10. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Dagur í lífi. Blaut á bak við eyrun. Embla Rún Björnsdóttir

07:00 Vakna, fer aftur að sofa.

07:10 Fjórir litlir loðnir brjálæðingar láta mig ekki vera því þau vilja fá morg-un-matinn sinn, neyðist til að rísa úr rekkju og klæða mig.

07:15 Öskrað á mig af öllum lífs og sálarkröftum á tungumáli sem ég skil ekki, svo ég gef ferfætlingunum morgunmat áður en ég fæ mér eitthvað sjálf. Go to er Nocco límon, hafragrautur með púðursykri og ristað brauð með kæfu (hjá mér, kisurnar vilja bara kisumat). Nauðsynlegt að fá næga orku til að takast á við stofugang til hádegis.

07:30 Drösla kærastanum út, hann skilur ekki daglega kvíðakastið við að reyna að ná stæði á Landspítalanum.

07:59 Skrái mig inn, early bird gets the worm. Mæti tímanlega upp á deild (er ekki að skrökva). Opna tölvuna eftir morgunfund og það fyrsta sem ég kíki á er matseðill dagsins, er alltaf vinsæl að vita hvað er í matinn í dag.

09:00-11:30 Next up er stofugangur, er mjög fljót að finna deildarkrúttið (sjá Dagur í lífi Alexöndru Ásgeirs í Læknablaðinu 03. tbl. 111 árg. 2025), takk fyrir að koma með gott heiti á þetta fenomen Alexandra! Er feimna týpan svo ég elska þegar sérfræðingurinn talar bara, þau muna líka alltaf alla ævisöguna hjá sjúklingunum??? Fíla ekki spurninguna „Vilt þú ekki tala bara?“

11:31 Byrja að hinta við teymið að það sé að koma hádegismatur, er vanalega orðin mjög svöng á þessum tíma og garnagaulið farið að hafa áhrif á vinnuandann.

12:10 Næ loksins að hoppa í mat með góðri samvisku, það er fahítas og Nocco límon númer tvö á mig. Líklegast eina manneskjan í húsinu sem elskar alltaf hádegismatinn, plís ekki kvarta yfir þessu geggjaða lasanja með pestói á minni vakt.

13:30-16:00 Klára allt sem á eftir að gera. Dagálar, útskriftir, panta blóðprufur. Er löngu hætt að vera feimin að -hringja konsúlt, finnst núna bara gaman innst inni þegar sérfræðingarnir fíra aðeins upp í grillinu. Mana mig upp í að biðja sérfræðinginn á teyminu um sérfræðingsmatsblað í ePortfolio, skammast mín samt alltaf smá fyrir það svo ég bið hann um að eyða alls ekki meira en 28 sekúndum í þetta.

16:00-19:00 Tími fyrir allt annað sem er mikilvægt í lífinu. Númer eitt, tvö og þrjú er að hitta fjölskylduna, litlu frændsystkinin Máni, Heiðdís og Myrra gefa lífinu lit. Mamma, pabbi og afi eru besta fólk í heimi, get talað við mömmu um áhugaverð tilfelli því hún er lyfjafræðingur. Pabbi skilur ekki stakt orð en reynir þó alltaf að sýna áhuga. Ég vil helst nýta allan minn frítíma í samverustundir með þeim, vinkonunum eða í ræktinni. Þarf kannski að finna mér einhver hobbí líka, núna þegar heimanámið er búið að eilífu!

19:00 Einkakokkurinn minn hefur reitt fram dýrindis pasta. Horfum alltaf á eitthvað skemmtilegt með matnum, þessa dagana hefur The Pitt verið að slá í gegn (en sumir ýta reyndar alltaf á off takkann um leið og það kemur smá blóð...).

21:30 Bíð ennþá eftir því öll kvöld að hringt sé í mig því ég gerði einhver geigvænleg mistök eða út af því að hver einn og einasti sjúklingur sem ég var með á mínum snærum er í skakkaföllum, það gerist samt einhvern veginn aldrei. Ofhugsa líka þetta eina heimskulega sem ég sagði í dag þótt ég hafi sagt alveg tíu aðra frekar gáfulega hluti.

22:00 Kúr með kisum og kæró, góða nótt!

Á myndinni eru ég, mamma, pabbi og kærastinn í útskriftarveislunni minni í sumar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica