02. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Dagur í lífi. Kaffibollar og framkvæmdir. Þóra Silja Hallsdóttir

07:00 Vekjarinn í símanum hringir, snúsa óvart aðeins of lengi og þarf að græja mig fyrir daginn á hlaupum. Fer út með hundinn, hann sér kött og gerir heiðarlega tilraun til þess að taka mig úr axlarlið, tekst ekki. Bíllinn fer ekki í gang í fyrstu tilraun en rýkur í gang í annarri, dagurinn byrjar vel.

 

08:00 Mætt á morgunfund í Fossvoginum. Hóf sérnámsgrunnsárið í héraði (mæli með Króknum!) og er núna að taka fjóra mánuði á lyflækningasviði Landspítala. Sokkarnir í fataherberginu voru búnir svo það fyrsta sem ég geri eftir fundinn er að ná mér í sokka inni á línherbergi deildarinnar enda eru Landspítalasokkarnir órjúfanlegur hluti af vinnugallanum.

 

08:30 Fyrsti kaffibolli dagsins og með því kremkex úr býtibúrinu. Hugsa til góðra tíma þegar Póló kex var hluti af úrvalinu. Byrjum á að undirbúa okkur fyrir stofuganginn.

 

08:40 Síminn hringir rétt eftir að ég byrja að lesa. Hringt vegna versnandi sjúklings sem er inniliggjandi á teyminu og staðsettur á bráðamóttökunni. Förum og metum sjúklinginn og í framhaldi ákveðið að hefja BiPAP-meðferð. Byrjum svo stofuganginn á bráðamóttökunni.

 

11:00 Annar kaffibolli dagsins. Stofugangurinn búinn og nóg af verkefnum fram undan. Byrja að undirbúa aðra útskriftina mína í dag, vart búin að stimpla inn læknasíma Lyfjavers þegar síminn hringir, beðin um að koma að líta á sjúkling á bráðamóttökunni.

 

12:00 Hitti góða vinnufélaga í hádegismatnum, sumir þeirra fyrrum bekkjarfélagar líka. Þakklát fyrir það hvað ég er búin að kynnast ótrúlega miklu af góðu fólki, bæði í gegnum námið og vinnuna. Minnt á það þegar ég skoða matseðilinn hvert kolefnisspor máltíðar dagsins sé, læt samt vaða og reynist fínasti fiskur.

Hringt frá deildinni í miðjum bita, aðstandendur sjúklings sem er að útskrifast komnir að sækja hann og óska eftir samtali við lækninn. Gríp með mér þriðja kaffibollann og fer aftur upp á deild.

 

12:20 Ræði við sjúkling sem er að útskrifast. Hringi í lyfjaskömmtun, geri lyfseðla og les þá fjórum sinnum yfir áður en ég sendi þá, sem er framför frá því í byrjun sérnámsgrunnsársins. Tala svo við hjúkrunarfræðinginn hans, sendi sjúkraþjálfunarbeiðni, hringi í eiginkonuna hans og fæ mér loks fjórða og síðasta kaffibolla dagsins. 

 

13:00 Fleiri læknabréf, fleiri símtöl og fleiri dagálar. Allt smellur saman að lokum. Náði meira að segja að lauma inn einu matsblaði til sérnámslæknisins. 

 

16:20 Skrái mig út og rölti út í bíl sem fer í gang í fyrstu tilraun. Keypti mér íbúð nýlega og er á fullu í framkvæmdum. Á mjög hjálplegan pabba sem vill svo heppilega til að er smiður. Erum að afhrauna loftin í íbúðinni, búin með eina umferð af því að slípa og sparsla og eigum að minnsta kosti tvær eftir. Þegar klukkan er að ganga 20:00 og axlirnar orðnar verulega þreyttar lauma ég því aftur að honum hvort ég ætti ekki að skoða að fá einhvern aðila í þetta. Hann lætur eins og hann heyri ekki í mér og heldur áfram að slípa.

 

20:00 Heim í kvöldmat, stutt ganga með hundinn og enda svo daginn á sundferð með góðu fólki. Fer ekki í kalda pottinn þrátt fyrir hvatningu.

 

22:00 Loksins komin upp í sófa eftir langan dag. 12 tíma vakt framundan á morgun svo það er eins gott að reyna að ná sjö tímunum. Freistast til þess að kveikja á Netflix og skrolla í gegnum Tiktok á sama tíma enda mikilvægt að gleyma ekki að sinna menningunni þó það sé mikið að gera. Tel á fingrum mér hversu mörgum tímum ég næ ef ég tek einn þátt í viðbót.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica