10. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Hrafn Sveinbjarnarson snýr aftur

Á langaföstu árið 1213 fór goðorðsmaðurinn og hrottinn Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur að Hrafni Sveinbjarnasyni lækni og höfðingja að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Þeirri viðureign lauk með hörmungum, Hrafn var hálshöggvinn, bú hans rænt og skáli brenndur. Hrafn var mikill mannkostamaður, góður læknir, glæsimenni og leiðtogi í ýmsum framfaramálum á Vestfjörðum. Samgöngur um Arnarfjörð voru til dæmis mun betri í tíð Hrafns en á okkar tímum.

Þann 24. ágúst síðastliðinn var efnt til ráðstefnu að Hrafnseyri til að minnast dauða Hrafns fyrir um 800 árum. En margt fer öðruvísi en ætlað er og slík svartaþoka grúfði yfir Vestfjörðum þennan dag að flestir fyrirlesarar og fjöldi áheyrenda voru veðurtepptir í Reykjavík.   Þetta gjörningaveður minnti reyndar á nóttina örlagaríku þegar Þorvaldur kom Hrafni á óvörum í skjóli þoku, illviðris og nætur. Á Hrafnseyri voru einungis Torfi Tulinius og hljómsveitin Diabolus in Medica með revíu sína um Hrafn. Góður rómur var gerður að þessum atriðum en að sjálfsögðu söknuðu menn þeirra fyrirlesara sem sátu á Reykjavíkurflugvelli, drukku vont kaffi og biðu eftir flugveðri sem aldrei kom.

Nú hefur Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri ákveðið að endurtaka hátíðina hér sunnan heiða, sjá auglýsingu á bls. 465.  

Það er full ástæða til að hvetja lækna og læknanema til að fjölmenna og heiðra minningu læknisins og brautryðjandans Hrafns Sveinbjarnarsonar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica