0708. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Bókin mín. Framandi slóðir, ástir, mannlegt eðli og læknislist. Ásgerður Sverrisdóttir
Ég er ekki mikill lestrarhestur, les hægt nema bókin heilli þeim mun meira og sé fljótlesin en af þeim sökum hrúgast ókláraðar bækur gjarnan upp á náttborðinu hjá mér. Sjálfsævisögur, sögulegt efni, smásögur, skáldsögur, ljóð og krimmar hafa fengið sinn skerf, allt í bland og frekar stefnulaust. Ernest Hemingway var fyrsti rithöfundurinn sem ég féll fyrir. Knappur og hnitmiðaður stíll Hemingways heillaði mig strax og hentaði mínum lestri vel. Ég var búin að lesa nokkrar bækur hans þegar mér var gefin Veisla í farángrinum í snilldarlegri þýðingu Halldórs Laxness. Þar kynnist maður helstu listamönnum og áhrifavöldum þessa tímabils sem maður sogast inn í eins og gerðist síðar í bíómyndinni Midnight in Paris eftir Woody Allen.
Á síðustu árum, eftir að ég veiktist alvarlega, hef ég snúið mér mest að hljóðbókum. Það var nú samt ekki alveg átakalaust. Fyrsta bókin sem ég hlustaði á, fór inn um annað eyrað og út um hitt. Heil bók og ég veit ekkert hvað hún fjallaði um. Þá kom kollegi minn Örvar Gunnarsson til bjargar þegar hann benti mér á appið Audible. Ég komst fljótt upp á lagið með skemmtilegan lesara og áhugaverða sögu. Í áskriftinni kaupi ég eina bók í mánuði sem þýðir að ég hef hlustað á margar fleiri bækur en ég hefði gert annars og lesarar eru nær alltaf framúrskarandi.
Ein áhrifamesta bókin sem ég hef hlustað á, er þriggja kynslóða skáldsaga frá framandi slóðum sem náði sterkum tökum á mér, The Covenant of Water eftir indverska lækninn Abraham Varghese. Varghese fæddist í Eþíópíu en bjó um tíma á Indlandi og starfar nú við Stanford Medical Center. Sagan gerist að mestu á Indlandi með stuttri viðkomu í Skotlandi. Hún fjallar um lífið í formföstu kerfi stétta og kynja á Indlandi, ástir og læknisfræði. Varghese vefur skurð- smit-, erfða- og fæðingalæknis-fræði snilldarlega inn í söguna og gefur manni um leið innsýn í aðstæður fólks í Kerala héraði á Indlandi á heillandi máta.
Ég hafði látið norskar bókmenntir alveg fara fram hjá mér þar til ég lét til skarar skríða og kom sjálfri mér verulega á óvart þegar ég þrælaði mér í gegnum öll sex bindi Jan Ove Knausgård, Min kamp. Ég ætlaði mér bara að taka fyrsta bindið en sogaðist á einhvern sérkennilegan hátt inn í verkið og gat ekki stoppað fyrr en allt var klárað. Bækurnar ollu miklu fjaðrafoki í Noregi á sínum tíma, með dómsmálum og ósætti meðal fjōlskyldu og vina höfundar. Knausgård tekur sjálfsævisöguna á nýtt plan, skrifar um líf sitt á fáheyrt opinskáan hátt án þess að hlífa neinum, hvorki sjálfum sér né sínum nánustu og uppskar heimsfrægð fyrir vikið. Verkið snýst í grunninn um uppgjör rithöfundarins við föðurinn. Í lok lestrar er ég þó ekki sannfærð um það hafi tekist. Líklega tengdi ég við Knausgård, þar sem við erum af sömu kyslóð og ég fann mig vel í tíðarandanum. Hann bjó líka eins og ég í Svíþjóð um tíma, meðal annars í minni gömlu heimaborg, Stokkhólmi, þar sem var auðvelt að samsama sig umhverfinu og atburðarásinni.
Ég skora á Vilhelmínu Haraldsdóttur að skrifa næsta bókapistil.