11. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Doktorsvörn við læknadeild Háskóla Íslands. Arnar Snær Ágústsson
Föstudaginn 3. október 2025 varði Arnar Snær Ágústsson doktorsritgerð sína við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif blóðþynningar- og bólgueyðandi lyfja á horfur einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein: lýðgrunduð rannsókn (Impact of anticoagulation and immunosuppressive drugs on the prognosis of patients with colorectal cancer: a population-based study).
Andmælendur voru dr. Martti Farkk-ila, prófessor emeritus við Háskólann í Helsinki, og dr. Richard Goldberg, prófessor við West Virginia University School of Medicine í Bandaríkjunum.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Einar Stefán Björnsson, prófessor og meðleiðbeinandi var Jóhann Páll Hreinsson, sérfræðingur. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ásgerður Sverrisdóttir, sérfræðingur, Helgi Birgisson, sérfræðingur, Sigrún Helga Lund, prófessor og Sigurdís Haraldsdóttir, prófessor.
Nýgengi ristils- og endaþarmskrabbameina fer vaxandi og greinast þau oftast vegna blæðingartengdra einkenna. Blóðþynningarlyf hafa verið tengd við auknar blæðingar frá slíkum æxlum, en óljóst er hvort það endurspeglar raunverulega fjölgun tilfella eða einfaldlega fleiri greiningar vegna blæðinga. Lítið hefur verið rannsakað hvort blóðþynningarlyf geti stuðlað að snemmgreiningu og þar með bætt horfur.
Áhrif hjartamagnýls á lifun sjúklinga með krabbamein hafa verið umdeild, og óvíst hvort og með hvaða hætti lyfið hefur verndandi áhrif. Ekki hefur verið kannað hvort notkun stera eða bólgueyðandi lyfja (DMARDs) fyrir greiningu geti haft áhrif á lifun sjúklinga með ristils- og endaþarmskrabbamein, þó báðir þessi lyfjaflokkar hafi tengst bættri lifun í há-áhættuhópum.
Nýttir voru lýðgrundaðir gagnagrunnar frá Krabbameinsskrá, Lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis, Dánarmeinaskrá og Blóðþynningargagnagrunni. Myndaður var samræmdur gagnagrunnur yfir alla einstaklinga með ristils- og endaþarmskrabbamein á Íslandi á árunum 2000–2019, með ítarlegum klínískum upplýsingum úr sjúkraskrám þeirra.
Blóðþynningarlyf tengdust hlutfallslega oftar blæðingum orsökuðum af ristilkrabbameinum og sepum í ristli.
Notkun blóðþynningarlyfja tengdist oftar blæðingartengdum einkennum við greiningu og betri krabbameinssértækri lifun, en verri heildarlifun. Ekki fannst marktækur munur á stigun sjúkdómsins. Þannig virðast blóðþynningarlyf auka líkur á greiningu vegna blæðinga, en ekki er hægt að fullyrða að snemmgreining sé skýringin á betri lifun.
Hjartamagnýl tengdist betri lifun, einkum vegna færri sjúklinga sem greind-ust með stig IV sjúkdóm (16% vs. 24%), sem bendir til að hjartamagnýl hafi hindrandi áhrif á meinvörp hjá ristilkrabbameinum.
Sterar höfðu ekki marktæk áhrif á lifun og hópur DMARD-notenda var of fámennur til að draga ályktanir af niðurstöðum.
Hvað segir nýdoktorinn?
Það er stórkostleg tilfinning að verja doktorsritgerð eftir margra ára strit – svolítið eins og að komast á toppinn á erfiðu fjalli. Spretthlauparinn ég hefði seint trúað því að ég gæti lokið svona langhlaupi.
Af hverju vildir þú verða læknir?
Ég ákvað að verða læknir sjö ára gamall, eftir harða samkeppni við draumastörf eins og ofurhetja, rokkstjarna og næsti Harry Potter. Í minniháttar tilvistarkreppu sem þrettán ára fannst mér fátt annað geta skipt jafn miklu máli fyrir nærumhverfið og að vera læknir. Þegar fólk hefur heilsu hefur það marga bolta á lofti – en þegar heilsan bregst snýst allt um að ná henni aftur.
Hversu erfitt er að verða doktor, á skalanum 1-10?
Stundum er þetta þægilegur fjarki, en stundum tíu þegar mörg verkefni með skamman fyrirvara og skamman skilafrest rekast á. Í heildina er rannsóknarnám bæði erfitt og gefandi – reynsla sem ég er þakklátur og auðmjúkur fyrir og mun nýtast mér beint í klínísku starfi.
Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
Það er bæði erfitt og vanþakklátt starf, og ég vona að mér auðnist að halda mér utan hins pólitíska sviðs á starfsævinni.
Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
Matarboð, snúðakaffi og kakóhittingar með vinum og fjölskyldu eru efst á listanum. Hreyfing er nauðsynleg, en ég hef líka unun af því að lesa góðar bækur og missa mig í nýjustu Netflix-æðunum. Nokkuð hefðbundið … nema kannski karaoke-hittingarnir, þeir eru algjör nauðsyn!
Á myndinni eru talið frá vinstri Sædís Sævarsdóttir, dr. Martti Färkkilä, nýdoktor Arnar Snær Ágústsson og dr. Richard Goldberg.
