02. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskólanum í Lundi. Elín Maríusdóttir

Elín Maríusdóttir varði doktorsritgerðina sína frá Háskólanum í Lundi þann 5. desember 2024. Vörnin fór fram í Malmö.

Ritgerðin ber heitið Þáttur Hartmanns aðgerðar í meðferð á krabbameini í endaþarmi (Aspects of Hartmann's procedure for rectal cancer)

Andmælandi var Kalle Landerholm, aðstoðarprófessor við háskólann í Linköping.

Leiðbeinendur verkefnisins voru Pamela Buchwald, aðstoðarprófessor við háskólann í Lundi, Fredrik Jörgren, dósent við háskólann í Lundi, og Marie-Louise Lydrup, dósent við háskólann í Lundi.

Elín lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands í júní 2010. Síðan lauk hún sérnámi í almennum skurðlækningum 2018. Doktorsnám við Háskólann í Lundi hófst haustið 2018. Elín flutti heim til Íslands síðasta sumar og starfar sem yfirlæknir hjá embætti landlæknis.

Um verkefnið

Ritgerðin er byggð á fjórum greinum sem fjalla um skurðmeðferð við krabbameini í endaþarmi með áherslu á aðgerð Hartmanns.

Aðgerð Hartmanns er notuð þegar endurtenging þarms er ekki talin ráðleg (og því er settur poki á magann), svo sem í tilfelli aldraðra og hrumra sjúklinga. Í Svíþjóð er notkun þessarar aðgerðar mjög mismunandi eftir landshlutum og eru ástæður þess meðal annars að fyrri rannsóknir hafa sýnt auknar líkur á fylgikvillum í kjölfar Hartmanns-aðgerðar samanborið við aðrar skurðmeðferðir við endaþarmskrabbameini.

Þessar fyrri rannsóknir voru litlar og margar hverjar byggðar á mjög sérstökum sjúklingahópum, sem veldur því að erfitt er yfirfæra niðurstöðurnar á stærri hópa.

Niðurstöður Elínar sýna að tíðni fylgikvilla eftir Hartmanns-aðgerð er lægri en fyrri niðurstöður hafa sýnt. Einnig er langtímaárangur er varðar lifun og endurkomu krabbameins sambærilegur við aðrar meðferðir. Því er Hartmanns-aðgerð góður kostur fyrir þá sjúklinga þar sem ekki er ráðlegt að tengja saman þarminn eftir skurðmeðferð við endaþarmskrabbameini.

Hvað segir nýdoktorinn?

 Af hverju vildir þú verða læknir?

Ég hef síðan ég var lítil haft mikinn áhuga á læknisfræði og líkamanum. Sérstaklega hafði ég áhuga á líffærafræði og skurðlæknisfræði. Fyrir mig er mikilvægt að vinna við eitthvað sem gerir heiminn örlítið betri.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Allur skalinn, að vera læknir er oft mjög erfitt en gefandi á sama tíma.

Þó eru það mikil forréttindi að vinna við eitthvað skemmtilegt og áhugavert. Það er aldrei leiðinlegt að vera læknir og ég held mér hafi aldrei nokkurn tímann leiðst í vinnunni.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Ég myndi auka fjármagn til heilbrigðiskerfisins, fjölga leguplássum og bæta kjör heilbrigðisstarfsfólks.

Ég held það yrði auðveldara að sporna gegn manneklu og kulnun ef skilningur væri á því hversu mikið álag það er að bera persónulega ábyrgð á mannslífum.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

 Vera með fjölskyldunni, elda góðan mat, hlaupa eins langt og ég get og spila skemmtileg borðspil.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica