03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Seyðisfjörður fyrir hálfri öld. Geir Friðgerisson

Ég útskrifaðist úr Læknadeild Háskóla Íslands laugardaginn 23. febrúar 1974 eftir sex og hálft ár, sem var áætluð námslengd á þeim árum. Daginn eftir flugum við Kolbrún eiginkona mín ásamt Steinunni dóttur okkar, sem þá var rétt tæplega þriggja ára, til Egilsstaða. Þegar til Egilsstaða kom tók á móti okkur Hákon Aðalsteinsson, sem þar starfaði sem lögreglumaður, þjóðþekktur sem skáld og skógarbóndi. Hann ók okkur á snjóbíl yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar því mikil snjóalög voru þá á Austur-landi. Hákon var gjörkunnugur á þessum slóðum, stoppaði snjóbílinn áður en hann ók niður svokallaða Stalla þegar farið er niður af heiðinni Seyðisfjaðarmegin og fór út úr bílnum til að fullvissa sig um það hvar hann væri staddur. Keyrði hann síðan niður talsverðan bratta og niður til Seyðisfjarðar. Þegar snjóa leysti skoðuðum við Kolbrún aðstæður þar sem Hákon hafði stoppað og sáum við að hann var að koma að brún ofan við bratta brekku. Sagði Kolbrún þá að hún hefði ekki viljað vera í bílnum ef hún hefði vitað hvernig væri umhorfs. Hún hefði frekar viljað ganga niður bröttustu brekkuna. Við treystum Hákoni enda þekkti hann Fjarðarheiðina og Austurland allt eins og lófann á sér.

Samdægurs hóf ég störf á Seyðisfirði. Bæði sem læknir við sjúkrahúsið og heimilislæknir Seyðfirðinga í rúmlega fjóra mánuði, þar til í lok júní þegar Ásgeir Theódórs tók við læknisstörfum. Ásgeir hafði útskrifast ári á undan mér og lokið kandidatsári sínu.

Við Kolbrún og Steinunn bjuggum fyrstu vikurnar á efri hæð gamla símstöðvarhússins, sem Otto Wathne hafði byggt af miklum myndarskap 1894 við Hafnargötu 44. Fyrstu vikurnar var lítið hægt að komast um nema fótgangandi vegna mikils fannfergis. Í mars fór snjóinn að taka upp og fékk ég þá leigðan Moskvitsbíl hjá ágætri seyðfirskri konu og hafði ég bílinn þar til í lok maí þegar ég gat keypt bíl sjálfur.

Læknisstörfin voru mörg og mismunandi, sum nokkuð erfið fyrir nýútskrifaðan lækni, sem ekki hafði lokið starfsnámi, svokölluðu kandidatsári. Talsvert var um fæðingar á sjúkrahúsinu og störfuðu tvær eldri ljósmæður með mér þar. Fæðingarnar gengu yfirleitt vel, en einu sinni kom upp sú staða að fylgjan sat föst eftir fæðinguna. Ég nefndi við ljósmóðurina að hún væri mjög reynd í sínu starfi og kynni örugglega til verka til að ná fylgjunni. Hún svaraði mér að ég væri læknirinn og ætti að ná fylgjunni. Sem betur fer, tókst að ná fylgjunni án vandræða og allt gekk vel. Einnig fæddist hjá okkur fyrirburi um 1700 grömm að þyngd og varð það krefjandi verkefni fyrir mig því ég hafði ekki verið á nýburadeildum. Fyrirburinn reyndist ekki þurfa á súrefnisgjöf að halda, en hann var hafður í hitakassa. Ég hringdi í séfræðinga til að fá leiðbeiningar um meðferð og aðhlynningu. Gekk þetta að óskum og lifir þessi einstaklingur góðu lífi í dag. Ég er ekki frá því að þessi upplifun með fyrirburann hafi orðið til þess að ég valdi að sérmennta mig í barnalækningum.

Ég þurfti að sinna margs konar læknis-störfum, meðal annars að sauma sár, búa um brot og sinna ýmsum veik-indum. Eina ferð fór ég á báti til Neskaupstaðar með ristarbrotinn mann, hann slasaðist þegar þungur hlutur datt á rist hans við vinnu. Hann var mjög kvalinn af verkjum og reyndi ég að verkjastilla hann eftir getu. Fór hann síðan í aðgerð hjá Daníel lækni á sjúkrahúsinu í Neskaupsstað.

Mínar hugleiðingar eru meðal annars um að erfið verkefni koma gjarnan upp í afskekktum héruðum og geta verið þung fyrir lítt þjálfaða unglækna, sem ekki hafa lokið kandidatsárinu og þeirri starfsþjálfun sem það inniber. Ég tel mig hafa verið heppinn í starfi mínu á Seyðisfirði þessa mánuði, sem ég vann þar og þakka ég það að hluta góðum leiðbeiningum, sem ég fékk símleiðis þegar kunnátta mín dugði ekki sem skyldi.

Í lok júní fluttum við til Akureyrar þar sem ég lauk kandidatsári mínu og starfaði við FSA (sem það hét þá) þar til um haustið 1975 þegar við fluttum til Svíþjóðar þar sem ég sérmenntaði mig í barnalækningum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica