12. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Bréf til Læknablaðsins

Persónuvernd óskar eftir birtingu eftirfarandi athugasemdar í Læknablaðinu

Í 11. tölublaði 99. árgangs Læknablaðsins birtist greinin „Farið í hringi og bitið í skott“ eftir Reyni Tómas Geirsson prófessor og yfirlækni. Í greininni er meðal annars fjallað um þá kröfu Persónuverndar að leyfi skrárhaldara liggi fyrir áður en stofnunin veitir leyfi til aðgangs að skrám. Þá segir: „Nú ber hins vegar svo við í vinnureglum vísindasiðanefndar og Persónuverndar að hvor um sig biður um leyfið frá hinum áður en þeir geta afgreitt sitt.“

Af þessu tilefni vill Persónuvernd benda á að samkvæmt leyfum stofnunarinnar til vinnslu persónuupplýsinga í þágu vísindarannsókna, sem og 6. gr. verklagsreglna nr. 340/2003 um afgreiðslu umsókna um aðgang að sjúkraskrám, er þess krafist að skrárhaldari veiti ekki aðgang að gögnum nema fyrir liggi samþykki siðanefndar eða vísindasiðanefndar á rannsókninni. Í þessu felst ekki að áður en Persónuvernd afgreiðir umsókn efnislega fari hún fram á að leyfi vísindasiðanefndar liggi fyrir.

Hins vegar er þess krafist að afstaða skrárhaldara liggi fyrir eins og fram kemur í leyfisskilmálum og 3. gr. fyrrnefndra verklagsreglna. Í því sambandi ber að hafa í huga að það getur skipt sköpum við leyfisveitingu að skrárhaldari hafi fengið vitneskju um umsókn fyrirfram, m.a. til að geta bent á hvaða verklag hann heimili við veitingu aðgangs að skrám sem hann er ábyrgur fyrir, til að geta leiðrétt mögulegan misskilning umsækjanda um til dæmis hvaða upplýsingar sé að finna í skrám og til að koma á framfæri afstöðu sinni til þess hvort rétt sé yfirhöfuð að veita umbeðinn aðgang. Ef skrárhaldari fær ekki tækifæri til að koma afstöðu sinni á framfæri getur því komið til þess að Persónuvernd bindi leyfi óhentugum skilmálum um verklag eða veiti til dæmis leyfi til aðgangs að upplýsingum sem ekki eru til. Meðal annars af þessum ástæðum telur stofnunin það í anda vandaðrar stjórnsýslu að afstaða skrárhaldara liggi fyrir áður en veitt er leyfi til aðgangs að skrám.Þetta vefsvæði byggir á Eplica