10. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
„Hér getum við bæði vaxið faglega og notið fjölskyldulífsins betur“
Læknahjónin Helga Rut Magnúsdóttir Halfin og Maxim Halfin kynntust í Ungverjalandi þar sem þau námu bæði læknisfræði. Eftir sérnám í Svíþjóð og störf þar í landi eru þau nú flutt til Íslands ásamt dætrum sínum þremur og farin að starfa innan íslenska heilbrigðiskerfisins.
Helga Rut er 38 ára, fædd í Reykjavík og uppalin á Íslandi, en Maxim er fertugur, fæddur í Kiev en uppalinn í Ísrael. Leiðir þeirra lágu saman árið 2009 þar sem þau stunduðu bæði nám í læknisfræði við háskólann Debrecen í Ungverjalandi.
Helga og Maxim kynntust snemma í náminu og var saga þeirra líklega löngu skrifuð í skýin. „Það var á svoköllluðu „pub crawl“ kvöldi sem ég sá hóp af strákum úti á götu syngja og dansa, þannig að greinilegt var að þeir voru að skemmta sér vel. Einn þeirra var Maxim og fannst mér hann líta út fyrir að vera manneskja sem hefði gaman af lífinu.
Ég ákvað að fara yfir til hans og tala við hann og við náðum strax mjög vel saman,“ segir Helga og Maxim bætir við: „Ég hafði í raun tekið eftir Helgu fyrir þetta, en einhvern veginn kom aldrei rétti tíminn til að tala við hana. Ég var þess vegna mjög ánægður þegar hún kom að tala við mig og það varð strax einhver sérstök tenging á milli okkar. Við gátum talað endalaust saman og hlegið mikið. Það var einfaldlega hlýja og léttleiki ásamt mörgum sameiginlegum áhugamálum sem gerði það að verkum að við náðum svona vel saman,“ segir Maxim.
Eftir grunnnámið fluttu Helga og Max-im sig yfir til Svíþjóðar þar sem þau fóru í sérnám, Helga nam húðlækningar og Maxim lyf- og meltingarlækningar. Meðfram náminu eignuðust þau dætur sínar þrjár á sex árum, þær Söru Dís, Sófíu Bar og Míu Marínu. Að námi loknu störfuðu þau bæði í Malmö og Lundi í samtals 10 ár.
Helga og Max með dæturnar í Bangkok í Tælandi.
Læknisfræðin blanda af vísindum og list
Maxim og Helga eru sammála um að læknisfræðin hafi heillað snemma. „Ég kem úr læknafjölskyldu, svo læknisfræði hefur í raun alltaf verið hluti af mínu lífi,“ segir Maxim. „Afi minn var smitsjúkdómalæknir, faðir minn er hjartalæknir, móðir mín var heimilislæknir og frænka mín var bráðalæknir. Ég ólst því eiginlega upp á sjúkrahúsum og heimsótti föður minn oft, bæði á gjörgæsluna og hjartadeildina, en við höfum jafnvel haldið hátíðir þar þegar hann var á vakt. Ég fann mig því snemma í þessu um-hverfi og fór að líta á læknisfræði sem blöndu af vísindum og list, en það var sú samsetning sem heillaði mig mest. Ég hef alltaf viljað vinna með fólki, en líka með það tæknilega og lífeðlisfræðilega, svo að meltingarlækningar urðu fyrir valinu. Þar kemur saman huglægt og hlutlægt mat og mikil notkun á tækni og speglunum. Framfarirnar eru mikl-ar í meðferðunum, sérstaklega við IBD en vonandi fljótlega líka við MASLD og öðrum lifrarsjúkdómum,“ segir Maxim.
