01. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Heilbrigðisþing um heilsugæslu landsins

Þann 28. nóvember síðastliðinn var Heilbrigðisþing helgað heilsugæslunni. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra setti þingið. Erindi röktu hugmyndafræði og sögu heilsugæslu, sjúkratryggingar, aðgang að þjónustu, tilfærslu verkefna milli starfsstétta og innihald starfsins. Dr. Minna Johansson heimilislæknir frá Uddevalla vakti athygli á umfangi ráðlagðra klínískra leiðbeininga í dag, faglegur grunnur væri missterkur og því þyrfti að ræða vægi þeirra og forgang í störfum heilsugæslu. Dr. Charles Normand hagfræðingur við King´s College í London fjallaði um sjúkratryggingar á Íslandi í samanburði við önnur lönd.

Aðgerðahópur heimilislækna stóð fyrir vottorðavakt.Fá vinstri: Borgný Skúladóttir, Nue Milici, Indriði Einar Reynisson, Lilja Sigrún Jónsdóttir, Gunnar Þór Geirsson, Nanna Rún Sigurðardóttir, Tinna Karen Árnadóttir.

Mörg verkefni voru kynnt, bæði ný starfsemi og nýjar tæknilausnir, en dagskrá þingsins er aðgengileg á vef ráðuneytisins. Selma Margrét Reynisdóttir sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu kynnti skýrsluna Vottorð og ljósið í myrkrinu. Hún kynnti áætlanir um breytingar á verklagi milli stofnana til að minnka þörf fyrir vottorð.

Í pallborðsumræðum var rætt um framtíðarsýn, áskoranir og tækifæri, til dæmis við að virkja aðrar starfsstéttir en lækna í að sinna skjólstæðingum heilsugæslunnar. Oddur Steinarsson heimilislæknir vildi efla nærþjónustu og byggja skipulag á öflugri greiningu gagna. Linda Kristjánsdóttir heimilis-læknir lýsti því að í dag væri fjöldi bráðra erinda í heilsugæslu mun meiri en áður var. Rætt var um skort á þverfaglegum verklagsreglum, skipulagi, þjálfun starfsfólks ef starfsemi breytist og að bera virðingu fyrir tíma skjólstæðinga. Einnig komu viðbrögð úr sal.

Áhugafólk um breytingar á vottorðamálum. Frá vinstri: Gunnar Þór Geirsson, Oddur Steinarsson, Lilja Sigrún Jónsdóttir, Nue Milici.

Jón Steinar Jónsson yfirlæknir á Þróunarmiðstöð Heilsugæslunnar benti á umfang verkefna hjá heilsugæslunni í dag sem áður hefðu átt heima í annars stigs þjónustu og að skoða þurfi hvort heilsugæslan sé komin út fyrir verksvið sitt í verkefnavali. Aðgerðarhópur heimilislækna fjölmennti á Heilbrigðisþing og vakti, á léttum nótum, athygli á málstaðnum varðandi það að minnka vinnu lækna við vottorð. Í kaffihléi var svo hægt að fá vottorðavottorðið sívinsæla, tilvísanir til barnalækna, vottorð um að fólk hafi kosið rétt og tilvísanir til Tene sem kláruðust hratt. Flókin starfsemi eins og heilsugæsla þarf að vera í stöðugri gæðaþróun og rýni svo að starfskraftar nýtist sem best þjóðinni til heilla.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica