10. tbl. 99.árg. 2013

Fræðigrein

Brátt andnauðarheilkenni (ARDS) á gjörgæsludeildum Landspítala 2004-2008

The incidence and mortality of ARDS at Landspítali - The National University Hospital of Iceland 2004-2008

doi: 10.17992/lbl.2013.10.512

Ágrip

Tilgangur: Að kanna nýgengi, orsakir, dánarhlutfall og öndunarvéla-meðferð sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni á gjörgæsludeildum Landspítala á fimm ára tímabili og bera saman við eldri íslenska rannsókn.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn þar sem farið var yfir allar innlagnir á gjörgæsludeildir Landspítala árin 2004-2008 og upplýsingum safnað um aldurs- og kynjadreifingu, orsakir, legutíma, gjörgæslumeðferð og afdrif þeirra sjúklinga sem féllu undir alþjóðlega skilgreiningu á bráðu andnauðarheilkenni. Niðurstöður voru bornar saman við niðurstöður eldri rannsóknar fyrir tímabilið 1988-1997 til að kanna hvort breytingar hafi orðið á nýgengi og horfum sjúklinga.

Niðurstöður: Alls lögðust 6413 sjúklingar inn á gjörgæsludeildir Landspítala á tímabilinu. Af 224 sjúklingum með alvarlega öndunarbilun reyndust 120 sjúklingar vera með brátt andnauðarheilkenni. Meðalaldur var 55 ár, 55% voru karlar og miðgildi legutíma á gjörgæsludeild var 13 dagar en miðgildi legutíma á sjúkrahúsi 24 dagar. Miðgildi daga frá áfalli að staðfestu bráðu andnauðarheilkenni var þrír dagar. Nýgengi reyndist vera 7,9 tilfelli á 100.000 íbúa/ári. Alls létust 36 sjúklingar vegna heilkennisins, eða 30% sjúklinga.

Ályktun: Nokkur aukning virðist hafa orðið á nýgengi bráðs andnauðarheilkennis en dánarhlutfall hefur hins vegar lækkað marktækt, eða úr 40% í 30%. Bættar horfur sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni má sennilega rekja til framfara í gjörgæslumeðferð, svo sem notkunar á lungnaverndandi öndunarvélameðferð, hátíðniöndunarvél, grúfulegu og hjarta- og lungnavél.

Inngangur

Brátt andnauðarheilkenni (BAH, Acute Respiratory Distress Syndrome, ARDS) er eitt af erfiðustu vandamálum sem fengist er við á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa. Heilkennið felur í sér bráða öndunarbilun með dreifðum íferðum í báðum lungum í kjölfar annars sjúkdóms, slyss eða skurðaðgerðar. Bráðu andnauðarheilkenni var fyrst lýst árið 1967 hjá hermönnum sem slösuðust alvarlega í Víetnamstríðinu.1 Ætla má að með framförum í læknisfræði og betri lifun alvarlega veikra eða slasaðra sjúklinga hafi læknar farið að fást við vandamál sem lítið voru þekkt áður líkt og BAH. Allt frá því heilkenninu var fyrst lýst árið 1967 hafa nýgengistölur verið mjög á reiki vegna mismunandi skilgreininga og hafa rannsóknir sýnt tíðnitölur á bilinu 4,5-75 tilfelli á 100 þúsund íbúa/ár.2,3 Það var því stórt framfaraskref þegar samkomulag náðist um alþjóðlega skilgreiningu á bráðu andnauðarheilkenni árið 1992, sem gerði fræðimönnum kleift að gera samræmdar rannsóknir á tíðni, orsökum og horfum sjúklinga.4Skilgreind voru hugtökin bráður lungnaáverki (ALI, acute lung injury) og brátt andnauðarheilkenni (ARDS, sjá töflu I). Dánarhlutfall hefur verið hátt og bentu fyrstu rannsóknir fyrir um 20 árum til þess að dánarhlutfall sjúklinga væri á bilinu 64-70%.5,6 Á undanförnum tveimur áratugum virðist dánarhlutfall þó hafa lækkað og er líklegast milli 30 og 40%.7-9 Þá sýndi íslensk rannsókn yfir tímabilið 1988-1997 að dánarhlutfall sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni á íslenskum gjörgæsludeildum var 40%.10 Bættar horfur sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni má sennilega rekja til framfara í öndunarvélameðferð svo og framfara í gjörgæslulækningum almennt. Rannsóknir hafa sýnt að ef stuðst er við svokallaða lungnaverndandi meðferð í öndunarvél þar sem andrýmd er haldið lágri og þrýstingsaukning í loftvegi takmörkuð er dánarhlutfall sjúklinga lægra.11-13Sjúklingar með alvarlegt brátt andnauðarheilkenni sem svara ekki hefðbundinni öndunarvélameðferð eru í meira mæli settir í hátíðniöndunarvél (HFOV, high frequency oscillatory ventilation), í grúfulegu (prone position) eða tengdir við hjarta- og lungnavél (ECMO, extracorporeal membrane oxygenation) sem lokaúrræði.

