01. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Dagur í lífi læknis. Hvernig ég hætti að hafa áhyggjur og byrjaði að elska natríum. Hjálmar Ragnar Agnarsson
06:55 Fyrsta vekjaraklukkan hringir, snooze-a í svona 1-2 skipti, fer alfarið eftir hvernig yngsti fjölskyldumeðlimurinn svaf þá nóttina. Hversu margar tennur er hægt að taka?
07:50 Morgunverkum lokið, plana tómstundir.
Elsti, í 4. bekk, fer á tvær æfingar í dag, tvöfalt nesti með honum.
Miðjubarnið fer á leikskólann. Hvet hana til að vera óþæg og jafnvel bíta, tekur það ekki í mál, hún er nokkuð viss um að ég sé að grínast.
Sá yngsti fær líklega leikskólapláss á sama tíma og nýi Landspítalinn opnar. Legg honum línurnar að sofa meira á næturnar, virðist meðtaka?
08:15 Skríð inn á 7. hæð á landspítalanum, rétt næ í endann á morgunfundinum. Kenni yfirleitt lyftunni um ef yfirlæknirinn sér mig. Sest inn á skrifstofu og fer yfir sjúklinga á mínu teymi.
09:00-10:45 Geng stofugang á sjúklinga mína, reyni að nýta námstækifæri ef ég er með einhverja sem nenna að hlusta. Þrugla um þvagræsimeðferð í svona 400. skipti á þessu ári, kannski hefur þessi tiltekni hópur ekki heyrt þessa ræðu?
Eftir 10:30 þá er athyglisgáfan farin að bresta, velti fyrir mér hvort ég hafi valið rétta sérgrein.
11:00 Post-stofugangs tékk með teyminu, læt mig hverfa upp á skrifstofu og fer þar yfir og undirrita læknabréf eða pæli dýpra í flóknari sjúklingum teymisins, fletti upp hlutum sem ég átti að læra fyrir löngu, er alltaf verið að breyta þessum hyponatremiu algoritma?
12:00-13.00 Á einhverjum tímapunkti fer ég í hádegismat. Fæ mér „Hjammann“ ristaða beyglu með hnetusmjöri og sultu, máltíð sem ég fattaði alfarið upp á. Nokkrir sérnámslæknar eru farnir að herma eftir mér.
13:00-16:00 Dagvinna, útskriftarfundir, uppfæri Power Ranking lista yfir sérfræðinga í almennum lyflækningum sem ég kom upp á umbótatöfluna í vaktherberginu, set mig í þriðja sæti og passa að Hlynur skrifstofufélagi minn sé neðarlega á listanum, held hann hafi samt ekki tekið eftir þessum lista ennþá. Perlur fyrir svín.
Förum yfir teymið í lok dags, fer í rapport og ræði þar við kollega, kryfjum málefni líðandi stundar, bið kvöldvakt að fylgja eftir MMSE-prófi. Sting svo af því ég þarf að keyra á Skagann.
16:30 Ég að rúlla inn á Akranesið, ég vinn hér 25%, og tek nokkrar bakvaktir í mánuði. Fékk símtal á leiðinni frá yfir-lækninum um sjúkling sem ég þarf að endurmeta á kvöldvaktinni.
Hitti Valgeir, sem er ekki sérnámsgrunnslæknir en ekki sérnámslæknir (Læknir, not otherwise specified F89.9), sem er á forvaktinni. Hann ætlar að verða barnalæknir, spyr hann hvað ungabörn geti fengið margar tennur og hvaða skammta af Imovane maður ætti notast við í 15 mánaða drengjum. Hann ráðleggur mér alfarið frá því, auðvelt fyrir hann að segja.
19:00 Ég nýti tækifærið meðan ég er á Akranesi og borða máltíðir sem eru á bannlista heima, til dæmis kjötfarsbollur eða fiskibollur í dós. Það er lostæti.
Að setjast niður með mat er eins og segull á símtöl þegar maður er á bakvakt, svara símtali frá forvaktinni, innlögn.
21:00 Búinn að heyra í konu og börnum, búinn að endurmeta sjúklinginn sem var batnandi á Furiximab. Fer kvöldgönguna um Skagann. Hefðin er sú að strunsa stóran hring um bæjarfélagið með hettuna á hausnum og hlusta á gott hlaðvarp, þykist ætla að hlusta á eitthvað læknisfræði-tengt en á endanum verður Steve Dagskrá fyrir valinu. Ég er með resting bitch face og lít því út fyrir að vera í fýlugöngu. Er að vona að ég sé kominn með eitthvað viðurnefni í bæjarfélaginu. Ég veit að í mínu heimahéraði, Vestmannaeyjum, væri löngu komið viðurnefni á mig fyrir svona hegðun.
Einu sinni sá ég Óla Þórðar (þeir vita sem vita) hjóla heim til sín í hnéháum snjó, það var líklega besta kvöld lífs míns, hann bauð mér góða kvöldið. Var svo hátt uppi eftir það að ég keypti mér tvo rafmagnsgítara á netinu það kvöld.
22:00-24:00 Hér tekur við chicken við símtólið um hvort ég þori að fara að sofa eða hvort ég eigi von á öðru símtali. Fæ símtal 23:50 nýsofnaður. Þrugla í símann eitthvað um þvagræsimeðferð.