Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

Klínísk skoðun og aðferðarfæði. Skoðun nýbura. Óli Hilmar Ólason

Skoðun nýbura

Öll nýfædd börn á Íslandi eru skoðuð eftir fæðingu og áður en þau útskrifast til síns heima. Börnin eru síðan skoðuð á ný í svokallaðri fimm daga skoðun þar sem helst er verið að fylgja eftir þyngdartapi (ef til staðar), gulu og nýgreindum hjartaóhljóðum.

Á Íslandi er fyrsta nýburaskoðun framkvæmd af barnalækni í flestum tilfellum. Þegar börn fæðast á fæðingarheimilum er fyrsta skoðun framkvæmd af ljósmóður.

Við nýburaskoðun er hægt að greina heilsuvandamál sem ekki voru þekkt á meðgöngu. Einnig er það tækifæri til að ræða við og fullvissa foreldra ef einhverjar áhyggjur eru til staðar.

Mikilvægt er að athuga heilsufars- og fæðingarsögu móður, sem og lyfjagjöf á meðgöngu. Fjölskyldusaga þarf að liggja fyrir, ekki síst með tilliti til meðfæddra hjartasjúkdóma sem almennt greinast hjá allt að 1% nýfæddra barna.1 Einnig á það við um meðfætt los í mjöðm (developmental dysplasia of the hip) sem ógreint getur leitt til fötlunar og snemmkominnar gigtar.2 Félagssaga og staða móður er mikilvæg þar sem oft þarf aukið eftirlit eftir fæðingu ef félagsleg staða er bágborin.

Skoðunin tekur að jafnaði 10-20 mínútur. Þó mikilvægt sé að skoðunin sé kerfisbundin svo ekkert gleymist, þarf sveigjanleiki að vera til staðar. Sumir hlutar skoðunarinnar eru líklegri til að gera börnin ókyrr, til dæmis skoðun á mjöðmum, kynfærum og gómnum. Gjarnan er best að byrja á að hlusta á hjartað á meðan barnið er örugglega rólegt og grætur ekki. Þegar barnið opnar augun er gott að nota tækifærið og athuga rauðan reflex.

Mynd 1. Tæki til nýburaskoðunar. Frá vinstri til hægri: Hlustunarpípa, tunguspaði, málband, augnspegill. Höfundarréttur: Óli Hilmar Ólason

Almennt mat

Líkamsskoðun nýbura hefst með almennu mati. Heilbrigður nýburi bregst við skoðun og mótmælir, er rjóður í húðinni og hreyfir sig jafnt og samhverft með hendur og fætur í beygju (flexion).

Ganga skal úr skugga um að skráning sé fullnægjandi og að þyngd, lengd og höfuðummál liggi fyrir. Þá er hægt að skrá gildin á vaxtarkúrfu (aftan á barnablaðinu) til að útiloka vaxtarskerðingu eða annað. Ef vaxtarskerðing er samhverf gæti verið um að ræða reykingar eða eiturlyfjaneyslu móður, sýkingar (TORCH), efnaskiptasjúkdóm eða litningagalla (dæmi: Turner, þrístæður). Í þessum tilfellum eru oft til staðar meðfæddar missmíðar (dysmorphia). Ef fóstur var útsett á síðari hluta meðgöngu (dæmi: fylgjuþurrð), hlýst af ósamhverf vaxtarskerðing með eðlilegu höfuð-ummáli hjá barninu.

Mynd 2. Fæðingaráverkar á höfði. Höfundarréttur: By AMH Sheikh - Own work, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=534054

Skimun og viðbótarmat

Nýburaskimun (PKU) er blóðprufa sem er tekin við 48-72 klukkustunda aldur til að skima fyrir meðfæddum efnaskiptasjúkdómum, skjaldvakabresti og fleiru.3

POX-skimun er framkvæmd á öllum börnum fyrir útskrift. Þá er mæld súrefnismettun í hægri hendi annars vegar og í fæti hins vegar. Er þar fyrst og fremst verið að skima fyrir alvarlegum meðfæddum hjartasjúkdómum.

Heyrnarmæling er framkvæmd á öllum nýfæddum börnum. Á Landspítalanum er hún í langflestum tilfellum framkvæmd í tengslum við fimm daga skoðunina.

Skoðun

1. Lífsmörk

a. Hiti. ÖT. BÞ. Púls. POX. (Tafla 1)

2. Meðgöngulengd. Þyngd, lengd,
höfuðummál.

a. Fyrirburi vs fullburi

b. AGA? SGA? LGA?

c. Fylla út í vaxtarkúrfu

3. Almennt útlit

4. Húð

a. Roði? Gula? Fölvi? Blámi?

5. Höfuð

a. Höfuðummál? Samhverfa?

b. Lindarblettir (fontanelle) eðlilegir?

c. Caput succedaneum? Cephalhematoma? Subgaleal hematoma?
(Mynd 2)

I. Hér er mikilvægast að greina subgaleal hematoma sem getur verið lífshættulegt

d. Höfuðbein hreyfanleg móti hvert öðru?

6. Háls

a. Fyrirferðir?

b. Hálssveigur? (Torticollis)

7. Andlit

a. Lítil haka (Micrognathia)?
Langt milli augna (Hypertelorism)?

8. Eyru

a. Lágstæð eyru (Melotia)? Framaneyrahúðsepi (preauricular skin tag)?

9. Augu

a. Rauður reflex? Leukocoria?

10. Nef

a. Nasavængjablakt?

11. Munnur

a. Skarð í vör eða góm? Epstein pearl? Tungustækkun (macroglossia)?

12. Brjóstkassi

a. Lögun og samhverfa

b. Hröð öndun? Stunur? Inndrættir?

c. Viðbein – merki um brot?

d. Pectus excavatum? Pectus carinatum? Processus xiphoideus?

e. Gynecomastia?

13. Hjarta

a. Hjartahlustun. Óhljóð? Reglulegur hjartasláttur?

b. Nárapúlsar

c. Önnur merki hjartabilunar
(dæmi: stór lifur)?

14. Kviður

a. Fyrirferðir?

15. Nafli

a. Naflabólga (omphalitis)?

16. Kynfæri

a. Drengir: staðsetja þvagrásarop (meatus), þreifa eistu

b. Stúlkur: stærð sníps? separ?

17. Endaþarmur

a. Endaþarmslokun (anal atresia)?

18. Eitlar.

19. Útlimir.

20. Bak.

a. Dældir? Óeðlilegur hárvöxtur?

21. Mjaðmir

a. Ortholani-próf, Barlow-próf. Bera saman lengd hægri og vinstri fótar.

22. Taugakerfi

a. Vöðvaspenna. Reflexar (dæmi: gripreflex, Moro-reflex).

Skammstafanir

AGA – Appropriate for gestational age

SGA – Small for gestational Age

LGA – Large for gestational Age

Heimildir

1. Hoffman JI, Kaplan S. The incidence of congenital heart disease. J Am Coll Cardiol. 2002;39(12):1890–900.

2. Shorter D, Hong T, Osborn DA. Screening programmes for developmental dysplasia of the hip in newborn infants. Cochrane Database Syst Rev. 2011;(9):CD004595.

3. Embætti landlæknis. Nýburaskimun á Íslandi. https://www.landlaeknir.is 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica