10. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Aldursákvæði nýrra heilbrigðislaga, löggjöf á villigötum. Sigurður E. Þorvaldsson

Ný lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/20121tóku gildi 1. janúar 2013.

26. grein laganna hljóðar svo:

Aldursmörk.

Heilbrigðisstarfsmanni samkvæmt lögum þessum er óheimilt að reka eigin starfstofu eftir að hann nær 70 ára aldri. Landlækni er þó heimilt, að fenginni umsókn viðkomandi, að framlengja leyfi til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar.

Þessi grein hinna nýju heilbrigðislaga skerðir mjög starfsmöguleika eldri lækna og rýrir margrómaðan mannauð íslensku heilbrigðisþjónustunnar sem á mjög undir högg að sækja um þessar mundir eins og nýleg ummæli nokkurra framámanna í læknastétt bera vott um: „Á undanförnum árum hefur starfandi læknum á Íslandi  fækkað um 12%.“2,  „…það er ekki hægt að skera meira niður, það þarf að fara að byggja upp kerfið að nýju.”3, „…hafa 208 læknar skráð sig úr Læknafélaginu á síðustu þremur árum en aðeins 71 skráð sig í félagið.“4, „Hrörnun mannauðs er langtíma fyrirbæri.“5  

Sá mannauður og reynsla sem tapast við aldursákvæði 26. greinar nýrra heilbrigðislaga verður ekki bætt með 11. grein laganna  þar sem fjórða árs nemum í læknisfræði er gefið leyfi til að  starfa sem læknar þó undir eftirliti eigi að heita. Slíkt er mikil þversögn.

Af hverju 76 ár?

Fyrir því eru ekki færð nein rök. Opinberir starfsmenn verða raunar að hætta 70 ára en hér er um að ræða sjálfstætt starfandi menn með eigin starfstöð.

Sé landlækni ætlað að meta færni sjötugra lækna í þrígang ætti hann eins að geta það áfram um óákveðinn tíma. Það er ekki þekkt náttúrulögmál að læknar glati að fullu líkamlegri og andlegri færni sinni við 76 ára aldur.

Þessi lagagrein er ekki í takti við reglur í löndum sem við gjarnan miðum okkur við:

Á netsíðu Sundhedsstyrelsen í Danmörku6segir:

Sundhedsstyrelsen kan efter ansøgning give tilladelse til, at en autoriseret sundhedsperson kan fortsætte sin selvstændige faglige virksomhed helt eller delvist efter de fyldte 75 år.

Þetta eru í raun þær reglur sem voru í eldri læknalögum á Íslandi.

Á netsíðu norska læknafélagsins7segir:

Når autorisasjonen bortfaller ved fylte 75 år, kan legen søke om lisens for å utøve legevirksomhet. Lisens gis etter en konkret vurdering og normalt for to år av gangen. Leger som har fylt 80 år, kan få slik lisens for inntil ett år av gangen. Søknad om lisens sendes til og behandles av Statens autorisasjonskontor for helsepersonell (SAFH).

Formaður félags eldri lækna í Noregi (ELF) segir í tölvupósti :

Félag eldri lækna  í Noregi ásamt norska læknafélaginu vinna að því að fá þessa grein fellda úr norsku heilbrigðislögunum því hér sé eingöngu mismunað vegna aldurs.8

Frá Svíþjóð fengust þær upplýsingar hjá lagadeild sænska læknafélagsins að í Svíþjóð  væru engin aldursákvæði varðandi sjálfstætt starfandi lækna.9  Í Bretlandi10 og Þýskalandi11 eru engin aldursákvæði varðandi sjálfstætt starfandi lækna. Það er því ljóst að í fimm löndum sem við oft kjósum að bera okkur saman við, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Þýskalandi, eru í raun engin aldurstakmörk fyrir sjálfstætt starfandi lækna.

Lítt rætt á Alþingi

Á vef Alþingis má lesa umræður í velferðarnefnd um setningu heilbrigðislaga.1

Umræða í velferðarnefnd um 26. grein, þ.e. aldurstakmörk, virðist hafa verið harla lítil.

Þó er þar að finna álit Eyglóar Harðardóttur núverandi félagsmálaráðherra og Sivjar Friðleifsdóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra 2006-2007.

Úr áliti Eyglóar:

Nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn: […] 3. minni hluti telur mikilvægt að slíkar hömlur séu ekki settar á störf heilbrigðisstarfsmanna og leggur til að felld verði brott sú afmörkun að einungis sé heimilt að framlengja leyfið þrisvar. Í stað þess verði landlækni heimilt, að fenginni umsókn viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns, að framlengja leyfi til árs í senn …  

Úr áliti Sivjar:

Ég ætla að lokum að segja frá einni grein sem ég er ekki alveg sátt við. Það er 26. gr. um aldursmörk. […]  Ég hef miklar efasemdir um þetta ákvæði. […] Með nýja ákvæðinu er algjörlega tekið fyrir að heilbrigðisstarfsmaður geti rekið starfsstofu lengur en til 76 ára aldurs.[…]  
Ég ætla því að biðja hv. velferðarnefnd að skoða sérstaklega hvort ekki sé rétt að hafa þetta í höndum landlæknis áfram en setja ekki þetta snögga skilyrði um að eftir 76 ára aldur eigi fortakslaust að loka fyrir starfsemina þó að viðkomandi geti alveg unnið lengur.

Á vef Alþingis1 er að finna umsagnir frá Læknafélagi Íslands og læknaráði. Í þeim er ekki að finna athugasemdir varðandi umrædda 26. grein. Hins vegar er því mótmælt í báðum umsögnum að læknalögin frá 1988 með síðari breytingum verði felld úr gildi.

Það er ljóst að 26. grein hinna nýju laga um heilbrigðisstarfsmenn skerðir mjög réttindi þeirra til starfa og þar með í raun mannréttindi. Þetta á ekki aðeins við lækna þótt sérstaklega hafi verið um þá fjallað hér.

Lokaorð

Það er skoðun mín að leita ætti leiða til að leiðrétta þau mistök sem ég tel að hér hafi verið gerð. Til þess þarf að breyta lögunum. Ráðlegt kann að vera að fá álit Umboðsmanns Alþingis á málinu áður en því er ýtt frekar áleiðis. Þá mætti íhuga að leita úrlausnar fyrir dómstólum. Allt tæki þetta sinn tíma en þetta er hægt.

Heimildir

  1. Lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 (althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=140&mnr=147 )
  2. Jónsson S. Höfum við efni á að setja sjötuga lækna á eftirlaun? Læknablaðið 2013; 99: 363.
  3. Björn Zoëga í viðtali. Morgunblaðið, 3. ágúst 2013: 4.
  4. Þorbjörn Jónsson í viðtali. Morgunblaðið 3. ágúst 2013: 4.
  5. Stefánsson E, Guðmundsson S. Heilbrigðiskerfið molnar niður. Morgunblaðið 2. ágúst 2013:  23.
  6. sst.dk/Uddannelse20og20autorisation/Autorisationsregister/75_aars_reglen.aspx
  7. legeforeningen.no/Arbeidsliv-og-jus/Legens-ansvar/Retten-til-a-virke-som-lege/Autorisasjon-og-lisens-/
  8. Tölvupóstur frá formanni Félags eldri lækna í Noregi.
  9. Tölvupóstur frá Sveriges Läkarförbund.
  10. Svar við fyrirspurn til Keith Baggs. Dpt of Health U.K.
  11. BMJ 2009; 338: b97.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica