03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Dagur í lífi læknis. Að vera og vera ekki læknir. Alexandra Ásgeirsdóttir

Einhverntíma fyrir 6 (oj) Góðir hálsar, af illu einu atkvikaðist það að ég vakna fyrir sex á morgnana, spyrði mig í spandexgallann og snarast í kroppahöllina. Sprikla þar af miklum móð. Fyrir kandídatsárið hefði ég ekki trúað að ég yrði meðlimur í þeim sértrúarsöfnuði sem fólk er sem æfir klukkan sex að morgni, því þá er jú enn nóttin. Það getur verið jafn krefjandi og það er skemmtilegt að vita ekki alveg hvað dagurinn ber í skauti sér á spítalanum og því er best að láta fyrsta verkefni dagsins vera að sinna musterinu, svo það fari ekki forgörðum.

08:03 Er á slaginu týpan, -vinsamlegast færið morgunfundinn, get ekki skipt svona hratt um föt. Hressandi að keyra drifkerfið aðeins upp með því að vera á síðustu stundu með hótandi morgunfund og þurfa svo að hringsóla yfirfullt bílastæði. Endasendist milli kjallarans og 7. hæðar á Landspítala, Fossvogi, og sit rapportið. Á morgunfundi gefst líka tækifæri til að kortleggja hvaða kollegar eru í húsinu og bjóða á hádegisdeit.

08:23 Nýr mánudagur á nýju teymi. Lognið á undan storminum. Fæ mér hafragraut með kanil og opna ískaldan Nocco, einn orkudrykkur á dag þetta er spurning um lífsgæði (ef þú drekkur fjóra kaffibolla fyrir hádegi þá vil ég ekki heyra hvað þetta sé óhollt). Ég maraþon SBARa sjúklingana mína til að vera undirbúin fyrir stofugang, skotheld leið til að vera alveg með þetta. Krossa fingur að samherjar vikunnar séu af betri gerðinni, mun eyða næstu fimm dögum með þeim svo það er eins gott að það sé góð stemning.

09:15 SBARið heitt úr prentaranum. Búin að velja deildarkrúttið (auka stig ef yfir nírætt) og slengja hlustunarpípunni um hálsinn svo þá er ekkert að vanbúnaði. Heyrum í fyrsta hjúkrunarfræðingnum og snörumst af stað að hitta sjúklinga teymisins. Medisín er snilld, teymisvinna er snilld, stofugangur, ef gerður rétt, er snilld. Það allra besta við lyflækna er nördaskapurinn og innbyggða forvitnin, þeir hafa alltaf áhuga á að fara í saumana á hverju sem er og því meira á jaðrinum, því betra.

11:40 Loksins hádegismatur, farið að sundla af hypoglykemiu. Sendi út „bat signal“ á liðið sem ég króaði af á morgunfundinum. Best ef næst gott jafnvægi milli þess að ræða allt nema læknisfræði og eðal medisíntuðs, þeir vita sem vita. Frábið mér allt tal um dagvinnuna á þessum heilaga tíma, „straight to jail“ ef það fyrsta sem þú spyrð er á hvaða deild ég sé.

12 eitthvað Tek stigann upp á sjöundu hæð því ég er íþróttaundur. Þá er það forgangsröðun verkefna og pumpukaffi. Eina leiðin til að lappa upp á þetta kaffi er að lauma rjómadreitli í bollann, lærði það fyrir löngu. Kexskúffan er fyrir nýliða. Snara fram dagálum og rannsóknarbeiðnum. Líka mikilvægt að muna að drekka vatn og yfirfara lyfjalista. „Anuria“ og „polypharmacia“ eru ekkert til að hafa í flimtingum

13:30-14:45 Veit aldrei hvert þessi tími týnist.

15:00 Klukkutími í heimferð, fæ þá loksins frið fyrir frestunaráráttunni og klára allt uppsópið.

Góður dagur í dag. Læknaði þrjár hægðatregður, eina lungnabólgu og tvo háþrýstinga. Pældi í saltabrenglunum, setti rannsóknarniðurstöður í samhengi við klínísk teikn og sendi matsblað á sérfræðinginn (ég lofa Hildur, ég er að gera þetta).

Lausaganga Skelf af bifreiði (road rage) alla leiðina heim. Gott að koma heim eftir langan dag og henda sér í sófann og hugsa um eitthvað annað en að vera læknir. Enduruppgötvaði yndislestur í fyrra. Væri stemning að fara á leirlistarnámskeið? Betri helmingurinn töfrar fram kvöldmat, náum einum þætti fyrir háttinn allt nema læknadrama, takk og bless.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica