04. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Doktorsvörn við Karolinska Institutet í Stokkhólmi – Guðný Jónsdóttir

 

Guðný Jónsdóttir varði doktorsritgerðina sína frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi þann 7. febrúar 2025. Vörnin fór fram á Danderyd-spítalanum í Stokkhólmi. Ritgerðin ber heitið Örbylgjubrennsla sem meðhöndlun góðkynja sjúkdóma í legi (Microwave Ablation as treatment of benign uterine disease). Andmælandi var Annika Idahl aðstoðarprófessor við Háskólasjúkrahúsið í Umeå. Leiðbeinendur verkefnisins eru þær Helena Kopp Kallner aðstoðarprófessor við Karolinska Institutet og Danderyd-spítalann í Stokkhólmi og Klara Hasselrot sérfræðilæknir, PhD við sömu stofnanir. Guðný lauk læknanámi við Háskóla Íslands júní 2007, stundaði sérnám við Danderyd-spítalann í Stokkhólmi frá 2009-2015. Guðný hlaut sérfræðiréttindi í kvensjúkdóma- og fæðingarlækningum 2015. Starfaði sem sérfræðilæknir á þeim spítala til 2021 og hóf doktorsnám við Karolinska Institutet 2020. Guðný flutti til Íslands 2021 og hefur starfað sem sérfræðilæknir á Kvennadeild Landspítalans frá 2022.

 

Verkefnið

Verkefnið byggir á fjórum rannsóknum um örbylgjubrennslu sem meðhöndlun einkenna frá vöðvahnútum í legi og adenomyosu. Þetta er þekkt meðferð um allan heim við æxlum í öðrum líffærum en kvenlíffærum. Rannsóknir á meðferðinni innan kvensjúkdóma koma nánast allar frá Kína og hafa sýnt góðan árangur við að minnka einkenni vöðvahnúta og adenomyosu, svo sem ríkulegar blæðingar og þrýstingseinkenni. Rannsóknarhópur Guðnýjar fór til Kína til að læra meðferðina áður en rannsóknir á Danderyd hófust. Vöðvahnútar í legi sérstaklega, en einnig adenomyosa, eru algengir kvillar sem geta valdið miklum einkennum og skertum lífsgæðum. Þegar meðferð með lyfjum virkar ekki og konur vilja síður fara í legnám eru takmarkaðir meðferðarmöguleikar í boði. Í tveimur rannsóknum doktorsverkefnisins var örbylgjubrennsla borin saman við svokallaða emboliseringu af slagæð legs sem meðferð við vöðvahnútum annarsvegar og adenomyosu hinsvegar. Ekki fékkst marktækur munur á stærðar minnkun vöðvahnúta eða minnkun einkenna milli þessara tveggja meðferða en báðir hóparnir fengu góðan árangur. Marktækt minni verkir og styttri dvöl á spítala kom þó fram eftir örbylgjubrennslu. Þriðja rannsókn verkefnisins skoðaði árangur eftir örbylgjubrennslu á vöðvahnútum í stærri framskyggnri rannsókn sem sýndi marktækt minni einkenni, aukin lífsgæði og minnkun vöðvahnúta sex mánuðum eftir meðferð. Í fjórðu rannsókninni var langtíma árangur skoðaður og kom í ljós að vöðvahnútar héldu áfram að minnka við langtíma eftirlit upp að þremur árum. Allar greinarnar sýndu fram á mikla ánægju með meðferðina meðal sjúklinga. Frá því rannsóknir Guðnýjar hófust er nú búið að samþykkja örbylgjumeðferð sem rútínu meðferð á Danderyd-spítalanum. Þær rannsóknir sem enn eru í gangi eru meðal kvenna með þungunarósk sem Guðný metur þann hóp sem mun græða mest á þessum meðferðarmöguleika. 

 

Hvað segir nýdoktorinn

Afhverju vildir þú verða læknir?

Frá barnsaldri ætlaði ég að verða leikkona en eftir krufningu nagdýra í líffræði í grunnskóla fékk ég mikinn áhuga á líffræði og svo seinna á læknisfræði. Hélt þessu opnu fram í menntaskóla. Stundaði leiklist í mínum frítíma en undirbjó mig stöðugt undir læknisfræði bæði í náminu og með því að vinna um helgar á Landspítalanum. Sá fljótt að þetta væri starfsvettvangur fyrir mig og hef ekki getað hugsað mér að gera annað síðan.

 

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Sem ungur læknir oft á tíðum 8-10 en með reynslunni svona 5-6.

 

Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Auka fjármagn til heilbrigðismála með það í forgangi að hækka laun heilbrigðisstarfsfólks og fjölga hjúkrunarheimilum til að minnka plássleysi innan spítalans.

 

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

 

Ég reyni að nýta frítíma í ýmiskonar hreyfingu; lyfta lóðum, yoga, útivist, hjólreiðar og skíðaiðkun eru í uppáhaldi. Er svo alveg svakalega heppin með fjölskyldu og fólk í kringum mig sem ég vil eyða sem mestum tíma með utan vinnu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica