02. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Læknadagar í 30 ár

Opnunarhátið Læknadaga heppnaðist vel. Í byrjun opnunarræðu sinnar minnti Katrín Þórarinsdóttir á að þrjátíu ár væru síðan læknar skipulögðu í fyrsta skipti vikulanga fræðsludagskrá sem seinna varð að Læknadögum. Með réttu sagði hún dagskrána í ár, sérstaklega metnaðarfulla, en hún innihéldi á annan tug hádegisfyrirlestra, á þriðja tug málþinga og hátt á annað hundrað fyrirlestra. Katrín sagði óhætt að segja að fjölbreytileikinn hafi ráðið í efnisvali á Læknadögum. Fjallað yrði um efni sem mikið hafi verið í umræðu síðustu árin og mætti þar nefna greiningar ADHD, dánaraðstoð, betra aðgengi að sjúkraskrám yfir landamæri, sýklalyfjaónæmi, áhrif sykursterameðferðar og svo mætti lengi telja. Hún benti á málþing um skólamáltíðir og sérstakt málþing Læknablaðsins þar sem haldið var upp á 110 ára afmæli þess. Katrín vitnaði í Helgu Ágústu að Læknablaðið væri eitt af elstu tímaritum landsins og tók fram að það væru einungis Skírnir og Morgunblaðið sem skákuðu því í aldri! Katrín þakkaði sérstaklega starfsfólki Læknablaðsins og Dögg Pálsdóttur og Steinunni Þórðardóttur fyrir hjálp við undirbúning. Einnig þakkaði hún stjórn Læknafélags Íslands, Margréti Gunnlaugsdóttur og, síðast en ekki síst, -Margréti Aðalsteinsdóttur.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, steig á eftir Katrínu í pontu og flutti ávarp, að því loknu setti hún Læknadaga. Nýr heilbrigðisráðherra, Alma Möller, var sérstakur gestur opnunarhátíðarinnar og ávarpaði samkomuna við mikinn fögnuð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica