10. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Vottorðaþjónusta ríkisins. Oddur Steinarsson
Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um óþarfa skriffinsku í íslensku heilbrigðiskerfi. Hafa nokkrar úrbætur nú orðið, til dæmis hvað varðar tilvísanir fyrir börn og lyfjaskírteini.
En tímafrekustu vottorðin sem við læknar gerum eru vottorð til lögmanna og tryggingafélaga. Í janúar 2023 skilaði vottorðanefnd, undir minni formennsku, af sér tillögu að reglugerð um vottorð og fleira. Í tillögum nefndarinnar var lögð til eftirfarandi skilgreining á hugtakinu vottorð: ,,Lýsing heilbrigðisstarfsmanns á samskiptum sínum og sjúklings sem hann hefur sjálfur veitt heilbrigðisþjónustu og byggir á því sem hann veit sönnur á og fram kemur í sjúkraskrá sjúklings. Vottorð eru gerð fyrir beiðni sjúklings eða opinberra aðila.“
Heilbrigðisráðuneytið breytti tillögum hópsins og heilbrigðisráðherra undirritaði reglugerð nr. 82/2025 um vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna hinn 14. janúar síðastliðinn.
Að mati Læknafélags Íslands (LÍ) er skilgreining á hugtakinu vottorð rýmri í reglugerðinni en 3. mgr. 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, gerir ráð fyrir. Reglugerðin er sett með stoð í þeim lögum. Skilgreiningu hugtaksins vottorð er lýst svo í 5. tl. 2. gr. reglugerðarinnar: ,,Lýsing heilbrigðisstarfsmanns á samskiptum sínum og sjúklings, sem hann hefur sjálfur veitt heilbrigðisþjónustu og veit sönnur á eða byggir á því sem fram kemur í sjúkraskrá sjúklingsins.“
Að mati LÍ er þessi skilgreining í ósamræmi við lýsingu vottorðs í 1. málsgr. 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr 34/2012, sem segir að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn skuli ,,votta það eitt er þeir vita sönnur á …“
Ósamræmið felst í því að lagaákvæðið leggur áherslu á að heilbrigðisstarfsmenn votti það eitt er þeir vita sönnur á. Reglugerðarákvæðið bætir við „eða byggir á því sem fram kemur í sjúkraskrá sjúklings.“ Með því er verið að láta lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn votta um eitthvað sem fram kemur í sjúkraskrá, sem þeir vita engar sönnur á, því það er eitthvað sem annar læknir eða heilbrigðisstarfsmaður hefur ritað. Með því er ekki verið að ,,votta það eitt er þeir vita sönnur á.“
LÍ, Félag íslenskra heimilislækna og fyrrverandi framkvæmda-stjóri LÍ hafa bent á þetta ítrekað, meðal annars í umsögnum um reglugerðardrögin í samráðsgátt stjórnvalda.
Heilbrigðisráðuneytið virðist með þessari rýmkun á hugtakinu vottorð fyrst og fremst vera að gæta hagsmuna lögmanna og tryggingafélaga um leið og læknar sjúkratryggingakerfisins eru skikkaðir til að gera mun víðtækari vottorð en það sem þeir hafa komið að sem læknar.
Mér er ekki kunnugt um sambærilegt fyrirkomulag í nokkru nágrannaríki. Vottorðakvöðin var mun minni í Svíþjóð á þeim árum sem ég starfaði þar. Stjórn LÍ er þessa dagana að senda Umboðsmanni Alþingis erindi um þetta enda telur LÍ vottorðareglugerðina ekki í samræmi við þau lagaákvæði sem hún sækir stoð sína til.
Þá er annað áhugavert við vottorð og verðlagningu þeirra, en hún byggir á reglugerð sem heilbrigðisráðuneytið setur. Vottorð sem einstaklingar þurfa sjálfir að greiða, svo sem vegna ófrjósemisaðgerða eða örorku til lífeyrissjóðs, hverjar tuttugu mínútur í vinnu við slík vottorð eru orðnar dýrari en sami tími við vinnu vottorða til lögmanna og tryggingafélaga. Fram til ársins 2023 voru umrædd vottorð á sama verði. Á árunum 2021-2024 hafa vottorð til lögfræðinga og tryggingafélaga einungis hækkað um 11%, á sama tíma og flest önnur vottorð hækkuðu um 23%. Í dag þarf einstaklingur að greiða 18.750 kr. fyrir klukkustundar vinnu fyrir vottorð vegna örorku til lífeyrissjóðs, en greiddar eru 16.954 kr. fyrir klukkustundar vinnu vegna vottorða til lögmanna eða tryggingafélaga.
Að mínu mati, og fleiri kollega, er þessi stjórnsýsla ekki eðlileg. Það fer oft margra klukkustunda vinna í vottorð sem læknar eru skikkaðir til að gera fyrir lögmenn og tryggingafélög. Þeim tíma er að okkar mati betur varið í að sinna sjúklingum. Kvöðin um að votta úr allri sjúkrasögu er ekki eðlileg. Þá er verðlagning þessarar vinnu einnig út úr korti hvað varðar mismunun og gjaldið. Ég veit ekki til þess að nokkur lögmannsstofa rukki undir 30.000 kr. á klukku-tímann auk virðisaukaskatts fyrir vinnu lögmanna. Á sama tíma eiga læknar að vinna á 16.954 kr. á klukkutímann við þessa vinnu fyrir lögmenn og tryggingafélög. Vonandi bregst Umboðsmaður Alþingis við erindi LÍ þannig að reglugerðin verði lagfærð í kjölfarið. Við sem erum að vinna á gólfinu viljum að okkar tími fari sem mest í að sinna okkar skjólstæðingum, en ekki í skylduvinnu fyrir utanaðkomandi hagsmunaaðila.