0708. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Dagur í lífi. Dagur í lífi smitsjúkdómalæknis á vakt 17. júní. Bryndís Sigurðardóttir

06:45 Á fætur. Þjóðhátíðardagur með rigningu og súld. Er hálf fegin. Betra að vera á vakt í rigningu. Ef það væri sól og blíða hefði ég tekið morgun hlaup, þó ekki væri nema til að segja frá því hér! En lét nægja teygjur og lóð.

08:05 Mætt á morgunfund í Fossvogi. Galið ástand á bráðamóttöku eins og venjulega, alltaf þegar maður heldur að það geti ekki versnað, versnar það. Hefur ekki beint áhrif á vinnuálag mitt, (jú, samt) en mér þykir vænt um Landspítalann og ringulreiðin sem myndast við svona álag er erfið fyrir sjúklinga og starfsfólk. En þetta er bara normið núna.

08:30 Yfirferð á sjúklingum á A7. Þar er besta kaffið í Fossvogi, í býtibúrinu, með rjóma. Ég er búin að vera með teymið undanfarna viku, helgar (frídaga) vinnan verður þannig auðveldari. Fer yfir blóðprufur, ræktanir og ræði við hjúkrunarfræðinga. Með mér er nýútskrifaður sérnámsgrunnslæknir, ferskur og hress og áhugasamur eins og þau flest. Gaman að kjafta um sýkingar og sýklalyf, ungir læknar eru eins og svampar en stundum finnst mér eins og ég sé að reyna drekkja þeim með misáhugasömum kennslupunktum. Bara vel meint. Þeir fyrirgefa mér vonandi.

10:45 Gjörgæslan hringir, spítala-heilahimnubólga hjá manni með heilablæðingu, ICP-mæli og mænuvökvaleka. Klebsiella ræktast í mænuvökva. Markmið alla daga er að reyna að minnka meropenem- og ceftriaxonenotkun, það tekst alltof sjaldan. Ekki í dag.

11:15 COVID faraldur á HSU. Spurt um meðferðarleiðbeiningar. Stutt svar: ekki lyfjameðferð lengur. Fæ enn áfallastreitu þegar COVID berst í tal.

11:30 Símtal frá kollega sem átti vaktina kvöldið áður. Biður mig að kanna ástand á konu á Bráðamóttöku með bit og mikla húðsýkingu í kringum það, með gífurlega háa sýkingarparametra í blóði. Ég er yfirleitt ekki að fiska eftir aukavinnu en hef gífurlegan áhuga á húðsýkingum, og flýti mér á Bráðamóttöku. Rétt sýnir mér innra lærið, enda liggur hún fyrir allra augum á ganginum. Ég veðja á Streptokokka.

12:00 Held áfram yfirferð á sjúklingum deildarinnar, en mikið um ráðgjafarsímtöl. Reyni að útskrifa 97 ára mann heim til að létta á álagi, en gekk ekki. Reyni aftur á morgun.

12:45 Símtal frá Bráðamóttökulækni sem er að fara yfir fimm daga gamlar ræktanir. S. aureus í þvagi hjá einstaklingi sem notar vímuefni í æð, og var með 40°C og slappleika. Fór heim samdægurs. Sama hvernig á er litið, þarf að blóðrækta. Við fáum bráðadagdeild til að hjálpa okkur.

13:00 Símtal frá Gjörgæslu Hringbraut, varðandi drepmyndandi húðsýkingu/Necrotizing fasciitis á leið í aðra aðgerð. Erfitt að bæta í þegar meropenem, clindamycin, metronidazole og vancomycin eru þegar inni. Gjörgæsla sammála, en stundum er bara þörf á spjalli.

15:30 Símtal frá læknanema á kviðar-holsskurðdeild, spurt um Entero-kokka blóðsýkingu, á að þrengja úr vancomycin í ampicillin? Afar ánægð með þessa spurningu en bendi á að sjúklingur er með staðfest bráðaofnæmi fyrir penicillín. Minni unga lækna á að skoða snjókornið fyrst.

16:00 Kollegi hringir varðandi sjálfan sig, sýklalyf vegna húðsýkingar. Bara ljúft og skylt að svara því.

16:30 Skyndi-fjöskyldufundur á deild, ættingjar mættir og flókinn sjúklingur með langa legu.

18:00 Sem betur fer er ég vel gift, eigin-maðurinn að elda lax þegar ég kem heim. Símtöl halda áfram. Neskaupstaður, Akranes. Erfitt að leiðbeina úr fjarlægð, veikir, flóknir sjúklingar. Býð alltaf kollegum að hafa samband aftur eftir þörfum.

21:00 Tek stutta göngu í Urriðaholtinu og hlusta á hlaðvarp, sjúklega hressandi.

22:00 Reyni að slaka á og horfi á heimildamynd um raðmorðingja.

23:00 Fer upp í. Andlega uppgefin eftir daginn, en þakklát fyrir, í kjölfar nýrra samninga, að eiga inni frí, í fyrsta sinn á mínum næstum 30 ára vaktavinnuferli. Hlakka samt til að mæta á morgun.

Bíddu, var ekki annars 17. júní?



Þetta vefsvæði byggir á Eplica