02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Stoðsendingar. Bjarni Þorsteinsson
Nú er liðið hálft ár síðan við fjölskyldan fluttum heim frá Svíþjóð. Ef eitthvað er að marka fyrri pistla lipurra penna þá eru þetta varhugaverð tímamót. Drunginn yfir landinu og duttlungarnir í þjóðarsálinni skella á manni eins og stórsjór. Aðlögunarröskunin nær hámarki og maður bíður eftir að loks … aðlagast. Já, maður hefur svo sem reynslu af breytingum og nýjum aðstæðum. Nokkrum mánuðum eftir að við fluttum út til nýs lands með nýju tungumáli og nýrri vinnu skall á heimsfaraldur. Það var sérstakur tími og nokkuð einmanalegur en maður prísaði sig sælan að vera læknir og mega að minnsta kosti mæta í vinnuna! Gjáin á milli viðbragða Svía og Íslendinga við farsóttinni olli þó óneitanlega ákveðinni innri spennu. Á háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum sáust ekki sprittbrúsar í marga mánuði og eitt ár leið þar til grímuskylda var lögð á innan veggja þess. Mikið mannfall varð snemma í faraldrinum, ekki síst á hjúkrunarheimilum. Kóngurinn baðst afsökunar. Á Íslandi var hvert smit greint og rakið og fylgst var með fólki með öppum og myndavélum. „Úff, Big Brother!” hrópuðu sænsku kollegarnir með hneykslunartón.
Það reyndist mikið lán að hafa endað á gigtardeildinni á Akademiska sjúkrahúsinu. Að sjálfsögðu var það fyrir atbeina góðs kollega, Siddýjar, sem lærði fagið þar á sínum tíma. Hún sendi tölvupóst á vinkonu sína og gigtarkollega sem þá var orðin framkvæmdastjóri sviðsins. Góð stoðsending þar. Eftir lauflétt viðtal bauðst mér staða til reynslu sem síðan varð að sérnámsstöðu. Hún var mögnuð þolinmæðin og velvildin sem nýju kollegarnir sýndu mér, hálfmállausum útlendingnum. Þeir hlógu sjaldan að mér (mun sjaldnar en tilefni var til) og leiðréttu mig nánast aldrei (sem er rannsóknarefni). Þeir höfðu líka töluverða trú á mér. Fljótlega eftir að ég hóf störf ætlaði góður yfirlæknir að leggja upp fyrir mig dauðafæri til að heilla prófessorinn sem aldrei þessu vant var mættur á morgunfund. Yfirlæknirinn var að presentera tilfelli sjúklings með Sjögrens og afbrigðilegar blóðprufur og bað mig að túlka blóðgösin. Ekki málið, hugsaði ég í einfeldni minni. Varð mér þá litið á talnaromsuna á glærunni og áttaði mig fljótlega á því að ég skildi ekkert nema pH-ið. Gildin voru greinilega í öðrum einingum en ég var vanur og engin normalmörk! Ekki bætti úr skák að ég kunni ekki sænska orðið yfir „eining“ og gat því ómögulega útskýrt hvers vegna ég ætti í slíkum vandræðum með grundvallarlæknisfræði. Úr varð hik og hikst og ekki mjög imponeraður prófessor. Það skorar víst enginn úr öllum færum.
Uppsalaárin voru frábær, bæði sérnámið sjálft og þau tvö ár sem ég vann sem sérfræðingur í gigtarsjúkdómum. Yfirlæknirinn reyndi í veikri von að stöðva heimflutninginn með því að gera mig að sérnámsstjóra í gigtarlækningum fyrir Mið-Svíþjóð, en það dugði ekki til. Því þó að við fjölskyldan hefðum haft það geysilega gott og eignast vini fyrir lífstíð er aðdráttarafl föðurlandsins óumdeilanlegt. Vissulega var fínt að geta hjólað allan veturinn og sjá sjúklingana á bráðamóttökunni hverfa einn af öðrum upp á deildir um miðja nótt. En hvers vegna að ryðja götur og stíga þegar maður getur látið snjóinn frjósa og þiðna á víxl og hvers vegna að meðhöndla sjúklinga á legudeildum þegar maður getur gert það á göngum bráðamóttökunnar? Kannski fleiri þurfi á góðri stoðsendingu að halda. Eða að minnsta kosti sparki í rassinn.