01. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Bókin mín. Svefneyjar og vígaslóðir. Ari Jóhannesson
Ég las mikið í æsku, enda ekki annar skjátími í boði en að glápa út um gluggann heima á Skólavörðuholtinu. Ég hreifst mjög af tvískiptum ævintýrabókum með texta á neðri helmingi hverrar síðu en mynd á þeim efri (hef eiginlega ekki rekist á neitt betra síðan). Best var söguleg skáldsaga, Ívar Hlújárn eftir Walter Scott. Þar tókust á, annars vegar hugprúði riddarinn Ívar, dulbúinn Ríkharður ljónshjarta og Hrói höttur, hins vegar bróðir Ríkharðs, Jóhann landlausi og hyski hans. Sagan hafði allt til að bera, burtreiðar, kastala, ástir, afbrýðisemi og útskúfun. Ljónshjarta var reyndar hálfgerður drullusokkur líka, lærði ég seinna. Þannig er það með hetjur okkar, sumar hafa ekki gott jafnvægi og eiga því til að falla af stalli.
Fullorðinn les ég minna en ætla mætti og á mér ekki uppáhaldshöfund eða bækur. Ég nefni þó tvær. Báðar fjalla um stríð, sem er kannski tilviljun – eða ekki. Sú fyrri er Blood Meridian eftir Cormac McCarthy (1933-2023). Þar segir af blóðugum átökum vígasveita hvítra manna og indíána á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó um miðja 19. öld. Sagan er ekki fyrir viðkvæma, ofbeldið og gagnkvæm grimmdin nánast skefjalaus. Í forgrunni eru táningurinn (the kid) og Holden dómari (Judge Holden) sem margir telja eftirminnilegasta óbermið í gervöllum bandarískum bókmenntum. Það sem gerir söguna að einstakri upplifun er stíll McCarthys, myndrænn og nærgöngull, jafnvel yfirþyrmandi, og lýsingar hans á landslagi eru engu líkar. Hann er ekki mikið að þvælast inni í höfði persónanna, lýsir þeim frekar gegnum orð og athafnir. McCarthy fegrar ekkert en mesta hrollvekjan er þó hugsunin um að sagan skuli eiga áleitinn samhljóm með mörgu því sem gerist í heiminum í dag.
Verðlaunaskáldið og friðarsinninn Ilya Kaminski (1977) flutti sextán ára með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna frá Úkraínu. Hann kennir við Princetonháskóla og tvær bækur hans eru til á íslensku, Dansað í Ódessa og Heyrnarlaust lýðveldi. Hin síðarnefnda er ljóðleikur og dæmisaga í tveimur þáttum. Þar greinir frá hersetnu þorpi í ónefndu landi. Þegar hermenn drepa heyrnarlausan dreng (höfundurinn er svo til heyrnarlaus sjálfur), missa íbúarnir heyrnina og láta andstöðu sína og aðrar tilfinningar í ljós með táknmáli meðan þeir reyna að varðveita hversdagslífið, ekki síst ástina. Sú spurning vaknar þó hversu áhrifarík slík viðspyrna sé til lengdar. Ljóðin leiftra af frumleika og myndvísi en tala um leið umbúðalaust inn í samtíma okkar, líkt og saga McCarthys.
Ég seilist gjarnan í bókahillu og les eitt, tvö ljóð áður en ég leggst á koddann á kvöldin. Ljóðagaldur Hannesar Péturssonar verður þá ósjaldan fyrir valinu. Skáldskapur hans er hóflega háttbundinn, oftast með stuðlum en sjaldan rími. Stuðlana vefur hann svo fimlega í ljóðin að lesandinn verður þeirra varla var. Þeir þjóna höfundinum, ekki öfugt. Hér er ljóð úr bókinni Eldhylur (1993). Sviðið er langt frá heimsins vígaslóð en undir einföldum texta er annar dýpri.
Einbátungur
Nú blánar við sjónarrönd
fyrir svefneyjunum.
Hann leggur
árar í kjöl
og hafstraumurinn vaggar
og vaggar hægt og rótt
bátnum þangað
í beina stefnu.