11. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Stutt, lipur, gagnsæ og auðskiljanleg! Íðorð úr læknisfræði

Íðorð úr læknisfræði

„Formleg afskipti mín af Íðorðasafni lækna hófust eftir að ég skrifaði ritdóm í Fréttabréf lækna árið 1989 um Íðorðasafnið, sem komið hafði út nokkrum árum fyrr og vakið, að mér fannst og óverðskuldað, alltof litla athygli,“ segir Jóhann Heiðar Jóhannsson, meinafræðingur og íðorðasmiður, en hann hefur um nær þriggja áratuga skeið helgað mikið af sínum frítíma orðasmíð, orðasöfnun og orðskýringum í íslenskri læknisfræði.


„Möguleikar sjúklingsins til að skilja boðskap læknisins hljóta að vera meiri ef notuð eru íslensk
orð og orðstofnar,” segir Jóhann Heiðar Jóhannsson meinafræðingur og íðorðasmiður.

Orðanefnd Læknafélags Íslands hafði þá verið að störfum frá árinu 1983 undir stjórn Arnar Bjarnasonar og Jóhann Heiðar segir að birting umsagnar sinnar um Íðorðasafnið hafi orðið til að þess að Örn, sem þá var ritstjóri Læknablaðsins, fékk hann til að taka sæti í nefndinni. „Ég hef verið í þessu síðan,” segir Jóhann Heiðar, sem síðar tók við formennsku í orðanefndinni þegar Örn dró sig í hlé frá því starfi.

„Í framhaldi af birtingu þessarar greinar minnar stakk Örn síðan upp á því að ég skrifaði formlega pistla í Fréttabréf lækna um nýyrði og þýðingar og þegar Fréttabréfið var lagt niður 1994 færðust pistlarnir yfir í Læknablaðið og birtust þar í hverju tölublaði til ársins 2008 er ritstjórn blaðsins ákvað óvænt að hætta birtingu þeirra. Það voru heilmikil vonbrigði fyrir íðorðastarfsemina og mig persónulega og blaðinu til skammar,” segir Jóhann Heiðar en vill að öðru leyti ekki ræða það mál frekar. Pistlar hans hafa síðan birst í Lyfjatíðindum og eiga sér þar dygga lesendur.

Orðanefnd Læknafélags Íslands vann gríðarlega mikið og gott starf og gefin voru út á hennar vegum þrjú ítarleg orðasöfn á íslensku í fósturfræði, líffærafræði og vefjafræði. „Það má segja að starfslotunni hafi lokið 1996 með þýðingu og útgáfu ICD 10 (alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála) sem var mikið verk,” segir Jóhann Heiðar, en að þessum þýðingum unnu fyrst og fremst Magnús Snædal málfræðingur sem ritstjóri, Örn Bjarnason og Jóhann Heiðar.

Byggir á traustum grunni

Áhugi framámanna íslenskrar læknisfræði um þýðingar og nýyrðasmíð á íslensku nær sennilega jafn langt aftur og saga íslenskrar læknisfræði. Sú saga verður ekki rakin hér en nefna verður þó brautryðjandastarf  Guðmundar Hannessonar, en eftir hann liggja tvö orðasöfn: Alþjóðleg og íslensk líffæraheiti (1936-37) og Íslensk læknisfræðiheiti (1956), sem Jón Steffensen annaðist útgáfu á að Guðmundi látnum. Ýmsir fleiri hafa lagt hönd á þennan plóg og verður líklega á engan hallað þó Örn Bjarnason sé einnig nefndur til sögunnar sem einstakur dugnaðarforkur og framkvæmdamaður.

Orðanefnd Læknafélags Íslands hefur að segja má verið í dróma undanfarinn áratug en var endurvakin veturinn 2012 undir formennsku Jóhanns Heiðars og segir hann það vel viðeigandi þar sem nú eru 30 ár frá stofnun hennar og hefur stundum verið gert meira veður af minna tilefni.

Jóhann Heiðar hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að minnka við sig vinnu á Landspítalanum um 20% og situr þess í stað tvo hálfa daga í viku á skrifstofu í húsnæði málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við Neshaga og endurskoðar orðasafn íslenskrar læknisfræði. „Þetta er frábær aðstaða sem ég hef fengið hér með góðum  stuðningi Læknafélagsins sem lagði mér til tölvu og nýjar læknisfræðilegar orðabækur á skrifstofuna. Ég nýt þess einnig að vera hér í nánum tengslum við starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar sem eru flestum öðrum fróðari um íslenskt mál og málfræði,” segir hann og er greinilega hæstánægður með fyrirkomulagið. „Í orðanefndinni eru nú einnig læknarnir Eyjólfur Þ. Haraldsson og Magnús Jóhannsson, en gott væri að fá fleiri í hópinn.

Læknisfræðin er lifandi fræðigrein og alltaf bætast við orð, hugtök, ný tækni og ný þekking sem kallar á þýðingar og nýyrðasmíð. Það hefur alltaf verið hugsjón okkar að við eigum að nota íslensk heiti eftir fremsta megni,” segir Jóhann Heiðar aðspurður um framtíðarsýn. „Ég hef litið á pistlana mína sem vettvang til að halda umræðunni lifandi og fá efni og athugasemdir frá þeim sem lesa til að geta haldið íðorðasafninu lifandi og tekið inn ný orð eftir föngum.”

Söfnun og útgáfa íðorðasafnsins fylgir að sögn Jóhanns Heiðars hefðbundnum aðferðum við orðabókarútgáfu. „Grunnurinn sem við byggðum á eru orðasöfn Guðmundar Hannessonar sem voru endurútgefin með nokkrum viðbótum og voru helstu handbækur lækna og læknanema um árabil. Þá höfðu ritstjórar Læknablaðsins lagt áherslu á íslenskar þýðingar fræðiheita í texta blaðsins og þannig bættist verulega í sarpinn. Það var því til heilmikill fjársjóður íslenskra heita þegar skipulögð söfnun var sett í gang af orðanefndinni á sínum tíma.

Hvað einstakar greinar læknisfræðinnar varðar þá er mjög jafnt á komið með íðorðasöfn innan þeirra og munurinn er fremur fólginn í því hversu mikinn áhuga forystumenn einstakra sérgreina hafa á íðorðasöfnun og þýðingum fræðiheita á hverjum tíma. Það má því segja að sumar sérgreinar standi betur en aðrar hvað notkun íslenskra heita varðar. “

Það hefur fylgt íslenskri læknisfræði að læknanemar þurfa að læra fræðiheiti á þremur tungumálum, latínu, íslensku og svo gjarnan ensku eða því tungumáli sem talað er þar sem sérnámið er stundað. „Þetta veldur stundum ruglingi en undirstrikar enn frekar mikilvægi þess að eiga góð íslensk heiti sem allir skilja og nota. Læknablaðið hefur gegnt ákveðnu forystuhlutverki í þessu efni með því að leggja áherslu á að nota íslensk heiti í öllum texta sem birtist í blaðinu. Því er oft haldið fram að eldri kynslóð lækna hafi meiri áhuga á íslenskun fræðiheitanna en ég get ekki tekið undir það af eigin reynslu. Ég hef um langt skeið gegnt óformlegu ráðgjafahlutverki um íslensk læknisfræðiheiti og alls kyns stofnanir og einstaklingar sem stunda þýðingar og ritstörf, eða kennslu og nám, hafa leitað til mín um aðstoð við myndun nýrra heita. Ég finn ekki annað en meðal þeirra séu læknar úr öllum aldurshópum.“

Þú ferð náttúrulega í máladeild!

Jóhann Heiðar segist hafa haft áhuga á íslensku máli allt frá barnæsku. „Faðir minn var skólastjóri í gagnfræðaskóla og ég ólst upp við mikla umræðu um íslenskt mál og þjóðfræði af ýmsu tagi. Ég naut þess mjög í menntaskóla að hafa frábæra kennara í íslensku og tungumálum og þar var lagður traustur grunnur að þeirri sannfæringu minni að þýðingar úr erlendum tungumálum verði að vera á góðu íslensku máli. Það var ekki síst Friðrik Þorvaldsson þýsku- og frönskukennari í MA sem opnaði augu mín fyrir mikilvægi þess að skila innihaldi erlenda textans á réttan hátt yfir á íslensku, fremur en þýða einstök orð af smámunalegri nákvæmni.

Það kom samt algerlega flatt upp á mig þegar Þórarinn Björnsson skólameistari, sem lét okkur velja á milli stærðfræðideildar og máladeildar að loknum 4. bekk í MA, sagði við mig: „Þú ferð náttúrulega í máladeild.” Ég hafði mestan áhuga á náttúruvísindum og taldi mig hinn dæmigerða stærðfræðideildarstúdent, en hann hafði komið auga á að ég væri með betri einkunnir í tungumálum eftir fyrsta veturinn í skólanum. Svo var það ekki fyrr en að ég tók að mér að skrifa pistlana í Læknablaðið að þessi tungumálaáhugi kviknaði fyrir alvöru og blómstraði. Ég sá reyndar eftir á að ég hafði alltaf lagt áherslu á gott íslenskt mál við kennslu mína í háskólanum og gætt vel að málfari í því kennsluefni sem ég tók saman fyrir nemendur. Ég vildi líka að málnotkunin væri samkvæm sjálfri sér, annaðhvort væru notuð ensk heiti á réttan hátt eða íslensk, ekki slettur.“

Því hefur löngum verið haldið fram að Íslendingar skeri sig úr hvað þýðingar og nýyrðasmíð varðar og aðrar þjóðir taki meira og minna gagnrýnislaust upp ensk fræði- og fagorð. Jóhann Heiðar segir þetta ekki alls kostar rétt og mikið starf fari nú fram meðal nágrannaþjóðanna í þessu efni. „Það er rétt að í sumum tungumálum er tekið meira upp af alþjóðlegum heitum en við gerum, en það er engu að síður tilhneiging í þá átt að varðveita tungumálið og nota eigin orð ef þau eru til staðar. Ég sat í fyrra ráðstefnu fulltrúa orðabanka og orðabóka víða að úr Evrópu og það er verið að leggja fram mikla vinnu á þessu sviði víðar en hjá okkur. En það má gjarnan koma fram að við vorum langt á undan hinum Norðurlandaþjóðunum með útgáfu íðorðasafns lækna á eigin tungumáli.”

Jóhann Heiðar segir engan vafa leika á – í sínum huga – mikilvægi þess að eiga þjál og gagnsæ íslensk orð um flest það er læknisfræðin fæst við. „Læknarnir kæmust eflaust af án þess í samskiptum sínum innbyrðis, en ef engin væru íslensku orðin myndu þeir einnig nota erlend fræðiheiti í samskiptum sínum við sjúklinga og þá skapast vandi. Ég heyri reyndar stundum kvartað undan því að læknar tali óskiljanlegt „læknamál” við sjúklinga sína og gæti sagt ýmsar sögur, misskondnar, af slíku. Þá komum við reyndar að máli sem talsvert er í umræðunni í dag og snýst um hvort flytja eigi hingað erlenda lækna til starfa í íslenska heilbrigðiskerfinu og hvort gera eigi til þeirra þá kröfu að þeir tali íslensku. Mér finnst algjörlega fráleitt að svo viðkvæm samskipti sem snúast um líðan sjúklings, hugsanlega alvarleg veikindi og erfiða meðferð, fari fram á tungumáli sem jafnvel hvorugur hefur full tök á. Það er verulegt áhyggjuefni og engin spurning í mínum huga að slík samskipti eigi að fara fram á íslensku, eða móðurmáli sjúklingsins. Möguleikar sjúklingsins til að skilja boðskap læknisins hljóta að vera meiri ef notuð eru íslensk orð og orðstofnar. Dæmi er hið fallega og gagnsæja orð „ofnæmi”. Þetta er orð sem allir skilja þó ofnæmissjúkdómar séu bæði fjölmargir, flóknir og ekki auðskiljanlegir. Orðið nær engu að síður vel utan um grunnmerkinguna. Önnur orð verður fólk einfaldlega að læra eins og til dæmis krabbamein eða æxli. Annað er nýyrði en hitt er gamalt orð sem fengið hefur nýtt hlutverk, einsog svo mörg önnur gömul og góð íslensk orð.“

Í Orðabankanum er íslenska læknisfræðiorðasafnið geymt, um 35.000 orð, og er langstærsta fag- og fræðiorðasafnið sem þar er inni að sögn Jóhanns Heiðars.  „Ég hef átt mér þann draum lengi að endurskoða safnið en þar er talsvert af þýðingum sem mættu betur fara. Sum orðanna eru löng og flókin og hugsanlega mætti finna betri lausn á þýðingum þeirra. Við megum þó ekki gleyma því að oft eru orðin löng og flókin á erlenda málinu en kröfur okkar til einfaldleika og gagnsæis íslenskunnar eru samt mjög miklar. Við viljum helst að íslensku heitin séu stutt, lipur, gagnsæ og auðskiljanleg. Ég var búinn að gera nokkrar tilraunir til að hefja þessa endurskoðun án þess að það tækist, svo haustið 2010 tók ég mér þriggja mánaða frí frá vinnu til að gera lokatilraun til að hrinda þessu úr vör. Ég vann að þessu hér í húsnæði Stofnunar Árna Magnússonar í þrjá mánuði og fannst þetta þá loks vera að takast. Í framhaldi af því ræddi ég við formann Læknafélagsins um að endurvekja orðanefndina og það má segja að það sé sagan á bakvið veru mína hér á þessari skrifstofu.”

Umfangsmikil endurskoðun íðorðasafnsins

Endurskoðun íðorðasafnsins felst meðal annars í því, að sögn Jóhanns, að auka notkunarmöguleika þess og nýta sér möguleika nútíma tölvuleitar betur. „Orðasafnið er að nokkru leyti barn síns tíma og það þrengir alla möguleika þess að ekki er auðvelt að leita í því út frá orðstofnum, viðskeytum og forskeytum. Það er þó ekki sett upp í stafrófsröð eins og prentaða útgáfan var á sínum tíma. Leita má að hvaða íslensku, ensku eða latnesku orði sem er. Þetta er alltof stórt safn til að hægt sé með fjárhagslegu öryggi að gefa það út í heild sinni á prenti og því er mikilvægt að gera það sem aðgengilegast á vefnum.“

Auk þessa stóra verkefnis sem heildarendurskoðun orðasafnsins felur í sér, hefur Jóhann í sumar ásamt orðanefndinni unnið að nýju orðasafni um stoðkerfi líkamans sem nú hillir undir útgáfu á. Þetta er ætlað fyrir kennslu í líffærafræði og draumurinn er að gefa út fleiri hefti af sama tagi eftir því sem tilefni eru til.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar er ekki tengdur stóru leitarvélunum á netinu eins og Google og Yahoo og stafar það að sögn Jóhanns Heiðars af því að forritið sem geymir orðabankann er ekki talið ráða við þá umferð sem tenging við stóru leitarvélarnar myndi skapa.

„Það er auðvitað framtíðarverkefni að koma þessu í nútímalegra horf og tengja orðabankann við þau tæki og tól sem fólk er að nota í daglegu lífi sínu í dag. Ég vildi gjarnan sjá þetta efni aðgengilegt í gegnum snjallsíma og spjaldtölvur en það er ekki sjálfstætt verkefni okkar hjá orðanefnd Læknafélagsins, heldur verður málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að hafa forgöngu um það.” Þetta vefsvæði byggir á Eplica