12. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Aðalfundur Alþjóðasamtaka lækna 2013

Aðalfundur Alþjóðasamtaka lækna, WMA, var haldinn utan við borgina Fortaleza á norðausturströnd Brasilíu dagana 16.-19. október síðastliðinn. Helstu fréttir af þessum fundi eru samþykkt nýrrar endurskoðunar Helsinki-yfirlýsingarinnar en vinna við hana hefur staðið yfir í tvö ár með opnu umsagnarferli. Nánari grein verður gerð fyrir því í Læknablaðinu síðar í vetur.

WMA hefur aukið starfsemi sína á undanförnum árum með þátttöku í æ fleiri verkefnum og má nefna átak til að vekja athygli á heilbrigðisafleiðingum gróðurhúsaáhrifanna, þátttaka í ýmsum mannréttindamálum og aukið samstarf við aðrar heilbrigðisstéttir og WHO. Þetta leiðir af sér aukin útgjöld á sama tíma og tekjur hækka lítið og þrátt fyrir aðhald lítur út fyrir taprekstur á næstu árum. Tekjur samtakanna eru nánast eingöngu með aðildargjöldum en mjög ströng skilyrði eru sett við móttöku framlaga frá utanaðkomandi aðilum. Það gerist þó í einhverjum mæli en þá eingöngu í tengslum við sérstök verkefni en ekki til kjarnastarfsemi. Greinarhöfundur lagði, fyrir hönd LÍ, fram tillögu um réttlátari skiptingu aðildargjalda. Þetta er viðkvæmt mál þar sem sum stór læknafélög greiða lítið á meðan önnur greiða verulegar upphæðir en aðildarfélögum er þetta í sjálfsvald sett. Það var pólitískt auðveldara fyrir lítið félag eins og okkar að setja fram slíka tillögu en þau stóru og var tillagan unnin í samvinnu við framkvæmdastjóra WMA. Þetta verður núna til umfjöllunar í vinnuhópi sem verið er að skipa.

Annað mál sem íslenskum læknum gæti þótt athyglisvert er endurskoðun álits um gagnagrunna á heilbrigðissviði en þetta mál komst í upphafi á dagskrá WMA í kjölfar umræðunnar hér á landi um hinn miðlæga gagnagrunn á heilbrigðissviði. Ég er formaður vinnuhóps um efnið og er núna að boða til fundar hér í Reykjavík í mars næstkomandi þar sem einnig verður boðið sérfræðingum á þessu sviði. Upphaflega álitið var samþykkt árið 2002 en hefur haft fremur lítil áhrif. Núna er meiningin að gera meira úr málinu og einnig hefur verið ákveðið að fjalla samtímis um lífssýnabanka.

Á aðalfundinum tók við nýr forseti, Margaret Mungherera frá Úganda, og er hún fyrsta svarta konan sem gegnir þessu embætti. Hún hefur á dagskrá sinni að vinna að heilbrigðismálum og málefnum lækna í Afríku og einnig að jöfnuði kynjanna í læknastétt.

Árið 2018 verður Læknafélag Íslands 100 ára. Væri ekki við hæfi að aðalfundur WMA verði haldinn hér á landi það ár? Það hefur aldrei verið gert áður, en Læknafélagið er þó eitt af 27 stofnaðilum árið 1947 en aðilar að WMA eru í dag 106.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica