03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Er hægt að sérmennta fleiri lækna á Íslandi? Teitur Ari Theodórsson

 

Norrænt samstarf við sérmenntun lækna á undir högg að sækja. Hvorki Noregur né Svíþjóð viðurkenna lengur hið íslenska kandídatsár.1 Jafnframt viðurkennir Noregur ekki sænska kandídatsárið og öfugt. Þetta þýðir að íslenskir læknar, sem ekki hafa lokið sænska kandídatsárinu (BT), fá í auknum mæli þvert nei þegar þeir sækja um sænskar sérnámsstöður. Því hafa almennir læknar velt fyrir sér: Er hægt að sérmennta fleiri lækna á Íslandi?

Margir spítalalæknar efuðust um fýsileika þess að sérmennta hér sérfræðinga í almennum lyflækningum. Nú í dag eru flestir sammála um að vel hafi tekist til. Útskrifast hefur tæpur tugur almennra lyflækna sem allir eiga það sameiginlegt að kunna vel til verka og búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu. Í kjölfarið hafa fleiri sérnámsprógrömm farið af stað, svo sem fullt sérnám í háls-, nef- og eyrnalækningum og í bæklunarlækningum. Þó eru skiptar skoðanir um áframhaldandi þróun sérnáms á Íslandi. Er upptökusvæðið nógu stórt? Mun aukið sérnám hér leiða til hnignandi tengsla við nágrannasjúkrahús? Mun rannsóknarstarf líða fyrir það að læknar sérmennti sig í auknum mæli á Íslandi?

Hvað varðar upptökusvæðið er þetta í raun mjög áhugaverð spurning. Hversu stórt þarf upptökusvæði spítala að vera svo hægt sé að sérmennta lækni? Víða á Norðurlöndum er stundað sérnám á sjúkrahúsum sem hafa jafnstórt eða minna upptökusvæði en Landspítali. Þó má færa rök fyrir því að tækifæri til lækninga á Landspítala séu jafnvel meiri þar sem öll flóknustu tilfelli landsins enda þar, en eru ekki send beint til sérhæfðari sjúkrahúsa. Minni sjúkrahúsin á Norðurlöndum gera þó kröfu um að hluti sérnámsins fari fram á stærra háskólasjúkrahúsi. Á sama hátt gætu íslenskir læknar skipulagt sérnám hérlendis þar sem hluti yrði tekinn á stærra háskólasjúkrahúsi erlendis, þá markvisst til þess að uppfylla þá þjálfun sem upptökusvæðið hér býður ekki upp á.

Hingað til hafa íslenskir læknar ýmist haldið austur eða vestur um haf til sérnáms. Það hefur stuðlað að fjölbreyttri þjálfun lækna og tengslum við mörg háskólasjúkrahús og kollega erlendis. Tengsl sem hafa reynst mikilvæg fyrir lítið heilbrigðiskerfi eins og á Íslandi. Með aukinni samvinnu við téð sjúkrahús um sérmenntun íslenskra lækna væri hægt að styrkja samböndin enn frekar og greiða í leiðinni götu íslenskra lækna til náms á öflugum sjúkrahúsum austan- eða vestanhafs.

Vísbendingar eru um að rannsóknarstarf á Landspítala hafi dregist saman á undanförnum árum. Það eru mikil tækifæri til að snúa þessari þróun við með uppbyggingu sérnáms hér á landi. Með auknum fjölda sérnámslækna og samstarfi við erlend sjúkrahús væri hægt að byggja upp sterka rannsóknarhefð lækna í sérnámi og tryggja þannig fleiri birtingar bundnar við Landspítala.

Sé þetta tekið saman, standa almennir læknar frammi fyrir auknum áskorunum við að sækja sér sérmenntun erlendis. Með formlegu samstarfi við öflug sjúkrahús erlendis um sérmenntun íslenskra lækna væri hægt að tryggja víðtækari menntun, betri mönnun og efla rannsóknir. Ef hins vegar ekkert verður að gert, er hætta á að áður sterk tengsl við erlend sjúkrahús versni og þjálfun íslenskra lækna sömuleiðis.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica