02. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Helstu orsakir alvarlegra lifrarsjúkdóma
Fjórir íslenskir meltingarlæknar fjölluðu á Læknadögum um stöðu og þróun lifrarlækninga á Íslandi, þau Einar S. Björnsson, Óttar Már Bergmann, Sigurður Ólafsson og Steingerður Anna Gunnarsdóttir. Viðfangsefnin voru breytt landslag, nýjar áskoranir, veirulifrarbólga A-E, skorpulifur, klínísk nálgun
sjúklinga og hlutverk heimilislækna. Læknablaðið hitti þau að máli.
Sigurður segir mikla grósku vera í þróun lifrarlækninga sem sérgreinar. Nefnir hann sem dæmi uppgötvun lifrarbólgu C árið 1989 og þróun nýrra lyfja sem olli byltingu í lækningu á henni. Fitulifrarkvilli sem tengist efnaskiptaröskun séu orðinn algengasti lifrarsjúkdómurinn á Vesturlöndum en aukin þekking og nýir meðferðarmöguleikar eru í farvatninu. Mikil þróun sé í meðferð á öðrum algengum lifrarkvillum og fylgikvillum skorpulifrar. Staða lifrarlækninga sé sterk á Íslandi, með sérhæfðum lifrarlæknum með góða menntun og þjálfun og á Landspítalanum öflug þjónusta. Einnig öflug vísindastarfsemi, rannsóknarvinna og mikill fjöldi vísindagreina birtur.
Einar minnir á að tilfellum skorpulifrar hafi fjölgað verulega á síðustu áratugum og sé helmingur tilfella vegna áfengisneyslu. Áfengis-lifrarbólga komi oftar fram hjá yngra fólki (45 til 50 ára og allt niður í 20 til 30 ára), valdi gulu og geti leitt til dauða. Innlagnir vegna alvarlegs lifrarsjúkdóms hafi verið mjög sjaldgæfar í byrjun 9. áratugar síðustu aldar eða um eitt tilfelli á ári. Gríðarleg aukning hafi orðið um tíu árum eftir að bjór var leyfður (1989) og upp úr aldamótum hafi nýjum tilfellum fjölgað um -20-30 á ári. Innlagnir í dag hafi áttfaldast og tengist það aukinni áfengisneyslu sem hafi tvöfaldast á þessum 40 árum, farið úr fjórum lítrum á ári upp í næstum átta. Þar hafi aukið aðgengi að áfengi, fjölgun útsölustaða og lengri opnunartímar haft mest áhrif. Fjöldi bara og veitingastaða á landinu jókst úr 35-40 árið 1980 upp í yfir 1000 árið 2017. Dagdrykkja hafi og aukist mikið síðastliðin 20 ár.
Um veirulifrarbólgu A til E segir Sigurður að A og E séu sjaldgæfar hér á landi og Delta-veira einnig. Á Íslandi séu 900-1000 einstaklingar með langvinna lifrarbólgu B. Flestir sem greinist séu með langvinnt smit sem komi frá löndum þar sem lifrarbólga B er landlæg. Þó sé til öflug og góð lyfjameðferð og bóluefni. WHO mæli með bólusetningu gegn henni fyrir alla en Ísland sé eitt landa í Evrópu sem ekki hafi tekið upp slíka bólusetningu. Árið 2016 var hrundið af stað meðferðarátaki gegn lifrarbólgu C, þar sem öllum smituðum var boðin lyfjameðferð. Það tókst að ná til 90% þeirra á innan við þremur árum. Árangur var góður og sem dæmi má nefna að algengi lifrarbólgu C meðal fólks sem sprautar sig með vímuefnum í æð fór úr 55% niður fyrir 10%. Lifrarbólga C var áður algeng orsök skorpulifrar, en undanfarin ár hafa aðeins greinst örfá tilfelli.
Steingerður fjallaði um þrjár íslenskar faraldsfræðilegar rannsóknir á skorpulifur með unglæknum á árabilunum 1994-2022. Nýgengi var 3,3 á hverja 100.000 íbúa á ári 1994-2003 en samkvæmt nýjustu rannsókninni 2016-2022 er nýgengið nú 13,8. Þrjár algengustu orsakir skorpulifrar séu áfengi, efnaskiptaröskun tengd offitu og veirulifrarbólga C. Áfengi var valdurinn í 30% tilfella á árunum 1994-2015 en 40% 2016-2022. Efnaskiptaröskunin hafi verið afar sjaldgæf í fyrstu rannsókninni en komin upp í 28% í þeirri síðustu. Offita þjóðarinnar og aukin sykursýki af tegund 2 og áfengissala séu stærri áhættuþættir en áður. Steingerði finnst að stjórnmálafólk beri mikla ábyrgð. Þetta séu mjög veikir sjúklingar sem liggi lengi inni og það sé einnig dýrt fyrir þjóðina.
Óttar fór á málþinginu yfir það hvernig almennur læknir geti nálgast sjúklinga með grun um lifrarsjúkdóm. Það þurfi ekki allir að hitta sérfræðing og heilsugæslan sé mikilvæg í að geta metið sjúklinga og valið tilfelli sem þarf að athuga betur, til dæmis með blóðprufum og myndgreiningum. Göngudeildir muni springa ef allir sjúklingar með fitulifur komi beint til sérfræðings.