03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Læknaskortur á Íslandi

Ekki hefur farið fram hjá alþjóð læknaskorturinn í landinu og hversu erfitt er að fá tíma hjá læknum í flestum sérgreinum læknisfræðinnar, þó einna mest hafi verið fjallað um skort á læknum með sérhæfingu í heimilislækningum. Því liggur mikið við að fjölga læknum sem útskrifast ár hvert til

að mæta fyrirliggjandi læknaskorti

Í 2. tölublaði 110. árgangs Læknablaðsins, ritaði Þórarinn Guðjónsson, forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, ritstjórnargrein, þar sem hann lýsir því sem til þarf svo fjölga megi útskrifuðum læknum. Læknablaðið langaði því að vita hvernig fjölgun læknanema í Læknadeild HÍ gengur og varpaði nokkrum spurningum til Þórarins og Þórdísar Jónu Hrafnkelsdóttur kennslustjóra Læknadeildar.

Þau segja þetta hafa verið talsvert ferðalag. Árið 2019 var nemendum fjölgað úr 48 í 60. Fjölguninni fylgdi ekki viðbótar fjármagn og því ekki möguleiki á nýráðningum kennara. Þegar nemendum fjölgaði á síðari námsárunum, kom þörf fyrir fleiri kennara berlega í ljós, meðal annars vegna aukins umfangs verklegrar kennslu. Á klínísku árunum (ár 4-6) þurfti því að hagræða talsvert. Deildin fékk loks aukið fjármagn árið 2023, sem gerði kleift að fjölga í 75 nemendur haustið 2024. Vandinn við fjölgun nema er þó ekki einungis bundinn við klínísku kennsluna. Mikill skortur er á bæði fyrirlestrastofum og kennsluhúsnæði fyrir verklega kennslu við HÍ sem bitnað hefur illa á Læknadeild. Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ (NHHÍ) mun væntanlega leysa þann vanda.

Í kjölfar skýrslu/úttektar frá Læknafélagi Íslands haustið 2021, kom ákall frá stjórnvöldum um að fjölga læknanemum verulega. Í skýrslunni kom fram að læknamönnun á Íslandi væri mjög ábótavant og að ráðast þyrfti í átak og mennta fleiri lækna. Læknadeild fór strax í mikla greiningarvinnu og kortlagði hvað þyrfti að koma til ef fjölga ætti nemum í 75 og svo í framhaldinu í 90. Niðurstaðan var skýr; það þyrfti að koma til nýráðninga á kennurum og innviðir þyrftu að stórbatna.

Stefnir Læknadeild á frekari fjölgun læknanema á komandi árum?

„Í stuttu máli er það fyrst og fremst aðstöðuleysið og skortur á fjármagni til að ráða nýja kennara sem hindrar það. Við sendum minnisblað til Háskóla, vísinda og nýsköpunarráðuneytisins (HVIN) með útreikningum varðandi það fjármagn sem þyrfti til þessarar fjölgunar. Á deildarfundi Læknadeildar haustið 2023 var samþykkt að fjölga úr 60 í 75. Fjármagnið sem var veitt til þessarar fjölgunar náði fyrst og fremst til ráðningar nýrra kennara, aðstöðuleysið er enn vandamál.“

Hvað stefnir Læknadeild á að fjölga læknanemum mikið?

„Í minnisblaði sent til HVIN haustið 2023, kom fram að markmiðið væri að fjölga fyrst í 75 haustið 2024 og síðan í 90 árið 2027 með þeim fyrirvara að fyrri fjölgunin gengi vel. Samkvæmt reglum HÍ þarf samþykki deildarfundar og síðan háskólaráðs fyrir fjölgun nema. Í október 2023 samþykkti deildarfundur Læknadeildar fjölgun nema í 75 með þeim fyrirvara að staðið væri við þær fjárhagslegu skuldbindingar sem stjórnvöld höfðu lofað. Því er enn óvíst hvort því markmiði verði náð að fjölga í 90 nema árið 2027 og líklegra að það verði ekki fyrr en NHHÍ verður tekið í notkun.

Hvað varðar húsnæði, þá er það ekki boðlegt eins og er. Nýr spítali og NHHÍ mun vonandi bæta aðstöðuna verulega. Innviðir, meðal annars kennslurými, eru forsenda frekari fjölgun nema. Einnig þarf að fjölga kennurum enn meira og þá getur jafnvel komið til þess að fjölga þurfi ráðningum á sjúkrastofnanir.“

Hefur Læknadeild verið í samvinnu um kennslu innan annarra heilbrigðisstofnana á Íslandi?

„Já við höfum verið í virku samtali við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK), Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilsugæsluna og átt óformlegt samtal við sérgreinalækna. SAK hefur sinnt kennslu læknanema í mörg ár og áhugi er á að efla þá samvinnu. Samtal við þessar heilbrigðisstofnanir og aðrar sem ekki eru nefndar hér mun halda áfram, enda ljóst að Landspítalinn mun ekki ráða við 90 manna árganga einn og sér.“ 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica