01. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Klínísk lífefnafræði. Ánægð með mitt val á sérgrein. Ingunn Þorsteinsdóttir

Kópavogsskóli, Víghólaskóli og eðlisfræðideild í Menntaskólanum í Kópavogi. Allar þessar menntastofnanir á sömu þúfunni í austurbæ Kópavogs. Rölt í skólann nokkur hundruð metra í 13 ár. Eftir þessi ár í Kópavogi var komið að því vorið 1981 að ákveða hvert framhaldið yrði. Ég var búin að ákveða að skrá mig í efnafræði í Háskóla Íslands. Á leiðinni upp í háskóla skipti ég um skoðun og skráði mig í staðinn í læknisfræði. Ég lauk prófi í læknisfræði vorið 1987. Leiðin lá svo til Svíþjóðar og þegar fjölskyldan flutti til Uppsala var ég ekki viss hvaða sérnám ég ætlaði að fara í eftir fæðingarorlof. Ég byrjaði á því að vinna á gigtarlækningardeildinni á Akademíska sjúkrahúsinu í Uppsölum og líkaði þar mjög vel, þó mér þætti vaktavinnan alltaf erfið.

Það var svo fyrir algera tilviljun að ég kynntist sérgreininni minni, klínískri lífefnafræði. Ég fór með Eyþóri manninum mínum til Chicago, þar sem hann fór á amerísku lungnalækna ráðstefnuna. Eyþór var byrjaður að stunda rannsóknir á astma og einn af samstarfsmönnum hans var prófessor Per Venge á „klinisk kemi“ á Akademíska. Per var á þessari ráðstefnu í Chicago og hann bauð okkur Eyþóri út að borða. Yfir kvöldverðinum útskýrði Per fyrir mér hvað klínísk lífefnafræði hefur upp á að bjóða og þá möguleika sem væru á því að stunda þar rannsóknir samhliða vinnunni. Per bauð mér vinnu. Ég hugsaði málið og hringdi í hann stuttu seinna, þakkaði gott boð og hef síðan unnið við klíníska lífefnafræði.

Ég hafði tækifæri á að stunda rannsóknir í Uppsölum og var þar hluti af stórum hópi ungra doktorsnema. Þau stunduðu flest rannsóknir á astma og ofnæmissjúkdómum, meðan ég nýtti mér tengslin sem ég hafði á gigtardeildinni og mínar rannsóknir fjölluðu um iktsýki.

Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun minni að sérhæfa mig í klínískri lífefnafræði, sem er ekki svo langt frá efnafræðinni, sem ég ætlaði upphaflega að læra eftir stúdentsprófið. Starfið er fjölbreytt og felur meðal annars í sér vinnu á rannsóknastofu Landspítala, ákvarðanir hvaða mælingar eru gerðar á rannsóknastofunni og val á tækjabúnaði. Við vinnum í mikilli samvinnu við lífeindafræðinga að tryggja gæði mælinganna, sem eru framkvæmdar hjá okkur. Mikilvægur hluti vinnunnar er að fylgjast með innan fræðisviðsins, meðal annars hvað varðar tækjabúnað, nýjar mælingar, mögulega skekkjuvalda og þætti sem geta valdið truflunum á mælingum. Við vinnum ekki eingöngu með mælingar, sem eru gerðar á miðlægu rannsóknastofunni, svokölluðum nærrannsóknum (point of care testing) er alltaf að fjölga, og þarf einnig að fylgjast með gæðum þeirra mælinga.

Mikil tækniþróun hefur verið síðustu áratugi bæði hvað varðar framfarir á tækjum og tölvubúnaði. Aukin sjálfvirkni og öflugri tæki hafa stytt svar-tímann fyrir mælingar og aukið öryggi og gæði mælinga. Stór hluti ákvarðana í klínískri læknisfræði byggjast á niðurstöðum mælinga og því eru gæði mælinga frá klínískum rannsóknastofum mjög mikilvæg.

Mikilvægt fyrir framgang sérgreinarinnar er að fylgjast með og fá ný tæki til landsins, dæmi um slíkt eru nýjustu viðbæturnar hjá okkur á Landspítala, massagreinar, þar sem notuð er nýleg tækni til að greina nákvæmlega mæliefni, sem finnast í mjög litlu magn í líkamsvökvum.

Við erum fjögur, sérfræðilæknarnir, sem vinnum við klíníska lífefnafræði á Landspítala og Sjúkrahúsi Akureyrar. Í þessari grein skrifa ég sem yngri læknir, en eins og kemur fram hér að ofan útskrifaðist ég úr læknadeildinni 1987. Það er því mikil þörf á nýliðun í sérgreininni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica