarfull verkefni sem líkleg eru til að leiða til birtingar sem vísindagreinar og á alþjóðlegum ráðstefnum. Til þess að ná þessum markmiðum er fyrirhugað að veita stærri styrki til allt að þriggja ára.

Um þrenns konar styrki verður að ræða:

a. Fimm hvatningarstyrkir, allt að sex milljónir króna til þriggja ára (samtals átján milljónir króna)

b. 28 almennir styrkir, allt að tvær milljónir króna til þriggja ára (samtals sex milljónir króna)

c. Fimm styrkir til ungra vísindamanna að upphæð 1,5 milljónir króna til tveggja ára (samtals þrjár milljónir króna)

Styrkina má nýta til að standa straum af launakostnaði og aðstöðu við rannsóknir samkvæmt fjárhagsáætlun, en ekki ráðstefnuferðum eða birtingarkostnaði þar sem hægt er að sækja um styrk í birtingarsjóð.

Önnur veigamikil ástæða þessara breytinga er sú staðreynd að vísindasamfélagið á spítalanum er lítið og erfitt er að halda uppi gagnsæi og faglegri umsýslu umsókna þar sem hagsmunatengsl geta verið til staðar.

Samningur var gerður við Rannsóknarmiðstöð Íslands (RANNÍS) um umsýslu matsferlis. RANNÍS býr yfir mikilli reynslu í umsýslu rannsóknarsjóða og annast nú þegar marga slíka. Stjórn Vísindasjóðs verður eftir sem áður á Landspítala og Vísindaráð sér um að marka sjóðnum stefnu og er í samskiptum við RANNÍS. Skipað hefur verið fagráð matsmanna með erlendum sérfræðingum og fá þeir greitt fyrir vinnu sína. Á bak við fagráðið eru erlendir sérfræðingar í hverri sérgrein. Hver umsókn fær tvo matsmenn og skilað er inn skriflegu mati á hverri umsókn. Umsóknir eru sendar inn rafrænt á slóðinni rannis.is – Mínar síður – Umsóknir – Nýskráning – Vísindasjóður Landspítala og er opið fyrir hvatningastyrki og almenna styrki til og með 8. desember 2025.

Með þessum breytingum er stefnt á að styrkja vísindastarfið á spítalanum og ýta undir myndun rannsóknarhópa. Kosturinn við stóra þriggja ára styrki er sá að þá geta vísindamenn einbeitt sér að vísindastarfinu og hafa betra fjárhagslegt öryggi á meðan á vísindaverkefninu stendur. Þannig geta ábyrgðarmenn rann-sóknar (PIs) ráðið til sín yngri sam-starfsmenn eða doktorsnema og sett upp minni verkefni innan stórra rannsóknarverkefna. Þannig er gert ráð fyrir að stóru styrkirnir nýtist að nokkru til þjálfunar ungra vísindamanna. Eftir sem áður verða í boði rannsóknarstyrkir fyrir unga vísindamenn.

Styrkirnir verða afhentir á sameigin-legu vísindaþingi Heil-brigðis-vísinda-sviðs og Landspítala: Vísindi á vordögum, 9. apríl 2025. Þessi tilfærsla í tíma styttir eitthvað umsóknarfrestinn, en almennt eru umsóknir að skila sér í lok umsóknarfrests og með góðri kynningu eigum við von á mörgum sterkum umsóknum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica