10. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Lögfræði 6. pistill. Skráningar- og tilkynningaskylda óvæntra atvika

Á dögunum var haldin ráðstefna á vegum landlæknisembættisins um heilbrigðiskerfið og öryggi sjúklinga. Í umfjöllun RÚV um ráðstefnuna var haft eftir fyrrum landlækni að einn af hverjum tíu sjúklingum sem leggjast inn á vestræn kennslusjúkrahús verði fyrir einhvers konar óhappi vegna meðhöndlunar, óhöppum sem jafnvel geti leitt til dauða. Miðað við íslenskt umhverfi, skipulag heilbrigðisþjónustu og menntun heilbrigðisstarfsmanna sé ekki við öðru að búast en að hið sama sé að gerast í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ef niðurstöður þessara erlendu rannsókna eru heimfærðar á íslenskan veruleika þýði það að 2500 sjúklingar verði á ári hverju fyrir einhvers konar óhöppum, af þeim verði 600 fyrir örkumlum vegna þeirra, og um það bil 170 deyi. Hægt væri að koma í veg fyrir um helming óhappanna (ruv.is/frett/10-verda-fyrir-ohappi-vegna-medhondlunar).

Upplýsingar sem þessar undirstrika mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsmenn, læknar sem aðrir, skrái allt sem fer úrskeiðis við meðferð. Í lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 eru lagaákvæði sem leggja bæði skráningarskyldu og tilkynningaskyldu á herðar heilbrigðisstarfsmönnum um óvænt atvik. Í skráningarskyldunni felst að öll óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu ber að skrá. Í tilkynningaskyldunni felst að óvænt atvik sem hafa valdið eða hefðu getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni skal tafarlaust tilkynna embætti landlæknis.

Um þessar skyldur er fjallað í 9. og 10. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 með síðari breytingum.

Í 9. gr. er fjallað um skráningarskyldu óvæntra atvika í heilbrigðisþjónustu og felur ákvæðið í sér skýra lagaskyldu gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum, sem hlut eiga að máli, faglegum yfirmönnum þeirra og öðru starfsfólki heilbrigðisstofnana, eftir því sem við á, til að skrá öll óvænt atvik. Lagaákvæðið skýrir óvænt atvik sem óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni. Tilgangur þessarar skráningar er að finna skýringar á óvæntum atvikum og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. Til viðbótar við skráningarskylduna ber heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu að halda skrá um óvænt atvik og senda landlækni reglulega yfirlit um öll óvænt atvik með þeim hætti sem embættið ákveður.

Í 10. gr. er fjallað um tilkynningaskyldu heilbrigðisstofnana, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu til landlæknis varðandi óvænt atvik sem valdið hafa eða hefðu getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum. Varðandi þessi atvik skal jafnframt upplýsa sjúkling um það án ástæðulausra tafa og nánustu aðstandendur hans þegar það á við. Embætti landlæknis skal rannsaka þessi mál til að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik gerist ekki aftur. Heilbrigðisstofnun og -starfsmenn skulu veita embættinu þær upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg við rannsókn þessara mála og embættið skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna í þágu rannsóknar. Við meðferð málsins ber embættinu meðal annars að meta hvort atvikið kalli á að heilbrigðisstarfsmanni/mönnum verði veitt áminning vegna þess.

Verði óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnun eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms, skal auk tilkynningar til embættis landlæknis tilkynna það til lögreglu í samræmi við ákvæði laga um dánarvottorð, krufningar og fleira nr. 61/1998.

Embætti landlæknis gaf út á sínum tíma dreifibréf nr. 2/2008 um atvikaskráningu og tilkynningaskyldu (landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/dreifibref/nanar/item14915/Dreifibref-nr--2/2008--Atvikaskraning-og-tilkynningaskylda). Þá hefur embættið útbúið tvenns konar eyðublöð vegna þessa. Annað eyðublaðið er vegna skráningar einstakra óvæntra atvika. Þar koma fram þau atriði sem embættið hefur ákveðið að skráð séu að lágmarki vegna óvæntra atvika. Þetta eyðublað ber heilbrigðisstarfsmanni að fylla út í hvert sinn sem sjúklingur verður fyrir óvæntu atviki í heilbrigðisþjónustu. Til viðbótar ber að senda það embætti landlæknis þegar atvikið hefur valdið eða hefði getað valdið sjúkingi alvarlegu tjóni. Hitt eyðublaðið er fyrir yfirlitin sem senda ber embættinu og hefur embættið ákveðið að þau skuli senda tvisvar á ári. Eyðublaðið ber með sér að atvikin sem embættið safnar upplýsingum um eru fall (bylta), atvik tengd læknismeðferð, hjúkrunarmeðferð, lyfjameðferð, svæfingu, rannsókn, umönnun, endurhæfingu, tækjabúnaði, eignatjóni, ofbeldi og sóttvörnum, þar með talin stunguóhöpp. Ef atvik er ekki unnt að fella undir neitt af þessum flokkum fer það í flokkinn „Annað“. Eyðublöðin eru aðgengileg á heimasíðu embættisins (landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item15324/Vidbrogd-vid-atvikum). Þau er hægt að fylla út rafrænt, en gert er ráð fyrir að þau séu prentuð út og undirrituð.

Á heimasíðu embættis landlæknis er fjallað um orsakir atvika og óvænts skaða á heilbrigðisstofnunum (landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item15290/Orsakir-ovaentra-atvika-og-ovaents-skada). Þar kemur meðal annars fram að rannsóknir á orsökum atvika sýni að óvæntan skaða megi rekja til þreytu heilbrigðisstarfsmanna, misskilnings í samskiptum, ófullnægjandi upplýsinga, ófullnægjandi sjúklingafræðslu, ófullnægjandi mönnunar, ófullnægjandi aðlögunar nýrra starfsmanna, ófullnægjandi tækjabúnaðar og skorts á verklagsreglum og vinnuleiðbeiningum.

Fréttir um sívaxandi álag á heilbrigðisstarfsmenn vekja áhyggjur um að tímaskortur þeirra verði til þess að skráningu óvæntra atvika sé ekki sinnt og að tilkynning um alvarleg óvænt atvik farist jafnvel fyrir. Vert er því að undirstrika og leggja áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir öryggi sjúklinga og bætt öryggi heilbrigðiskerfisins að heilbrigðisstarfsmenn sinni þessari skýru lagaskyldu sinni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica