0708. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Í minningu Vilhjálms Rafnssonar prófessor emeritus og fyrrum ritstjóra Læknablaðsins
Vilhjálmur Rafnsson
1945-2025
Vilhjálmur Rafnsson, prófessor emeritus, andaðist fjórða maí síðastliðinn. Hann var fæddur á höfuðdaginn 29. ágúst 1945 og átti nokkra mánuði í áttrætt þegar hann lést. Við kynntumst margbrotnum persónuleika Vilhjálms á langri viðkynningu. Hann var góður læknir, vísindamaður, leiðtogi, og mikill lífsnautnamaður. Áhugasvið hans voru fjölmörg en hann sótti mikið í gamlan menningararf þjóðarinnar, sögu og Íslendingasögur. Hann var vel heima í sögunum og gat vitnað í helstu hetjur þeirra sem voru eins og nánir vinir og samferðamenn hans.
Vilhjálmur var duglegur og kraftmikill eins og Kjartan Ólafsson, húmoristi eins og Þormóður Kolbrúnarskáld og þver og þrjóskur eins og svarabróðir hans Þorgeir Hávarsson og spekingur eins og Snorri goði Þorgrímsson. Þessir persónuleikar og margir fleiri runnu saman í þeim fjölhæfa manni sem Vilhjálmur var.
Við kynntumst Vilhjálmi í Læknadeild og síðan í Gautaborg á árunum 1976-1981. Hann lagði fyrst fyrir sig heimilislæknisfræði og síðar að auki sérfræðinám í atvinnusjúkdómum. Jafnframt var hann í doktorsnámi ásamt öðrum undirritaðra (JAS) undir leiðsögn Calle Bengtsson, prófessors í Gautaborg. Rannsóknarnámið var faraldsfræðilegs eðlis og tengdist rannsóknum á næmi og forspárgildi prófa og áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma. Doktorsritgerðin fjallaði um sökk og þeim áfanga var fagnað með pompi og prakt í Gautaborg 1981. Í doktorsvörninni var hann eins og Gunnlaugur ormstunga í erlendri konungshöll og skylmdist við prófdómendur og andmælendur með tilvitnunum í flóknar fræðigreinar.
Leiðtogahæfileikar Vilhjálms komu snemma í ljós. Hann var fyrsti formaður Félags íslenskra lækna um heilsugæslu í Svíþjóð. Ný lög um heilsuvernd starfsfólks voru sett á Alþingi 1981 og Vinnueftirlit ríkisins stofnað í núverandi mynd. Vilhjálmur flutti til Íslands ásamt fjölskyldu sinni og var ráðinn yfirlæknir atvinnusjúkdómadeildar Vinnueftirlitisins í janúar 1982. Hann gegndi þessari stöðu í 16 ár (1982-1998). Þarna nýttist sérnám, faraldsfræðileg þekking og frumkvæði Vilhjálms afar vel. Hann var foringi af Guðs náð eins og Gissur Þorvaldsson í Sturlungu. Honum gekk vel að lynda við fólk og var aldrei hræddur við undirmenn sína. Þeir máttu blómstra á eigin forsendum meðan allir reru skútunni í sömu áttina. Að frumkvæði Vilhjálms og samstarfsfólks hans var hrundið af stað umfangsmiklum faraldsfræðilegum rannsóknun á hugsanlegum áhættuþáttum í vinnuumhverfi ýmissa starfsstétta. Má þar nefna flugáhafnir, prentiðnaðarmenn, sjómenn/vélstjóra, bændur, fólk í fiskvinnslu, hjúkrun, lækna og lögfræðinga.
Vilhjálmur varð lektor í heilbrigðisfræðum 1987, dósent 1990 og prófessor 1997. Hann þótti góður kennari og var vinsæll af nemendum sínum. Á þessu sviði tók hann sér til fyrirmyndar Erling Skjálgsson úr Heimskringlu en um hann var sagt að öllum hefði hann komið til nokkurs þroska.
Vilhjálmur var í ritstjórn Læknablaðsins um árabil og ritstjóri þess á árunum 1993-2005. Honum tókst að koma blaðinu formlega aftur á Medline og þar með PubMed-leitarvélina í mars 2005. Við Læknablaðið kom vísindamaðurinn Vilhjálmur vel í ljós. Hann hafði sér að leiðarljósi Ara fróða sem alltaf vildi hafa það sem sannara reyndist.
Vilhjálmur var fjölskyldumaður og ferðalangur. Þar er honum einnig vel lýst í bókinni Af lífi, sem gefin var út honum til heiðurs á sjötugsafmæli hans. Hann ferðaðist um allan heiminn ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Álfheiði Steinþórsdóttur, og sinnti afkomendum sínum af alúð og áhuga. Við minnumst gleðimannsins Vilhjálms sem hafði gaman af því að kneyfa öl í góðra vina hópi með spaugsyrði á vörum. Hann var heilsteyptur vinur vina sinna en mestu skipti að hann var aldrei leiðinlegur eins og margir læknar verða sem taka sjálfa sig of hátíðlega. Það gerði Vilhjálmur aldrei. Við erum stoltir af því að hafa verið samtímamenn og vinir Vilhjálms Rafnssonar. Við vottum ástvinum Vilhjálms samúð okkar.