01. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Heimþrá og hamingja. Margrét Brands Viktorsdóttir

Ég vinn á Karolinska í Stokkhólmi. Lífið Stokkhólmi er gott. Ég bý í úthverfi norður af miðbænum með eiginmanni mínum, þremur dætrum og einum kisa með alvarlegt ADHD. Eiginmaðurinn er ánægður með sænskt veðurfar. Börnin hafa búið lengur í Svíþjóð en á Íslandi og tala stokkhólmsku eins og innfæddir. Veturinn er mildur, sumrin hlý og fátt betra en sundsprettur í sænsku vatni á heitu sumarkvöldi. Ég og eiginmaðurinn ræðum oft hvort og hvenær við flytjum heim. Heimþráin býr í flestum sem búið hafa lengi erlendis en hún kemur í bylgjum. Til dæmis fylgir ekki mikil heimþrá því að sjá myndir af snjókomu í byrjun júní, en börnin héldu að við værum að grínast þegar við sýndum þeim myndir af hvítri jörð á Íslandi einn júnímorgun þegar við vorum að labba með þær í skóla og leikskóla klæddar stuttbuxum og sólarvörn. En heimþráin skýtur upp kollinum. Maður saknar fjölskyldu og vina, íslenskrar náttúru, Laugardalsins, piparosts og svo mætti lengi telja. Sem læknir fæ ég oft heimþrá heim á Landspítalann.

Ég er uppalin á Landspítalanum ef svo má segja. Ég kom þar fyrst sem læknanemi, vann á sumrin og meðfram námi á skurðsviðinu, tók mitt kandidatsár og steig mín fyrstu spor sem sérnámslæknir. Á Barnaspítalanum fann ég mína köllun sem ég hef reynt að elta síðan. Landspítalinn var annað heimili fyrir mann og fólkið sem þar starfar manni kærkomið. Ég sakna kolleganna. Ég sakna þess að geta talað íslensku við sjúklingana mína. Ég sakna þess að fá sms frá göngudeildinni þegar það er kaka því þær vita að ég þarf að fá minn sykurskammt yfir daginn. Ég sakna spjallanna á nóttunni á legudeildunum og gjörgæslunni. Ég sakna plokkfisksins í mötuneytinu (í alvörunni!). Ég sakna íslenska gálgahúmorsins (sem virkar engan veginn í Svíþjóð, trúið mér, ég hef reynt!). Ég sakna skurðstofuhjúkkanna sem pössuðu svo vel upp á mann og var mikið í mun að sjá til þess að ég myndi ganga út áður en ég færi út í sérnám svo ég myndi nú einhverntíma koma tilbaka. Ég sakna hlýja viðmótsins og starfsmóralsins á Barnaspítalanum sem er einn sá besti sem ég hef komist í tæri við á mínum sjúkrahúsferli.

Rauði þráðurinn er samstarfsfólkið. Á heimsvísu hefur aldrei verið jafn mikilvægt að hlúa að mannauðnum sem býr í heilbrigðisstarfsfólki og nú. Fólk sem fórnar tíma með fjölskyldunni, afmælum, stórhátíðum og fleiru, til að sinna og hlúa að öðrum. Krafan í samfélaginu til heilbrigðisstarfsfólks er oft á tíðum ógnvekjandi. Meira og meira er krafist, vinna meira og hlaupa hraðar. Slíkt gengur ekki til lengdar. Það þarf að skapa aðstæður fyrir lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk til að geta sinnt starfi sínu, án þess að ganga á eigin heilsu. Fleiri kjósa að minnka starfshlutfall til að ná jafnvægi milli vinnu og einkalífs og fleiri íhuga að skipta um starfsvettvang. Að missa fólk með langa og dýrmæta þjálfun og sérfræðiþekkingu er ekki ásættanlegt. Það þarf að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir til að bæta götin í stað þess að vera sífellt að ausa vatni úr bátnum.

Margt hefur breyst á Landspítalanum síðan ég starfaði þar síðast, sjálfsagt plokkfiskurinn líka. Því miður er ekki hægt að breyta veðrinu á Íslandi, en það er aldrei að vita nema maður verði á einhverjum tímapunkti þreyttur á veðursældinni í Svíþjóð og þörfin fyrir íslenskan plokkfisk muni taka yfir, en þangað til, saknaðarkveðjur heim á Landspítalann!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica