01. tbl. 111. árg. 2025
Ritstjórnargrein
110. ára afmælisárgangur Læknablaðsins hefur verið birtur – velkomin í afmælið í janúar 2025. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir
Sögulegur 110 ára afmælisárgangur Læknablaðsins hefur nú notið birtingar. Því verður fagnað á formlegan hátt á afmælismálþingi Læknablaðsins fimmtudaginn 23. janúar á Læknadögum í Hörpu kl. 13.00. Gestir Læknadaga eru velkomnir í afmælið sem verður fullt af gleði og boðið upp á dýrindis afmælistertu eins og glæsilegum afmælum hæfir. Læknablaðið mun af þessu tilefni í fyrsta sinn veita verðlaun fyrir bestu vísindagreinina og besta sjúkratilfellið sem birt var í afmælisárganginum og stefnir að því að hafa þetta að árlegum viðburði. Á meðan notið er afmæliskaffis munu afmælisgestirnir njóta tónlistar leikinni af íslenskum læknum undir stjórn Michael Clausen barnalæknis, alkunns tónlistarmanns sem hefur margoft slegið í gegn með tónlistaratriðum sínum með íslenskum læknum á hinum ýmsu viðburðum lækna. Mikilvægi Læknablaðsins verður rætt og núverandi og fyrrverandi ritstjórar Læknablaðsins verða í pallborðsumræðum. Íðorðasafnið er hluti af stoltri vinnu lækna og því við hæfi að ljúka afmælinu með pöbbkviss um það undir stjórn Sæmundar Rögnvaldssonar sérnámslæknis og ritstjórnarmeðlims Læknablaðsins. Þetta verður því eftirminnilegur viðburður eins og stórafmæli eiga að vera. Hlökkum til að sjá ykkur öll í afmælinu.
Afmælisárganginum var fagnað með nýjum pistlum í hverju tölublaði: Saga Læknablaðsins þar sem Þröstur Haraldsson fyrrum blaðamaður Læknablaðsins fór á skemmtilegan hátt yfir 110 ára sögu blaðsins og Frumkvöðlar í læknastétt, þar sem hinir ýmsu læknar tóku góðfúslega að sér að skrifa söguleg erindi um frumkvöðla í læknastétt sem eru ófáir og sú yfirferð að sjálfsögðu ekki verið tæmandi. Vonandi hafa læknar áfram vilja til að senda Læknablaðinu slíka pistla í framtíðinni. Pistlaröðin Spegillinn þar sem nútíminn var speglaður við fyrsta árgang Læknablaðsins dró á skemmtilegan hátt fram hversu fræðin okkar, greiningar og meðferðir hafa breyst.
Öllum ykkur sem komuð að ritun þessara pistla eru fluttar miklar þakkir fyrir. Þið hafið virkilega gert 110. afmælisárganginn eftirminnilegan.
Nýr fastur pistill um tölfræði hóf göngu sína í þessum afmælisárgangi. Prófessor Sigrún Helga Lund, tölfræðingur blaðsins tók að sér án umhugsunar að senda Læknablaðinu reglulega pistla um tölfræði sem munu nýtast ungum sem eldri læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki við sína vísindavinnu. Læknablaðið þakkar Sigrúnu Helgu fyrir þessa frábæru aðkomu að Læknablaðinu.
Læknablaðið væri ekki það sem það er án aðkomu allra þeirra sem hafa sent blaðinu vísindagreinar, ritrýnar sem hafa gætt gæðanna við birtingu þeirra, allra pistla og frétta sem blaðinu hafa borist. Höfundum vísindagreina, ritrýnum, pistlahöfundum og öllum öðrum sem hafa sent blaðinu efni eru sendar miklar þakkir fyrir sína vinnu. Við biðjum lækna einnig að upplýsa Læknablaðið um doktorsvarnir lækna svo geta megi þessara mikilvægu viðburða á viðeigandi hátt í blaðinu.
Mannabreytingar urðu á starfsliði Læknablaðsins eins og áður hefur komið fram. Nýjum ritstjórnarfulltrúa og ritstjórnarmeðlimum er fagnað, sem lesa má um aftar í blaðinu.
Nýr árgangur Læknablaðsins byrjar með skemmtilegri nýjung. Erla Sigríður Sigurðardóttir sérnámslæknir á Landspítala, sem glatt hefur sína samstarfsmenn á Bráðamóttöku Landspítala með vísna- og krossgátum, hefur nú tekið að sér að gera slíkt fyrir Læknablaðið. Gáturnar munu birtast í hverju tölublaði þessa árs og svörin í næsta tölublaði á eftir. Læknablaðið þakkar Erlu Sigríði fyrir þessa spennandi og skemmtilegu nýjung. Læknar vita að „heila-leikfimi“ er mikilvæg og holl ekki siður en aðrar líkamsæfingar til að halda uppi virkni líkamans. Það verður okkur því hollt að kljást við þessar gátur.
Kæru læknar, höldum áfram vísindavirkninni og stuðlum að sterku og góðu heilbrigðiskerfi byggðu á vísindum til framtíðar. Til hamingju með afmælið – lengi lifi Læknablaðið.