Tölublað septembermánaðar
Umræða og fréttir
Algengi örorku og fjárhagslegir hvatar til atvinnuþátttöku
Þann fyrsta september 2025 verður tekið upp nýtt örorkukerfi sem byggir á heildrænu mati á starfsgetu. Ef starfsgeta er metin undir 25% fæst fullur örorkulífeyrir en við 26-50% starfsgetu fæst hlutaörorkulífeyrir. Af þessu tilefni fengust gögn frá Tryggingastofnun (TR) varðandi algengi þess að íslenskir ríkisborgarar fengju greiddan örorku- eða endurhæfingarlífeyri á tímabilinu 2014-2024. Algengið reyndist hærra en hefur áður komið fram hjá TR þar sem hér eru einungis skoðaðir íslenskir ríkisborgarar. Ekki eru taldir með erlendir ríkisborgarar sem koma til landsins til starfa, oft tímabundið, en þeim hefur fjölgað um tugi þúsunda á síðastliðnum árum og hafa þeir því þynnt út tíðni örorku í tölum TR. Ef einstaklingur fékk greiddan bæði örorku- og endurhæfingarlífeyri sama árið þá taldist það bara sem greiðsla örorkulífeyris.
Á mynd 1 sést að frá 2014 til 2024 hefur einstaklingum sem fá örorku- eða endurhæfingarlífeyri greiddan fjölgað um 25% eða úr 10,3% í 12,9%. Árið 2024 var hlutfallið 15,9% hjá konum og 9,9% hjá körlum. Tölurnar um endurhæfingarlífeyri endurspegla annars vegar mikla fjölgun þeirra sem hafa fengið endurhæfingarlífeyri á síðustu árum og lengingu á hámarkstíma á endurhæfingarlífeyri, en síðasta breyting þar var gerð í upphafi árs 2023 þegar hámarkstími var lengdur úr þremur árum í fimm. Sú breyting gerði mörgum kleift að halda áfram á endurhæfingarlífeyri og lækkaði því algengi örorku árin 2023 og 2024 lítillega.
Mest aukning á örorku hjá yngri aldurshópnum
Þegar tímabilið 2014-2022 er skoðað þá var aukning í örorku 13,8%. Á tímabilinu var aukning öryrkja á aldrinum 18-29 ára 13,6%, hjá 30-39 ára 20,3% og hjá 40-49 ára 20,3%. Minnst var aukningin hjá 50-59 ára eða 4,3% og hjá 60-66 ára var aukningin 7,4%. Það er dýrt fyrir samfélagið að missa ungt fólk af vinnumarkaði. Tap á atvinnutekjum samfélagsins af því að missa 27 ára einstakling með 650 þúsund í laun í 40 ár af vinnumarkaði (núvirt með 3,5% ávöxtunarkröfu), er tæplega 170 milljónir.
Tekjur á örorku og fjárhagslegir hvatar í örorkukerfinu
Í nýju örorkukerfi munu 95% örorkuþega fá hærri bætur og verður örorkulífeyrir varanlegur. Þeir sem eru á hlutaörorku, fá 83% af greiðslum þeirra sem eru á örorku en eru með mun hærra frítekjumark, eða 350.000 krónur, á meðan það er 100.000 á örorku. Tekjur umfram frítekjumark skerða lífeyri frá TR um 45%.
Þeir sem eru metnir með örorku eiga einnig rétt á greiðslum frá lífeyrissjóði ef þeir hafa verið á vinnumarkaði. Hæstar greiðslur fá þeir sem voru samfellt á vinnumarkaði tveimur árum áður en þeir veiktust. Fá þeir lágmarkstryggingarvernd sem er almennt 72% af tekjum. Lágmarkstryggingarvernd hækkaði árið 2022 og fór almennt úr 56% í 72% af tekjum. Þar sem breytingin er ný, eru þeir sem eru nú þegar öryrkjar með allt að 56% lágmarkstryggingarvernd úr lífeyrissjóði en öryrkjar í framtíðinni geta fengið allt að 72%. Þeir sem uppfylla ekki skilyrði fyrir lágmarkstryggingarvernd eru með mun lægri tekjur frá lífeyrissjóði. Auk tekna frá TR og lífeyrissjóðum, geta öryrkjar verið með atvinnutekjur en atvinnuþátttaka hefur þó verið lág, meðal annars vegna lítilla fjárhagslegra hvata til að vinna vegna skerðinga á lífeyri.
Sjá í töflu I dæmi um ráðstöfunartekjur hjá 40 ára öryrkja, sem býr einn, skoðað eftir mismunandi réttindum í lífeyrissjóði og getu til að stunda vinnu. Viðmiðunarlaun voru valin 600 þúsund en samkvæmt Hagstofunni voru miðgildi launa fólks í fullu starfi 753.000 krónur árið 2024 en þeir sem enda á örorku eru almennt undir meðallaunum.
Í öllum dæmunum eru ráðstöfunartekjur öryrkja hærri en hjá aðila í 100% vinnu nema í tilfelli öryrkja sem hefur engin réttindi í lífeyrissjóði né getu til að stunda vinnu.
Fjárhagslegir hvatar í nýju hlutaörorkukerfi
Skoðum vinnustað þar sem starfsmenn eru með laun nálægt 600 þúsund. Starfsmaður verður veikur og fer í endurhæfingu. Nær hann takmörkuðum árangri í endurhæfingu og fer á 60% hlutaörorku og kemur í 40% starf og vinnur 2 daga í viku. Í töflu I kemur fram að aðilinn á hlutaörorku verður með hæstu ráðstöfunartekjurnar á vinnustaðnum, eða allt að 33% hærri ráðstöfunartekjur eftir því hvernig löggjöf þróast. Skilar þó töluvert minna vinnuframlagi í 40% vinnu en aðrir á vinnustaðnum. Aðrir starfsmenn eru eflaust ánægðir með að viðkomandi kom til baka í hlutavinnu en finnst ekki sanngjarnt að þeir séu með lægri ráðstöfunartekjur en sá sem er á hlutaörorku.
Niðurlag
Það er áskorun að hanna lífeyriskerfi öryrkja þannig að það tryggi grunnframfærslu en án þess að draga úr hvata til atvinnuþátttöku. Jafnframt þarf kerfið að vera réttlátt gagnvart þeim sem vinna og fjármagna kerfið. Áhrif hlutaörorku á algengi örorku á eftir að koma í ljós en vonandi minnkar hlutaörorka algengi fullrar örorku frekar en að verða aðallega viðbót við kerfið eins og hætta er á. Algengi örorku- og endurhæfingarlífeyris sýnir að Íslendingum á lífeyri hefur fjölgað mikið á síðastliðnum árum og er það áhyggjuefni. Eiga þó áhrif hækkunar á lágmarkstryggingarvernd lífeyrissjóðanna úr 56% í 72% enn eftir að koma fram. Örorkulífeyrir er að hækka um haustið 2025 og Alþingi á eftir að útkljá frumvarp sem bannar lífeyrissjóðum að skerða lífeyri á grundvelli greiðslna frá TR og frumvarp sem tryggir að greiðslur TR hækki á hverju ári um hvort sem hærra er, verðbólga eða launavísitala. Ef ofangreint verður samþykkt þá er ljóst að það verður algengara að heildartekjur vegna örorku verði hærri en laun, sem þýðir að það verður ekki fjárhagslegur hvati hjá mörgum til að ná árangri í endurhæfingu. Við slíkar aðstæður er hætta á að endurhæfingin dragist á langinn, með tilheyrandi byrði bæði fyrir skjólstæðinga og fagfólk innan kerfisins. Læknar þurfa að vera vel vakandi fyrir þessari hættu. Er mikil hætta á að lífeyrisþegum muni halda áfram að fjölga ef ekki verður brugðist við.
Fjárhagslegir hvatar þurfa að vera réttir til að minnka líkur á örorku og liggur beinast við að draga til baka hækkun á lágmartryggingu lífeyrissjóðs úr 56% í 72% svo það stuðli ekki að aukinni örorku til framtíðar. Slík breyting hækkar á móti ellilífeyri frá lífeyrissjóðunum. Einnig þarf að breyta skerðingarhlutföllum lífeyris þannig að tryggt sé að ráðstöfunartekjur séu hærri hjá einstaklingi ef hann fer aftur í fulla vinnu miðað við að fara á örorku.