Helga segist einnig snemma hafa vitað að hún vildi vinna með fólki og læknisfræði hafi því verið kjörið fag fyrir sig. Sérgreinina ákvað hún þó ekki fyrr en á fimmta ári grunnnámsins, en þá varð henni það líka alveg skýrt. „Ég hlæ stundum að því, en mér fannst himnarnir opnast þegar ég gekk inn á húðdeildina í fyrsta sinn, ég áttaði mig á því að þetta var nákvæmlega það sem ég var að leita að. Húðlækningar eru ótrúlega fjölbreyttar, við sinnum fólki á öllum aldri – bólgusjúkdómum og húðkrabbameini, framkvæmum aðgerðir og höfum möguleika á að starfa við lýtahúðlækningar þar sem skiptir máli að hafa auga fyrir útliti og handlagni. Eins og Maxim segir, þá er læknisfræði líka list og húðlækningar eru klassískt dæmi um það.“
Fjöskyldan er okkar forgangsatriði
Fjölskyldan flutti til Íslands síðastliðið vor þar sem Helga og Maxim hafa bæði hafið störf, hún á Útlitslækningu á Grensásvegi og hann á Meltingardeild Landspítalans. Helga segir það ekki endilega hafa legið beint við að flytja heim en það hafi þó orðið niðurstaðan og séu þau spennt fyrir framtíðinni.
„Við erum komin í spennandi störf og finnum að hérlendis getum við bæði vaxið faglega og notið fjölskyldulífs betur. Yngsta dóttir okkar hefur verið án leikskólapláss en það breytist núna í haust. Sem betur fer höfum við frábæran stuðning frá ömmu og afa sem hafa al-veg bjargað okkur og gert okkur Maxim kleift að sinna okkar vinnu. En við erum vongóð um að allt smelli saman þegar allar stelpurnar verða komnar í skóla og leikskóla. Það að vera tveir læknar með þrjú lítil börn og hund er vissulega bæði annasamt og stundum kaótískt. En við reynum að skipuleggja okkur vel. Það hjálpar mikið að eiga maka sem er auðvelt að ræða við og við styðjum hvort annað í öllu. Fjölskyldan er okkar forgangsatriði og við leggjum áherslu á að eiga góðar stundir saman daglega. Við kunnum einnig mjög vel að meta öryggið hér, börnin geta hlaupið út og inn og við erum að læra að það sé eðlilegt að vita ekki alltaf hvar þau eru, hvorki með síma né GPS úr,“ segir Helga.
„Mér líður pínulítið eins og ég sé útlendingur í mínu eigin landi“
Aðspurð að því hvernig hafi gengið að aðlaga fjölskylduna alla við nýtt líf á Íslandi segir Helga að það hafi bæði verið skemmtilegt og krefjandi.
„Fyrir Maxim er íslenskan og kerf-ið nýtt og ákveðin áskorun. Veðrið og myrkrið er líka öðruvísi en við áttum að venjast í Svíþjóð. Við söknum þess líka að geta ekið í sumarfrí um Evrópu eins og við gerðum reglulega í Svíþjóð, en á hverju sumri keyrðum við niður til Evrópu og höfum flakkað mikið um og jafnvel farið í útilegur með allar stelpurnar og hundinn, sem hefur enn ekki gerst hér. Síðustu tuttugu ár hefur mikið breyst á Íslandi, mér líður pínulítið eins og ég sé útlendingur í mínu eigin landi. Við gerum ráð fyrir að það taki okkur um eitt ár að koma öllu í rútínu, eða það segja þeir sem komu á undan okkur.“
Fjögur tungumál töluð á heimilinu
Það kann að vera áskorun að stofna fjölskyldu og ala upp börn þar sem einstaklingar koma frá ólíkum menningarheimum. Helga segir að þrátt fyrir það hafi þau ekki lent í mörgum „menningar-árekstrum“.
„Mér er þó minnisstætt þegar Maxim kom til Íslands á veturna og svaf fram yfir hádegi, en hann er vanur að vakna alltaf eldsnemma. En, þar sem það var alltaf dimmt hélt hann bara áfram að sofa, hélt einfaldlega að það væri enn nótt,“ segir Helga og hlær. „Ég fór líka einu sinni með Maxim til Ísraels þar sem við hittum gamlar frænkur hans sem sögðu að við litum út fyrir að hafa „fitnað eftir frí“. Ég missti andlitið þar til Maxim útskýrði að þetta væri hrós í þeirra menningu og merkti að maður liti út fyrir að hafa slakað á og notið sín vel. Við höfum mikið hlegið að þessu í gegn-um árin og notum þennan frasa óspart. Einnig eru viss orð í vissu tungumáli hentug til að lýsa ákveðnu og blöndum við því mörgum tungumálum saman, sem er skemmtilegt. Heima hjá okkur er daglega töluð íslenska, enska, sænska og hebreska og rúllar þetta mjög vel,“ segir Helga að lokum.