05. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Dagur í lífi. … „bara badabastu, bastu!“ Ívar Sævarsson
5:50 Góðan daginn mamma og pabbi! Tvær lifandi vekjaklukkur labba inn í svefnherbergið. Ég á yndislega fimm og tveggja ára drengi sem báðum hefur alla tíð fundist lífið allt of spennandi til að sóa því í svefn. Eftir smá spjall uppi í rúmi er best að drífa sig fram úr. Ég kveiki á kaffivélinni, skelli haframjöli í pott og finn til föt og annað dót, á meðan hafragrauturinn mallar.
7:20 Lagt af stað í leikskólann. Leikskólinn er staðsettur á hinum endanum á Uppsala og því keyrum við þangað. Hinsvegar eru bílastæðamál sjúkra- hússins þannig að best er að skilja bílinn eftir við leikskólann og hjóla þaðan í vinnuna.
7:55 Mættur á morgunfund á bráðamóttökunni. Hér í Svíþjóð manna lyflæknar bráðamóttökuna talsvert mikið. Í dag er ég A-vakt sem þýðir að ég er ábyrgur fyrir bráðastæðunum og sinni því veikasta fólkinu sem kemur inn með sjúkrabílum þá vaktina.
8:50 Morgunfundur hefst, það eru hvorki meira né minna en fjórir Íslendingar á fundinum. Einn er að klára næturvakt og við erum þrjú að mæta. Þeirra á meðal er eiginkona mín sem er sérnámslæknir í gigtlækningum hér á Akademiska en tekur á nokkurra vikna fresti viku á bráðamóttökunni.
8:05 Fyrsti sjúklingur dagsins bíður mín á einu bráðastæðinu. Það er maður með hjartsláttartruflanir. Hann reynist vera í ofansleglahraðtakti (SVT) en heldur góðum þrýstingi. Ég framkvæmi „modified Valsava“ og viti menn, hann slær aftur yfir í sinus! Einstaklega gefandi þegar þetta heppnast.
12:30 Dagurinn hefur rúllað nokkuð þægilega hingað til. Ein væg öndunarbilun vegna ásvelgings; ungur maður sem kom eftir inntöku ýmissa lyfja og eiturlyfja. Aðspurður um ástæðu inntökunnar sagði hann: „bara, ha det kul.“ Kvöldvaktin er mætt til að leysa mig af svo ég stekk í hádegismat.
15:30 Áfram búið að vera nokkuð rólegt. Allir mínir sjúklingar annað hvort farnir heim eða lagðir inn. Lítið því fyrir mig að gera og ég lauma mér þá heim, aðeins á undan áætlun. Vorboðinn ljúfi, götusóparinn, er að sópa spítalalóðina en hér er möl dreift á allar gangstéttir og götur yfir vetrarmánuðina. Veturinn hefur verið í mildara lagi samanborið við þann síðasta sem var okkar fyrsti hér í Svíþjóð.
16:50 Ég renni í hlað heima. Nágrannakrakkarnir og ein mamman eru leika sér úti í bandí. Synir mínir slást í hópinn. Þetta er líklega fyrsta skipti sem þeir spreyta sig á bandí, sem er býsna vinsælt í Svíþjóð, en sá eldri sýnir strax mikla takta. Nú þegar vorið er að koma er gaman sjá hvernig hverfið vaknar til lífsins eftir vetrardvalann. Eiginkona mín kemur fljótlega rúllandi heim á hjólinu eftir sinn vinnudag.
17:00 Stend fyrir framan ísskápinn og reyni að ákveða hvað á að vera í matinn. Hugtakið „einfalt og fljótlegt“ kemur upp í hugann og á sama tíma finn ég hvað mig langar mikið í íslenskan fisk. Það er eitt það helsta sem ég sakna frá Íslandi fyrir utan fjölskyldu og vini. Kjúklingalæri og hrísgrjón verða fyrir valinu. Á meðan á eldamennsku stendur hlusta strákarnir á „Bara bada bastu“ sem er framlag Svía til Eurovision þetta árið. Lagið er verulega grípandi og ég hugsa að ég verði með þetta á heilanum þegar ég leggst á koddann í kvöld.
19:50 Það er búið að borða, baða og klæða í náttföt. Næst tekur við lestur og að koma drengjunum í háttinn. Það gengur glimrandi vel í þetta skiptið.
21.00 Ég er mættur upp í tennishöll. Eins og öllum 35+ sæmir er ég byrjaður að spila tennis. Heppnin er með mér því góður vinur og kollegi er fluttur í götuna okkar með fjölskyldunni og hann deilir áhuga á þessari yndislegu íþrótt. Við tekur klukkutími af æsispennandi leik.
22:30 Kominn heim, sturta og smá kvöldsnarl áður en lagst er á koddann – það eina sem ég get hugsað er … „bara bada bastu, bastu!“