02. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Verslunarmannahelgin í Húsafelli 1969. Hildur Viðarsdóttir

Verslunarmannahelgina 1969 tókum við hjónaleysin, Lúðvík og ég, að okkur að sinna heilbrigðisþjónustu á útihátíðinni í Húsafelli. Við höfðum þá lokið 5. ári í læknadeild HÍ. Hátíðin stóð frá 1.-4. ágúst. Er þetta enn í dag fjölmennasta útihátíð um verslunarmannahelgi sem haldin hefur verið hér á landi. Sóttu hana um 20 þúsund manns. Margt er gleymt, upplifunin er enn fersk.

Líklega var það ráðninganefnd Félags læknanema sem valdi okkur til starfans. Boðinu tókum við fegins hendi, rífandi kaup fyrir langa helgi á skemmtisamkomu. Gat ekki verið betra!

Mótshaldarar, Ungmennasamband Borgarfjarðar, sáu okkur fyrir aðstöðu og gistingu en við urðum að útvega öll lækningaáhöld. Ég hafði nýlokið mánaðar kúrsus á slysadeild Borgarspítalans og fékk þar lánuð ýmis verkfæri, einnota og margnota. Á leið okkar í Húsafell heimsóttum við Aðalstein Pétursson héraðslækni á Kleppjárnsreykjum. Lét hann okkur í té allt sem hann átti til saumaskapar og sáraaðgerða, tangir, pinsettur, peanga, nálar, þráð, umbúðir og fleira. Svo fór hann í frí og var frelsinu feginn, hafði reynslu af fyrri hátíðum og fannst nóg um mannfjöldann, næstum 15 þúsund manns höfðu komið árið áður. Ekki dró það þó úr okkur kjarkinn!

Við fórum upp eftir á fimmtudeginum og fengum til umráða tvo litla A-bústaði, annan til gistingar, hinn til móttöku slasaðra og sjúkra, þar var hálfdimmt og mikil þrengsli. Við vöknuðum bjartsýn næsta morgun, veður milt, skýjað en dálítill vindur. Á laugardeginum var léttskýjað og himneskt veður en úrkomusamt á sunnudeginum sem og brottfarardaginn, mánudag.

Á dagskrá hátíðarinnar var annars vegar keppni í ýmsum íþróttum í anda ungmennafélaga og hins vegar dansleikir með menningar- og skemmtiívafi.

Framan af föstudeginum var frekar lítið að gera, fengum við þá tækifæri til að skoða okkur um. Traffíkin jókst svo þegar leið á daginn. Hljómsveitin Trúbrot lék í Hátíðarlundi og hlýddum við á hana um stund. Á laugardagsmorgninum gafst okkur tími til að fylgjast með keppni í frjálsum íþróttum. Rólegt var fram eftir degi en þá fóru sjúklingarnir að tínast inn, eftir það var hvorki hvíld né svefn að fá.

Hátíðin fór að mestu leyti vel fram, engin stórslys en fjöldi minni áverka, smására og mikill saumaskapur. Sótthreinsaður varningur gekk fljótt til þurrðar og urðum við að sjóða áhöld og saumnálar á prímusum. Það þætti ekki gott í dag. Tvinna áttum við nógan en seinlegt var að þræða nálarnar þegar syfja og þreyta náðu tökum á okkur. Lúðvík fór í eitt sjúkraflug.

Fáeinar vitjanir voru farnar í tjöld vegna ýmissa kvilla, meðal annars hafði ungur maður klassísk einkenni botnlangabólgu en harðneitaði að yfirgefa svæðið og fara á spítala. Hann lét vita af sér daglega og reyndist við þokkalega heilsu þegar hátíðinni lauk. Hefur sjálfsagt, ef greining var rétt, náð sér eins og flestir botnlangasjúklingar ef þeir eru látnir í friði. Hins vegar var erillinn slíkur að okkur varð ekki svefnsamt aðfaranótt sunnudags. Upp úr hádegi hófst annríkið á nýjan leik, áfram skurfur sem þurfti að sauma en einnig almennar kvartanir, sem ekki kröfðust sértækra ráðstafana.

Minnisstæðastir eru þó tjaldbrunarnir sex, sem urðu fyrirvaralaust þegar skipt var á litlum gaskútum inni í tjöldunum. Nælontjöldin fuðruðu upp ef kveikt var á eldspýtu rétt á eftir og fólkið sat eftir steinhissa á jörðinni, merkilega lítið slasað.

Hátíðinni var ætlað að vera áfengislaus og voru um 700 flöskur gerðar upptækar en það dugði þó ekki til. Í gamla bænum að Húsafelli var aðstaða þar sem þeir sem þóttu ofurölvi voru lagðir til og nutu eftirlits. Björgunarsveitin sá um þá, en Lúðvík var fenginn til að meta nokkra einstaklinga. Lágu ungmennin á gólfdýnum, ekki undir tveimur tugum í hvert sinn, sumir sváfu vært, aðrir með hrotum, enn aðrir með stunum. Súr lykt ælu og áfengis fyllti vitin við komuna þangað. Björgunarsveitin Ok var til taks á svæðinu og sinnti miklum fjölda slasaðra, einkum þeim sem sneru sig á ökkla eða hlutu minni háttar byltumeiðsli. Leitaði hún okkar ráða í alvarlegri tilvikum.

Undir mánudagsmorgun hægðist á öllu en kraftlítill söngur barst með blænum frá einstaka tjaldi í suddanum. Upp úr hádegi hurfum við af vettvangi eftir að hafa innheimt laun okkar og skiluðum áhöldunum til Aðalsteins á leiðinni heim, þreytt en ánægð og reynslunni margfalt ríkari.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica