10. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Meinafræði. Leiðin að réttu hillunni. Gígja Erlingsdóttir
Þegar ég var sex ára gömul ætlaði ég að verða mamma þegar ég yrði stór og eiga sextán börn! Ég vildi líka verða rútubílstjóri. Hvorugt rættist, börnin urðu einungis þrjú og starfsvalið gjörólíkt. Að stúdentsprófi loknu hóf ég nám í hjúkrunarfræði við HÍ með þann draum um að verða ljósmóðir. Á öðru ári námsins kviknaði áhuginn á því að verða læknir. Ég sló til og haustið 2007 hóf ég nám í læknisfræði við Læknadeild HÍ. Ég vann meðfram námi á hjúkrunarheimilum, lyflækningasviði LSH og heilsugæslum. Þegar líða fór að útskrift þurfti að huga að sérnámsvali. Lyflækningar voru efstar á lista en heimilislækningar komu einnig til greina. Að kandídatsári loknu var ég enn óákveðin. Ég var þá hvött til að sækja um starf á meinafræðideild Landspítalans af Rebekku Guðrúnu Rúnarsdóttur, góðri vinkonu úr læknadeildinni sem þá var sérnámslæknir þar.
Meinafræði? Það væri talsverð U-beygja frá fyrri áformum um klínískar læknisgreinar. Mér þótti sjúkdómafræðin áhugaverð og meinafræðikúrsinn hafði verið skemmtilegur en smásjárskoðunin fannst mér reyndar lítið spennandi. Ég man hvað ég fagnaði því eftir verklega prófið að ég þyrfti aldrei aftur að skoða í smásjá. Lítið vissi ég þá.
Ég ákvað að sækja um, fékk starfið og fann fljótt að þarna átti ég heima. Vinnuandinn var einstaklega góður og verkefnin skemmtileg og fjölbreytt. Margt nýtt þurfti að læra, enda starfið afar ólíkt klínískum læknisstörfum. Í upphafi var mikilvægt að ná góðri færni í úrskurði á vefjasýnum og síðar var meiri áhersla lögð á smásjárskoðun og gerð vefjafræðisvara. Krufningar þurfti líka að læra. Ég var sérnámslæknir á deildinni í þrjú og hálft ár en deildin hefur heimild til að mennta tvö ár af sérnámi í meinafræði. Flutningar erlendis voru þannig óhjákvæmilegir.
Haustið 2019 flutti ég með minni fjöl-skyldu til Lundar í Svíþjóð. Ég hafði fengið stöðu við Skånes universitetssjukhus þar sem ég lauk sérnáminu á þremur árum, í Malmö og Lundi. Ég kom faglega vel undirbúin eftir árin á Íslandi sem auðveldaði töluvert aðlögun á nýjum vinnustað. Nýlega var búið að stafræna meinafræðina á Skáni. Smásjárgler voru skönnuð inn og vefjasneiðar skoðaðar nær eingöngu á tölvuskjám. Þetta fannst mér algjör bylting. Sérnámið var vel skipulagt og öðlaðist ég mjög dýrmæta þekkingu og reynslu undir handleiðslu reyndra sérfræðinga. Samhliða náminu var ég þátttakandi í rannsóknum á lungnakrabbameinum í Lundi sem enn eru að gefa af sér vísindagreinar.
Að sérnámi loknu, haustið 2022, flutti ég rakleiðis til Íslands til að sameinast fjölskyldu minni sem hafði þegar snúið heim. Ég var lánsöm að mér bauðst sérfræðingsstaða á Landspítalanum fljótt eftir heimkomu. Það var gott að hitta aftur gömlu og góðu samstarfsfélagana. Nú þurfti þó að venja sig aftur við smásjána þar sem við höfum ekki enn stafrænt starfsemina hér á landi.
Meinafræði er mörgum framandi fag og þarf ég gjarnan að útskýra fyrir fólki hvað starfið felur í sér. Vinnudagurinn fer að mestu í að setja hinar ýmsu vefjagreiningar eftir skoðun á vefjasýnum. Allt frá algengum góðkynja sjúkdómum, svo sem botnlangabólgu, yfir í ólík illkynja mein og sjaldgæfa sjúkdóma. Við vinnum svolítið á bakvið tjöldin í heilbrigðisþjónustunni og það hentar mér vel. Við eigum gott samstarf við klíníska lækna sem gefur okkur innsýn í sjúkdómsgang og meðferðir sjúklinganna. Ég finn til mikillar ábyrgðar í þessu starfi þar sem sjúkdómsgreiningar sem við setjum hafa áhrif á hvaða meðferð sjúklingarnir hljóta. Mig langar að hvetja unga lækna sem eru óákveðnir og eiga eftir að finna sína hillu til að muna eftir meinafræði sem möguleika. Ég er þakklát fyrir það val alla daga og hef aldrei séð eftir því.