11. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Krabbameinslækningar. Fag í sífelldri þróun. Þóra Rún Úlfarsdóttir

Áður en ég hóf læknanámið starfaði ég í sex mánuði sem sjálfboðaliði á sjúkrahúsi í Suður-Afríku. Það var mikil lífsreynsla og styrkti enn frekar áhuga minn á heilbrigðismálum og manneskj-unni sjálfri í víðara samhengi. Ég ákvað að hefja læknanámið í Danmörku, fyrst við háskólann í Árósum og síðar í Kaupmannahöfn. Á námsárunum fékk ég einnig að kynnast heilbrigðisstarfi á afskekktum stað með allt öðrum áskorunum en ég hafði áður kynnst þegar ég vann eitt sumar sem læknanemi í Nuuk á Grænlandi.

Ég útskrifaðist úr læknadeild Háskólans í Kaupmannahöfn árið 2013. Þá var ég komin fimm mánuði á leið með annað barnið mitt og tími til kominn að flytja aftur heim. Á þeim tíma var ég ekki viss um hvaða sérgrein hentaði mér best en komst fljótlega að því á kandidatsárinu að lyflækningar áttu vel við mig. Sama ár og ég klára kandidatsárið var verið að taka upp nýtt og metnaðarfullt sérnámsprógram í almennum lyflækningum á Landspítalanum. Þar starfaði ég sem deildarlæknir í rúm þrjú og hálft ár. Sem hluta af náminu í lyflækningum starfaði ég á krabbameinsdeildinni og göngudeild krabbameina. Mér fannst sérgreinin ótrúlega fjölbreytt og verkefnin oft flókin, en á sama tíma mjög gefandi. Það heillaði mig hvernig hið læknandi og líknandi fléttast saman í þessu fagi, ekki aðeins baráttan við sjúkdóminn heldur líka viðleitnin til að varðveita vonina og lífsgæðin. Á þessum árum urðu einnig miklar framfarir í krabbameinslækningum, einkum með tilkomu ónæmismeðferða sem fyrir marga sjúklinga með útbreiddan sjúkdóm leiddu til lengri lifunar og langvarandi sjúkdómsstjórnunar – eitthvað sem áður þótti óhugsandi. Krabbameinslækningar voru ört vaxandi og spennandi sérgrein. Það var góður andi á deildinni og ég sóttist eftir æ lengri viðveru þar í náminu og áttaði mig smám saman á því að þetta væri mín sérgrein. Ég fékk góða leiðsögn og stuðning frá reyndum og frábærum kollegum, meðal annars Örvari Gunnarssyni, Agnesi Smáradóttur, Ásgerði Sverrisdóttur, Óskari Þ. Jóhannssyni og Helga Sigurðssyni.

Ég hélt út í sérnám í krabbameins- og geislalækningum við háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð. Ég starfaði mestmegnis í Lundi, en einnig í Malmö, Helsingborg, Varberg og Halmstad. Í náminu hafði ég hvað mestan áhuga á krabbameinum í meltingarfærum og tók þátt í rannsóknum samhliða klínísku starfi þar sem við skoðuðum gildi ákveðinna þátta fyrir horfur einstaklinga með krabbamein í neðri meltingarvegi og meinvörp í lífhimnu sem hafa gengist undir meðferð með CRS/HIPEC.

Eftir eitt ár sem sérfræðilæknir í Svíþjóð snérum við fjölskyldan aftur heim til Íslands í ágúst 2024. Árin fram að því höfðu einkennst af mörgum flutningum og var þetta í sjötta skiptið sem búslóðin var flutt yfir Atlantshafið.

Dvölin úti var í heildina fimm og hálft ár. Þetta voru lærdómsrík og mótandi ár og ég kynntist mörgum frábærum krabbameinslæknum og vísindamönnum sem hafa orðið mér miklar fyrirmyndir og er ómetanlegt að geta leitað til.

Í dag starfa ég sem krabbameinslæknir á Landspítalanum við Hringbraut með áherslu á krabbamein í meltingarfærum og lungum, sem og ólæknanlegum krabbameinum á höfuð- og hálssvæði. Vinnan er mjög fjölbreytt og skemmtileg en oft krefjandi. Fagið er þverfaglegt og byggir á nánu samstarfi margra sérgreina. Framfarir geta verið hraðar og þá geta meðferðarmöguleikar breyst ört og ný þekking getur haft bein áhrif á líf sjúklinga, sem gerir sérgreinina síbreytilega og afar spennandi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica