11. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Krabbameinslækningar – hverjum dettur það í hug!

Þegar ég var í sérnámi í almennum lyflækningum í Bandaríkjunum, heillaðist ég af blóð- og krabbameinslækningum. Mér fannst fagið mjög fjölbreytt og tengdist flestum undirsérgreinum lyf-lækninga. Þá sá maður og upplifði hversu náið samstarf var við hjúkrunarfræðinga, aðra heilbrigðisstarfsmenn sem oftar en ekki þekktu sjúklingana og fjölskyldur þeirra mjög vel. Ég held að margir utan heilbrigðiskerfis geri sér ekki grein fyrir hversu gefandi það er að starfa við þetta fag. Vissulega koma oft erfiðir tímar en það að starfa svo náið með öðrum er bæði styrkjandi og nærandi.

Ég útskrifaðist úr Læknadeild Háskóla Íslands 1995. Leiðin lá á kandidatsár á „Borgarspítalanum“ eða Land-spítalanum Fossvogi. Það var afar skemmti-legur tími. Ég fékk síðan áframhaldandi stöðu á lyflækningadeildinni en skipti yfir á barnadeildina í Fossvogi 1998 þar sem ástæðan fyrir því að ég fór í læknisfræði í upphafi var að verða barnalæknir. Ég fann fljótt að það að starfa með fullorðnum átti betur við mig. Helstu fyrirmyndir á þeim tíma voru sérfræðingar sem nýlega voru komin úr sérnámi erlendis, svo sem Óskar Einarsson, Runólfur Pálsson og Friðbjörn Sigurðsson, auk Hugrúnar Ríkarðsdóttur sem var frábær kennari og mikil fyrirmynd og stefndi ég að smitsjúkdómalækningum barna eða fullorðinna. Þá kom Hákon Hákonarson til starfa á barnadeildinni í Fossvogi meðan ég starfaði þar og var afar góður kennari og hvatti mann til dáða. Öll höfðu þau verið í sérnámi í Bandaríkjunum, sem varð til þess að ég fór í sérnám þangað.

Árið 1999 fór ég ásamt eiginmanni mínum og þriggja ára syni til Connecticut og hóf sérnám í almennum lyflækningum við Háskólann í Connecticut (UCONN). Við upphaf sérnáms í almennum lyflækningu stóð hugur minn til smitsjúkdómalækninga en á námstímanum kynntist ég fyrir tilviljun náið starfi krabbameinslækna og sú starfsgrein heillaði mig eins og fram hefur komið. Árin í Bandaríkjunum voru afar lærdómsrík og fjölskyldan undi sér vel.

Ég lauk sérnáminu í almennum lyflækningum 2002 og tók sérfræðingspróf sama ár og hóf nám í undirsérgrein, „fellowship“ í krabbameinslækningum og blóðmeinafræði og var áfram við UCONN. Sérnámið var vel skipulagt og skiptist á milli þessara tveggja sérgreina. Einu sinni í mánuði voru kvöldfyrirlestrar þar sem boðið var uppá kvöldmat með grunnvísindateyminu á UCONN, efni fyrirlestrana, „fannst okkur“ alltaf það sama, verið að rannsaka samspil ónæmiskerfisins og sortuæxla, og gengu rannsóknir út á það hvort hægt væri að örva ónæmiskerfið til að ráðast á sortuæxlisfrumur. Skemmst er frá því að segja að niðurstöður voru alltaf frekar mikil von-brigði en það átti sannarlega eftir að breyt-ast. Á námstímanum rannsakaði ég samspil krabbameinslyfja og storkukerfisins og tók þátt í fjölmörgum vísindaverkefnum.

Ég lauk sérnámi 2005 og tók sérfræð-ingspróf sama ár. Eftir sex ára dvöl í Bandaríkjunum fluttum við aftur til Íslands þar sem ég hafði fengið stöðu við krabbameinsdeildina á Landspítalanum.

Nú í haust eru 20 ár frá því að ég hóf störf sem sérfræðingur. Stórfelldar framfarir hafa orðið í krabbameinslækningum á þessum árum og bylting hefur orðið í meðferð margra krabbameina með tilkomu nýrra lyfjaflokka sem gjörbreyta meðferðarmöguleikum auk framfara í greiningu krabbameina og í öðrum greinum sem koma að meðferð þeirra.

Ég hvet lækna sem eru að hugsa um sérnám að íhuga krabbameinslækningar. Mikilvægt er að hafa góðan grunn í almennri lyflæknisfræði. Þetta er spennandi fag í örri þróun og fullt af tækifærum bæði í klínísku starfi og vísindum til að vaxa sem læknir, vísindamaður og manneskja.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica