01. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Nýdoktor. Doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands - Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024 varði Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Handan rannsóknarstofunnar: Áhættuþættir, lifun og fylgisjúkdómar hjá einstaklingum með góðkynja einstofna mótefnahækkun og mergæxli (Looking Beyond the Lab: Risk Factors, Survival, and Comorbidity among Individuals with Multiple Myeloma and Monoclonal Gammopathy of Undetermined Significance).
Andmælendur voru dr. Charlotte Pawlyn, blóðsjúkdómafræðingur við The Institute of Cancer Research: Royal Cancer Hospital í London og dr. Francesca Gay, blóðsjúkdómafræðingur og dósent við Háskólann í Torino á Ítalíu.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor. Auk hans sátu í doktorsnefnd Sigrún Þorsteinsdóttir, nýdoktor, Thor Aspelund, prófessor, Ola Landgren, prófessor og yfirlæknir við Sylvester Comprehensive Cancer Center sjúkrahúsið í Miami og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor.
Frá vinstri, Sigurður Yngvi Kristinsson, leiðbeinandi Ingigerðar, dr Charlotte Pawlyn sem var andmælandi, Ingigerður Sólveig og Einar Stefán Björnsson, sem stýrði athöfninni.
Um verkefnið
Ritgerðin samanstendur af þremur greinum sem allar hafa birst í ritrýndum, erlendum tímaritum. Í verkefninu eru ytri þættir eins og til að mynda fylgisjúkdómar og langlífi skoðaðir með tilliti til lifunar hjá einstaklingum með góðkynja einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) og mergæxli. Einnig voru tengsl MGUS og sjálfsofnæmissjúkdóma rannsökuð. Niðurstöður benda til þess að langlífir foreldrar hafi jákvæð áhrif á lifun hjá einstaklingum með mergæxli og MGUS, fylgisjúkdómar eru algengir hjá einstaklingum með mergæxli og því fleiri fylgisjúkdómar sem eru til staðar við greiningu, því verri er lifun þesssara einstaklinga. Auk þess, þrátt fyrir fyrri tilgátur, þá virðast ekki vera tengsl á milli sjálfsofnæmissjúkdóma og MGUS í skimuðu þýði.
Hvað segir nýdoktorinn?
Af hverju vildir þú verða læknir?
Ég var alls ekki viss en frænka mín er læknir og ég hef alltaf litið upp til hennar. Móðuramma mín sem var hjúkrunarfræðingur hvatti mig líka til að sækja um í læknisfræði, fannst það eiga vel við mig. Þegar ég valdi háskólanám þá kom margt til greina; stærðfræði, íslenska, verkfræði en ég var á eðlisfræðibraut í menntaskóla og smá týnd í lífinu. En ég hef alltaf haft svo mikinn áhuga á fólki og vísindum og því prófaði ég að taka inntökuprófið eftir hvatningu fyrrnefndra aðila og komst inn. Ég sé ekki eftir því í dag og er afar hamingjusöm í starfi.
Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?
Allur skalinn! Mjög mörg álagstímabil og svo rólegra inn á milli. En þetta nám hefur gefið svo mikið, bæði dásamlega kollega og vini og tækifæri til samstarfs erlendis. Svo er gaman að líta um öxl og sjá hversu ótrúlega mikið maður hefur lært.
Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
Það er svo margt sem má bæta en líka svo margt gott á Íslandi! Mér duttu tveir hlutir í hug.
Nú sér maður kerfið heima í öðru ljósi eftir að hafa unnið í Svíþjóð í fjögur ár. Hér er rannsóknum gert hærra undir höfði og það mætti bæta heima, gera læknanemum og deildarlæknum auðveldar fyrir að stunda rannsóknir samhliða sérhæfingu. Þetta er mjög algengt hér og flestir hvattir til þess að taka þátt í rannsóknum sem ég styð eindregið.
Hér er svo ákveðið kerfi sem flýtir fyrir greiningu illkynja sjúkdóma. Við ákveðin einkenni eða rannsóknarniðurstöður er hægt að senda beiðni inn á spítalann fyrir uppvinnslu og á viðeigandi deild. Þetta er í mjög föstum skorðum og þeir sjúklingar sem koma til okkar á blóðmeinadeildina fá forgang í ýmsar rannsóknir meðan við vinnum upp ákveðin einkenni og teikn. Þetta gæti kannski minnkað óþarfa tilvísanir á bráðamóttöku og inniliggjandi uppvinnslu heima sem við gerum á göngudeild hér í Gautaborg. Og þar með kannski minnkað álag á bráðadeildir. En til þess að þetta gangi upp þarf að auka við og styðja betur göngudeildarþjónustuna.
Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
Verja tíma með fjölskyldunni og vinunum. Ég hef mjög gaman af því að ganga um hálendi Íslands og reyni að fara í gönguferðir á hverju sumri, stuttar og langar. Við fjölskyldan gengum upp að Stórurð síðasta sumar í yndislegu veðri. Eldri sonurinn gekk en sá yngri fékk að vera í burðarpoka. Besti dagur sumarsins! Lestur góðra bóka er líka í uppáhaldi þrátt fyrir minni tíma nú í undirbúningnum fyrir vörn. Móðir mín er dugleg að senda mér íslensk skáldverk sem ég er mjög þakklát fyrir. Svo reyni ég að hreyfa mig reglulega, ég er hluti af frábærum hlaupakvennahópi í Gautaborg og verð að fara að mæta aftur, búin að skrópa núna vikurnar fyrir vörnina.