02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Bókin mín. Í góðum félagsskap bóka. Guðmundur Þorgeirsson
Vísir menn hafa haldið því fram að sterkasta vísbending um gæði bóka sé hvort þær vitji manns aftur og aftur og kalli á endurtekinn lestur. Sú bók sem ég hef oftast lesið er Sjómannalíf eftir Rudyard Kipling í þýðingu Þorsteins Gíslasonar. Hún fjallar um fordekraðan unglingsstrák af auðugu foreldri sem fellur útbyrðis af farþegaskipi á leið yfir Atlantshafið en verður það til lífs að vera dreginn upp í fiskibát sem haldið er úti til veiða sumarlangt. Um borð trúir enginn sögum um ríkidæmi og vegleg verðlaun og er hann því dæmdur til dvalar og starfa um borð allt sumarið. Og verður að manni. Þetta er vel sögð þroskasaga en jafnframt óður til ærlegrar vinnu, ekki síst sjómennsku, og til hversdagsmannkosta. Þegar ég eignaðist bókina, var ég níu ára og átti heima á Húsavík. Ég hafði öðlast virðingu fyrir störfum sjómanna og var sammála bókarhöfundi um manndómsvígsluna sem felst í því að míga í saltan sjó. Ekkert æviskeið var gjöfulla á innihaldsríkan bóklestur og kynnin af sumum söguhetjum voru ekki síður innihaldsrík og tilfinningaþrungin en kynni við vini í raunheimum. Nægir að nefna gamla bókarvini eins og Hjalta í bókum Stefáns Jónssonar, Nonna Jóns Sveinssonar, Árna í Hraunkoti Ármanns Kr. Einarssonar, en kannski öðrum fremur Ugga Greipsson í Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar. Uggi var svo kvöldsvæfur að hann sofnaði út frá kvöldmatnum án þess að við neitt væri ráðið. Hans stærsta sorg var að hann myndi missa af jólunum vegna þessa. Ég man hversu þakklátur ég var móður hans fyrir að flýta jólunum fyrir Ugga, klæða hann í jólafötin á miðjum degi, kveikja jólaljósin og ganga með honum um bæinn að upplifa jólaandann. Kynnin af þessu fólki gegnum bóklestur var lífsreynsla sem jafnaðist í mínum huga á við raunveruleikann sjálfan. Mér fannst ég skilja til fulls tilfinningar Álfgríms í Brekkukotsannál til grásleppuveiða, og reyndar breyttist ég sjálfur í Álfgrím þar sem ég sat undir árum við grásleppuveiðar með afa mínum út af Hraunhöfn á Melrakkasléttu.
Í menntaskóla las ég Baugabrot, úrval glóandi gullmola sem Tómas Guðmundsson hafði valið úr höfundarverki Sigurðar Nordal, nokkurs konar stiklur sem vísa leið inn í fjölbreytt stórvirki höfundar en geta líka staðið sjálfstætt sem stuttar ritgerðir eða smáprósar eins og annar snillingur, Gyrðir Elíasson, hefur ræktað sem sjálfstæða bókmenntagrein. Sigurður hefur öðrum fræðimönnum betur náð tökum á þeirri margþættu list að skrifa bókmenntir um bókmenntir. Ég drakk þessa bók í mig með þeim afleiðingum að málfar mitt og ritstíll gerbreyttist og skóp mér það verkefni í framhaldinu að skala niður hátíðleika og fyrningu eigin máls. Sennilega hefur því engin bók haft meiri bein áhrif á mig. Tómas Guðmundsson orti:
[…]
að kynslóð vor hin eina kynslóð er,
sem nýtur þeirrar hamingju að hafa ekki dáið
Svo hjartanlega náið
er lífið okkur enn, sem betur fer.
Dásamlega blátt áfram og smellið en með undirtexta sem fær ágenga merkingu á viðsjárverðum og stríðstrylltum tímum. Á slíkum tímum gegna bókmenntir mikilvægu og fjölþættu hlutverki. Mæli hér í lokin með fjórflokki norska rithöfundarins Roy Jacobsen í frábærri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar, Hin ósýnilegu, Hvítt haf, Augu Rigels, og Bara móðir. Sögusviðið er Norður-Noregur í seinni heimsstyrjöld og fyrst eftir hana. Hryllingi stríðs er lýst á áhrifamikinn hátt en ekki síður breytingum undir yfirborðinu hjá stríðshrjáðri og hersetinni þjóð þar sem traust milli manna hefur trosnað og margir eru grunaðir og/eða sakbitnir enda margs konar sekt möguleg. Sársaukinn í þessari frásögn er þó mildaður af töfrum stíls og frásagnarlistar.
Ég vil skora á Katrínu Fjeldsted, heimilislækni,
að skrifa næsta pistil.