05. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Smokkaherferð sóttvarnalæknis
Læknablaðið hafði spurnir af því Sóttvarnarlæknir fyrirhugi herferð með áherslu á vitundarvakningu almennings um notkun smokksins. Eins og vel er þekkt er smokkurinn alltaf besta vörnin gegn kynsjúkdómum. Læknablaðið hafði af þessu tilefni samband við Önnu Margréti Guðmundsdóttur lækni Embætti Landlæknis og spurði hana út í aðaláherslur þessarar herferðar.
„Jú, það er rétt, við erum tilbúin með efnið og byrjuðum að birta á samfélagsmiðlum upp úr miðjum apríl og þessi vitundarvakning mun að minnsta kosti vara í nokkra mánuði..“
Læknablaðið hefur áður fjallað um mælaborð Sóttvarnarlæknis sem er öllum opið, þar sést vel að kynsjúkdómar eru að aukast. Er alltaf jafn erfitt að fá fólk til þess að nota smokkinn?
„Margir eru ábyrgir og nota smokkinn þegar við á en það virðast vera einhverjar hindranir hjá sumum. Við viljum með þessu átaki minna fólk á að smokkurinn er góð vörn gegn kynsjúkdómum og að það sé ekki feimnismál eða vandræðalegt að nota smokka. Það er alltaf tími fyrir skilaboð og áminningu um að nota smokk. Að þessu sinni er ástæða herferðarinnar mikil aukning á lekanda og sárasótt og hún er liður í að draga úr tíðni kynsjúkdóma almennt. Þessi aukning er ekki aðeins hér á landi, heldur hefur orðið aukning á kynsjúkdómum víða í heiminum þar með talið í Evrópu.“
Verður þessi herferð eitthvað í líkingu við fyrri herferðir, eins og til dæmis þá sem farið var í þegar alheimsfaraldur HIV var í algleymingi og þekkt fólk í samfélaginu var fengið til þess að sitja fyrir á mynd með smokk, eða á að fara einhverja aðra leið til þess að vekja athygli almennings?
„Að þessu sinni er vettvangur herferðarinnar samfélagsmiðlarnir Facebook og Instagram. Tímarnir breytast og við erum með samfélagsmiðlum að leita leiða til að ná til einstaklinga á aldrinum 17-30 ára, en þessi skilaboð eiga auðvitað einnig fullt erindi við alla aldurshópa og einnig foreldra. Að þessu sinni snýst herferðin um stutt og hnitmiðuð, myndræn skilaboð.“
Munið þið fá einhver þekkt andlit með ykkur í lið? Áhrifavalda kannski?
„Við íhuguðum fleiri leiðir, meðal annars að fá áhrifavalda með okkur í lið, en ákváðum að gera það ekki að sinni. Það getur verið vandmeðfarið og þarf að velja slíka aðila vel, sérstaklega ef höfða á til ungs fólks. Þannig að nei, við munum ekki vera með neitt slíkt í þessari herferð Eins og fyrr segir, munum við notast við samfélagsmiðlana Facebook og Instagram og vekja athygli fleiri aðila sem eru með tengingar til dæmis inn í framhaldsskólana á herferð okkar til að dreifa efninu áfram.“