01. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Klínísk lífefnafræði. „Það er ekki til neinn heilbrigður maður – aðeins illa rannsakaður“. Ísleifur Ólafsson

Eftir stúdentsprófið 1976 var ég óráðinn í hvaða leið ég skyldi velja. Ég hafði verulegan áhuga á líffræði og einna helst sjávarlíffræði, en ég hafði unnið sem háseti á togara öll menntaskóla-árin. Læknisfræðin þótti strembnari, en á úrslitastundu ýttu faðir minn, sem var læknir, og læknaneminn mágur minn mér yfir strikið. Í læknanáminu hafði ég mest gaman af því að grúska í og reyna að skilja lífeðlis- og lífefnafræðilega ferla sem ollu sjúkdómum og áttu þátt í klínísku myndinni. Á kandídatsárinu voru það læknar á barnadeild Landakotsspítala og Hannes Pétursson geðlæknir sem ýttu undir þennan áhuga minn á lífefnafræði og rannsóknalækningum.

Haustið 1984 hóf ég störf á rannsóknastofum Landspítala undir leiðsögn Matthíasar Kjeld og Þorvalds Veigars Guðmundssonar. Mikil umskipti voru að koma af tvískiptum vöktum á barnadeild Landakotsspítala. Í stað þess að skoða og tala við börn lærði ég á ýmis tæki og tól og að skilja mælitæknina. Ég tók þátt í daglegum rannsóknastörfum undir ströngu eftirliti lífeindafræðinga og verkefnum tengdum gæðaeftirliti rannsókna. Tölvunotkun á rannsóknastofum Landspítala var að hefjast, en rannsóknastofan á Borgarspítala hafði þegar verið tölvuvædd 1968. Matthías Kjeld var ákaflega frjór og fullur af metnaði, en fjármagn og tækjabúnaður fyrir rannsóknastarfsemina og vísindin var mjög hamlandi. Fræg tilvitnun í Matthías er notuð við ýmis tækifæri: „Það er ekki til neinn heilbrigður maður – aðeins illa rannsakaður“.

Ég fór að huga að skipulögðu framhaldsnámi á sviði rannsóknalækninga. Faðir minn hafði verið í samstarfi við vísindamenn beggja vegna Atlantshafsins og mér buðust afleysingastöður bæði við NY Medical Center á Manhattan og í Malmö í Svíþjóð. Eiginkonan baðst ákveðið undan flutningi til New York með tvö lítil börn svo Malmö varð fyrir valinu. Tíminn á Skáni var ákaflega ánægjulegur og eignuðumst við þar sænska og íslenska vini fyrir lífstíð.

Á þessum árum var klíníska lífefnafræðideildin í Malmö eflaust ein sú fremsta í norðanverðri Evrópu. Andi stofnanda deildarinnar, prófessorsins Carl-Bertil Laurell, hvíldi yfir deildinni og einkenndist af miklum aga og vinnusemi. Hann krafðist stundvísi af öllum og passaði upp á að starfsfólk væri ekki í löngum kaffipásum. Ætlast var til að læknar deildarinnar huguðu alla daga að vísindavinnu sinni. Vinnudagurinn skiptist til helminga, í störf tengd þjónusturannsóknahluta og hins vegar vísindavinnu. Vísindavinnunni fylgdi mikil handavinna og kynntist ég nánast öllum rannsóknaaðferðum í lífefnafræði próteina og sameindaerfðafræði. Í slíkri vinnu misheppnast tilraunir og maður gerir ótal mistök. Þá gildir að sýna þolinmæði.

Vorið 1989 var handleiðari minn í doktorsverkefninu, Anders Grubb, skipaður prófessor í klínískri lífefnafræði í Lundi og fylgdi ég honum. Ég fékk sænska sérfræðiviðurkenningu 1991 og 1993 tók ég sænskt sérfræðipróf í klínískri lífefnafræði, þá nýlega tekið upp. Ári seinna varði ég doktorsritgerðina, „Molecular biology and clinical studies of human cystatin C“. Eftir 8 ára dvöl fjölskyldunnar á Skáni var kominn tími á að ákveða hvort maður skyldi setjast að. Þá bauðst staða á rannsóknadeild Borgarspítalans og teningunum var kastað.

Starfið á rannsóknastofum er fjölbreytt. Mikil samvinna er við lífeindafræðinga, náttúrufræðinga og allt heilbrigðisstarfsfólk. Dagleg störf felast í túlkun á rannsóknaniðurstöðum, ráðgjöf um notkun rannsókna og hvað getur truflað niðurstöður. Vinna við gæðaeftirlit er mikilvægur þáttur. Rannsóknastofur þurfa að vera í stöðugu mati á nýjum og gömlum rannsóknaraðferðum, tækjum og upplýsingatækni. Sérfræðilækni í klínískri lífefnafræði ber að stunda vísindavinnu og eiga samvinnu við kollega um vísindaverkefni. Þátttaka og samstarf við alþjóðleg fagfélög er mikilvæg, sérstaklega á Norðurlöndunum.

Rannsóknir hafa sýnt að um 70% allra mikilvægra klínískra ákvarðana eru teknar á grundvelli niðurstaða frá klínískum rannsóknastofum. Rannsóknastofurnar eru því einar mikilvægustu deildir allra sjúkrahúsa og sjúkrahús yfirleitt best metin út frá þvíhvernig búið er að rannsóknastofunum. Því miður hefur nýliðun í sérgreinum rannsóknalækninga verið hæg síðustu ár.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica