10. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Stofnfrumuígræðsla við Parkinsonsjúkdómi

Aðal meingerð Parkinson-sjúkdóms eru Lewy Body (LB) frumuinnlyksur í þétthluta sortukjarna.1 Hreyfieinkenni koma fram þegar dópamín er að miklu leyti uppurið í botnkjörnum heila vegna hrörnunar dópamínergískra taugafrumna í sortukjarna, en þau eru skjálfti, stífleiki og hægar hreyfingar auk áslægra einkenna eins og jafnvægisleysis og gangtruflana.1 Aðal lyfjameðferð við Parkinson-sjúkdómi hefur síðan á 7. áratugnum verið með levódópa lyfjagjöf. Með framgangi sjúkdómsins, getur myndast þörf á auknum lyfjaskömmtum sem geta aftur valdið aukaverkunum á borð við ofhreyfingar. Meðferðarúrræði auk lyfjagjafa hafa verið þróuð síðustu áratugi. Þannig hafa Parkinson-miðaðar heilaaðgerðir með djúpkjarnaörvun verið framkvæmdar síðan 1987 með góðum árangri.1

Notkun á endurforrituðum fjölhæfum stofnfrumum (induced pluripotent stem cells) eða mennskum fósturvísisfrumum (human embryonic stem cells) er ný og lofandi meðferð sem miðar að því að endurheimta lífeðlisfræðilega ítaugun og taugaboð miðluð af dópamíni í heila sjúklinga með Parkinson-sjúkdóm, og minnka þörfina fyrir lyf.1 Fyrir tíma notkunar stofnfrumna var kviðlægur miðheilavefur (ventral midbrain tissue) frá meðgöngurofsaðgerðum ígræddur til dópamínendurheimtar í Parkinson-sjúkdómi. Árið 2008 birtust svo þrjár tímamótarannsóknir, sem sýndu fram á að ígræddar dópamínmyndandi heilafrumur úr fóstrum lifðu og stuðluðu að bata Parkinson-sjúklinga í vel yfir áratug og voru flestar hinar ígræddu frumur lausar við áhrif LB-meins.1,2

Nýlega hófust klínískar rannsóknir á fósturstofnfrumuafleiddum dópamínforvera frumuígræðslum í Parkinson-sjúklinga. STEM-PD rannsóknin í Svíþjóð hefur þegar lokið við ígræðslur fasa I hluta rannsóknar á átta sjúklingum og fylgist nú með þeim. Einn eldri sjúklingur lést þó, af orsökum sem kann að tengjast ónæmisbælingu, en ekki sjálfri frumuígræðslunni.2 Nýlega greindu Tabar og samstarfsmenn á vegum líftæknifyrirtækisins Bluerock í Norður--Ameríku frá niðurstöðum úr opinni fasa I klínískri rannsókn þar sem einnig dópamínforverafrumur úr mennskum fósturstofnfrumum voru græddar í tólf Parkinson-sjúklinga. Rannsóknin bar tilætlaðan árangur í öryggis- og þolniðurstöðum einu ári eftir ígræðslu. Upptaka 18Fluoro-DOPA í jáeindaskanna jókst í heila, sem staðfesti að frumuígræðslurnar væru lífvænlegar. Klínískur stöðugleiki eða bati átti sér stað hjá öllum sjúklingum. Fasa IIA klínísk rannsókn, þar sem bætt verður við fleiri sjúklingum, er nú á dagskrá Bluerock.3

Árið 2006 þróuðu japanskir vísindamenn leið til að endurforrita líkamsfrumur og mynda fjölhæfar stofnfrumur með hjálp umritunarþáttanna Klf4, Oct3/4, Sox2 og Myc.1 Rannsóknir í nagdýrum og prímötum sýndu fram á langtíma bata í hreyfigetu tilraunadýra með notkun slíkra fjölhæfra stofnfrumna.1 Í klínískri rannsókn sem hófst 2018 við Kyoto háskólasjúkrahúsið í Japan fengu sjö Parkinson-sjúklingar ígræðslu á dópamínmyndandi forverafrumum úr endurforrituðum fjölhæfum stofnfrumum, ósamgena, en með samræmi í vefjaflokkasameindum. Engar aukaverkanir sáust og fjórir sjúklinganna sýndu bata samkvæmt UPDRS-Parkinson-hreyfiskal-anum og jókst 18F-DOPA upptaka á jáeindaskanna í heila.4

Aspen Neuroscience í San Diego, Bandaríkjunum birti nýlega sex mánaða niðurstöður sínar eftir frumuígræðslu þriggja Parkinson-sjúklinga í ASPIRO fasa 1/2A rannsókninni, sem hófst í fyrra.5 Um var að ræða dópamínmyndandi forverafrumur úr eigingerðum endurforrituðum fjölhæfum stofnfrum-um með uppruna í húðsýnum. Engar alvarlegar aukaverkanir áttu sér stað. Hópurinn greindi frá bata Parkinson--einkenna að meðaltali um 45% á UPDRS-III Parkinson-skalanum án lyfja og 71% á UPDRS-II-skalanum. Fylgst verður áfram með sjúklingunum og greint frá frekari niðurstöðum eftir eitt ár.5

Loks hófst í fyrra fasi I klínískrar rann-sóknar við Harvardháskóla og Massachusetts General Brigham spítala í Boston á öryggi þess að nota eigingerðar endurforritaðar fjölhæfar stofnfrumur til ígræðslu í heila sex Parkinson-sjúklinga (sjá nánar https://www.mcleanhospital.org/news/clinical-trial-tests-novel-stem-cell-treatment-parkinsons-disease). Eftirlit verður haft með sjúklingunum í tólf mánuði og áætlar rannsóknahópurinn að stækka sjúklingahópinn fyrir fasa IIA rannsóknarinnar. Samgena ígræðsluaðferðin sem nýtir eigin frumur einstaklings gerir ónæmisbælandi meðferðir óþarfar.5

Heimildir

1. Osborn TM, Hallett PJ, Schumacher JM, et al. Advantages and Recent Developments of Autologous Cell Therapy for Parkinson's Disease Patients. Front Cell Neurosci. 2020;14:58.

2. Kirkeby A, Nelander J, Hoban DB, et al. Preclinical quality, safety, and efficacy of a human embryonic stem cell-derived product for the treatment of Parkinson's disease, STEM-PD. Cell Stem Cell. 2023;30(10):1299-1314 e9.

3. Tabar V, Sarva H, Lozano AM, et al. Phase I trial of hES cell-derived dopaminergic neurons for Parkinson's disease. Nature. 2025; 641:978–983.

4. Sawamoto N, Doi D, Nakanishi E, et al. Phase I/II trial of iPS-cell-derived dopaminergic cells for Parkinson's disease. Nature. 2025; 641: 971–977.

 

5. Fraint A, Larson PS, Christine CW, et al. Safety, tolerability, and efficacy of intracranial delivery of autologous iPSC-derived dopaminergic precursors in moderate to advanced Parkinson´s Disease. Parkinsonism & Related Disorders. 2025; 134:107630.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica