03. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Bókin mín. Regndropi fellur til jarðar. Katrín Fjeldsted

Það er gleðilegt hve margir læknar hafa fundið aftur lestrarhestinn og bókaorminn í sér. Næði til að lesa víkur fyrir ævistarfinu. Gömul skilgreining á læknanema var eitthvað á þá leið að það væri sá sem færi með námsbækur með sér í bíó til að geta lesið í hléinu. Það hefði reyndar verið erfitt með Gray's Anatomy á sínum tíma.

Svo áttar maður sig á því hve mikla gleði, fróðleik og allskonar er að finna í bókum. Ég man eftir því hve hrifin ég var af Hobbitanum og Hringadróttinssögu eftir Tolkien á sínum tíma og einnig Hundrað ára einsemd efir Gabriel Garcia Marquez. Þá síðastnefndu endurlas ég síðast liðið haust og fannst hún þá hundleiðinleg en breski bókaklúbburinn minn á Zoom ákvað að hún skyldi tekin fyrir, því miður að minni tillögu. Styrkir mig í þeirri trú að sleppa skuli því að lesa bækur aftur, betra sé að leggja til atlögu við bunkann af ólesnum.

Fyrir nokkrum árum rakst ég á bók sem heitir Bookworm og er eftir Lucy Mangan. Hún rifjar þar upp allar þær bækur sem hún las í æsku. Í formála segist hún búa í London með eiginmanni, barni, tveimur köttum og 10.000 bókum. Hún þurfi að flytja. Hahaha, hugsaði ég og fór að telja bækurnar heima hjá mér. Var komin vel yfir 5.000 þegar ég hætti og sé ekki nokkra ástæðu til að flytja.

Ég les aðallega nútímabókmenntir. Flestar eru bækurnar á íslensku, ensku eða dönsku en nokkrar á sænsku, norsku eða jafnvel þýsku (þá er gott að hafa orðabók við hendina). Í covid-einangruninni þýddi ég tvær danskar bækur sem Sara Omar skrifaði. Líkþvottakonan kom út hér á landi 2021 en Skuggadansarinn bíður enn í handriti. Í fyrra þýddi ég svo bókina Hvers vegna karlmenn geta aðeins gert eitt í einu og konur þagna aldrei, eftir áströlsk hjón sem heita Allan og Barbara Pease. Hann gerir grín að konum og hún að körlum.


Á síðasta ári las ég tvær bækur sem báðar tengjast vatni. Önnur heitir There are Rivers in the Sky eftir Elif Shafak en hún kom út sumarið 2024. Ótrúlega áhugaverð, heillandi og ógleymanleg saga um regndropa sem fyrst kemur við sögu í Mesópótamíu til forna, fellur löngu síðar til jarðar á nýfæddan dreng í fátækrahverfi í London á Viktoríutímanum, svo í Tyrklandi 2014 og loks í London á ný árið 2018. Sagan tengist löngu glötuðu ljóði, tveimur stórfljótum og lífi þriggja einstaklinga. Regndropi sem gufar upp hverfur ekki og vatn hefur minni, en það er mannfólkið sem gleymir eins og segir í samantekt um bókina.

Hin bókin er The Covenant of Water, skáldsaga eftir lækninn Abraham Verghese. Hann ólst upp í Eþíópíu en býr í Bandaríkjunum. Í henni segir frá föðurlausri tólf ára indverskri telpu sem flutt er á báti að heiman árið 1900 til að verða eiginkona fertugs ekkjumanns. Sögu þeirra og einkum hennar er síðan fylgt eftir þar til hún er orðin gömul kona.

Hvor þessara bóka um sig má teljast nokkur doðrantur, sem gæti fælt einhverja frá, en báðar eru þær svo vel skrifaðar að textinn rennur eins og vatn og þeim tíma sem fer í að lesa þær er vel varið.

Ég skora á Sjöfn Ragnarsdóttur sérnámslækni í heimilislækningum að skrifa næsta pistil um bækur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica