04. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Æðaskurðlækningar. Farðu „all-in“ þá verður þetta skemmtilegra! Þórður Skúli Gunnarsson
Svæfingalæknasonurinn ætlaði nú aldrei að gerast skurðlæknir en á 4. ári í læknanáminu leið mér hvergi betur en einmitt við skurðarborðið, hangandi á hakanum og tilbúinn að klippa þegar kallið kom. Að loknu kandidatsári 2013 sóttist ég eftir deildarlæknsstöðu á skurðsviði Landspítala sem var tveggja ára staða með 6 mánuðum á svæfingunni. Fyrsta stopp sem deildarlæknir var einmitt æðaskurðdeildin A4 með Lilju Þyri yfirlækni sem sagði á fyrsta degi „farðu all-in þá verður þetta miklu skemmtilegra“ og það reyndist alveg satt. Á þessum tíma aðstoðaði ég Lilju, Helga Sig og Karl Loga í opnum aortum, aortobifemoral bypass, carotis og nára TEA, fem-pop bypass og AV fistla aðgerðum. Góð byrjun á deildarlæknatímanum, en átti eftir að rótera inn á hinar skurðsérgreinarnar þar sem ég fór inn með opin hug en: almenn kirurgia – of mikið af þessu brúna, heila og tauga – of mikið af þessu hvíta, þvagfæraskurðlækningar – of mikið af þessu gula, thorax – nóg af þessu rauða en hjartað þvælist fyrir.
Æðaskurðlækningar heilluðu þó mest og þó að greiningarvinnan sé yfirleitt frekar einföld (flæði eða ekki flæði …) þá eru lausnirnar þeim mun flóknari og margvíslegar. Tæknileg smáatriði heilluðu mig og fjölbreytileiki aðgerða á hinum ýmsu anatómísku svæðum líkamans.
Æðaskurðlækningar hafa verið undirsérgrein í almennum skurðlækningum og því þörf á að klára það sérnám fyrst. Þetta hefur þó breyst síðastliðin ár og hafa æðaskurðlækningar verið sérgrein í Svíþjóð síðan 2015. Ég ákvað þó að fara hina troðnu og traustu slóð þar sem ekki var komin reynsla á æðasérnám án grunns í almennum skurðlækningum. Ein helsta uppeldisstöð íslenskra skurðlækna er Helsingborgarspítali í Svíþjóð þar sem Þorvaldur Jónsson, Tómas Guðbjartsson, Stefán Mattíason, Halla Viðarsdóttir, Bjarni Geir Viðarsson og fleiri hafa stundað sérnám. Að íslenskum sið, ræddi ég við Tomma sem sendi bréf á gamlan vin úr sérnáminu sem var orðinn yfirmaður skurðdeildarinnar í Helsingborg og sérnámstaðan í almennum skurðlækningum tryggð og hófst vorið 2016.
Almenna skurðsérnámið kláraði ég í lok árs 2019 og hef síðan stundað sérnám í æðaskurðlækningum samhliða doktorsnámi við Lundarháskóla í útæðasjúkdómum og mun ljúka hvoru tveggja á þessu ári.
Æðaskurðlækningar hafa breyst mikið síðastliðin 30 ár með byltingu í innæðaaðgerum (endovascular intervention) sem röntgenlæknar hafa þróað og framkvæmdu í upphafi á flestum sjúkrahúsum. Í dag sinna sænskir æðaskurðlæknar bæði opnum og innæðaaðgerðum á sínum sjúklingum. Fyrir mig sem hreifst af opnum æðaaðgerðum upphaflega tók það smá tíma að venjast þræðingarvinnunni en þegar maður klárar aortuaðgerð á undir tveimur tímum, sjúklingurinn fer heim daginn eftir og maður kemst hjá mörgum fylgikvillum opinnar aðgerðar, þá tekur maður það fljótt í sátt.
Í dag starfa ég á æðaskurðdeildinni í Helsingborg og tek einnig vaktir á æðaskurðdeildinni í Malmö þar sem mörg krefjandi tilfelli koma á vaktirnar. Starfið er fjölbreytt með aðgerðum á æðum útlima, hálss og kviðs, bæði með innæða- og opnum aðgerðum. Ég hugsa stundum hvað ég myndi gera á daginn ef ég þyrfti ekki að vinna fyrir pening og kemst yfirleitt að þeirri niðurstöðu að ég myndi ekki gera neitt annað en æðaaðgerðir í góðra vina hópi í Helsingborg.