Þrátt fyrir alþjóðlega skilgreiningu á bráðu andnauðarheilkenni hafa verið birtar mismunandi niðurstöður um nýgengi og dánarhlutfall milli landa sem ef til vill má rekja til ólíkra þjóðfélagsaðstæðna og heilbrigðiskerfa og því er erfitt að heimfæra slíkar niðurstöður til Íslands. Markmið þessarar rannsóknar var því að kanna orsakir, öndunarvélameðferð, nýgengi og dánarhlutfall sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni  á gjörgæsludeildum Landspítala á árunum 2004-2008 og bera saman við sambærilega eldri rannsókn sem framkvæmd var yfir tímabilið 1988-1997. Niðurstöður gætu gefið vísbendingu um hvort nýgengi hafi breyst og hvort framfarir í gjörgæslumeðferð hafi skilað sér í bættum horfum sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni hér á landi.  

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var afturskyggn og náði til gjörgæsludeilda Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut tímabilið 2004-2008. Báðar deildirnar sinna almennum gjörgæslulækningum en með nokkurri sérhæfingu þó. Gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut sinnir einkum sjúklingum frá brjóstholsskurðlækningadeild, almennri skurðlækningadeild, kvennadeild, hjartadeild, krabbameinslækningadeild, barnadeild og meltingar- og nýrnadeild. Gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi sinnir aðallega sjúklingum frá heila- og taugaskurðdeild, æðaskurðdeild, bæklunarskurðdeild, taugalækningadeild, smitsjúkdómadeild, lungnadeild og sjúklingum með fjöláverka. Að auki er rekin gjörgæsludeild á Fjórðungssjúkrahúsinu Akureyri en að mati lækna þeirrar deildar hafði ekki verið um nein tilfelli af bráðu andnauðarheilkenni að ræða þar á rannsóknartímabilinu og var því ekki farið yfir innlagnir sjúklinga þar.  

Að fengnu samþykki vísindasiðanefndar Landspítala, Persónuverndar og  framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala var farið yfir gjörgæsluskýrslur og sjúkdómsgreiningar allra sjúklinga sem lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítala á tímabilinu. Sjúkraskýrslur sjúklinga sem höfðu átt við alvarlega öndunarbilun að stríða voru skoðaðar sérstaklega og kannað hvort ástand þeirra gæti fallið undir alþjóðlega skilgreiningu á bráðu andnauðarheilkenni: hefðu bráðan öndunarfærasjúkdóm, dreifðar íferðir í báðum lungum á röntgenmynd eða tölvusneiðmynd, hlutfall súrefnisstyrks í blóði á móti innönduðu súrefnishlutfalli (PaO2/FiO2) lægra en 200 og fleygþrýsting í lungnaslagæð (PCWP) lægri en 18 eða engin klínísk merki um hjartabilun. Sjúklingar voru útilokaðir ef einhverjum þessara skilyrða var ekki fullnægt.

Reiknað var lungnaáverkastig fyrir alla sjúklingana samkvæmt lungnaáverkakvarða Murray‘s (Lung Injury Scale, LIS)14 en samkvæmt honum eru gefin stig fyrir PaO2/FiO2hlutfall, PEEP-stillingu á öndunarvél og hversu útbreiddar íferðir í lungum eru á lungnamynd. Sérfræðingur í mynd- og geislagreiningu fór yfir lungnamyndir allra sjúklinganna og mat hvort þeir væru með brátt andnauðarheilkenni og hversu útbreiddar breytingar voru á lungnamynd samkvæmt lungnaáverkakvarða (LIS), mynd 1.14

Safnað var upplýsingum um aldur, kyn, orsök, tíma frá áfalli að staðfestu heilkenni, legutíma á gjörgæsludeild, legutíma á sjúkrahúsi og afdrif sjúklinga. Skráð var notkun öndunarvéla, tímalengd þeirrar meðferðar, stillingar, PaO2/FiO2 hlutfall og hvort notuð var sérhæfð meðferð, svo sem hátíðniöndunarvél, grúfulega eða hjarta- og lungnavél (ECMO). Varðandi tíma frá áfalli að staðfestu heilkenni var stuðst við þann dag er gildi samræmdust skilgreiningu á bráðu andnauðarheilkenni (PaO2/FiO2hlutfall, ástand lungna samkvæmt lungnamynd). Ástand allra sjúklinga við innlögn var metið með APACHE II stigunarkerfi en samkvæmt því eru gefin stig fyrir ástand sjúklinga fyrsta sólarhring dvalar á gjörgæsludeild, aldur, niðurstöður blóðmælinga og fyrri sjúkdóma.

Úrvinnsla fór fram með Excel töflureikni (Microsoft Corporation, Redmond, Washington) og tölfræðiforritinu IBM SPSS Statistics. Reiknuð voru miðgildi eða meðaltöl með staðalfrávikum og reiknað p-gildi með Wilcoxon rank test eða Students t-test. Upplýsingar um mannfjölda á Íslandi voru fengnar frá Hagstofu Íslands og þannig reiknað nýgengi heilkennisins á hverja 100.000 íbúa.

Niðurstöður

Á tímabilinu 2004-2008 voru alls 6413 sjúklingar lagðir inn á gjörgæsludeildir Landspítala, 3140 á Hringbraut og 3273 í Fossvogi. Karlar voru 60%, meðalaldur var 58 ár, dánarhlutfall var 7,5% og um helmingur innlagðra þurfti meðferð í öndunarvél. Við nánari athugun reyndust 224 sjúklingar hafa alvarlega öndunarbilun og af þeim reyndust 120 sjúklingar falla undir alþjóðlega skilgreiningu á bráðu andnauðarheilkenni, 54 konur og 66 karlar. Alls greindust 83 sjúklingar á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi en 37 á Landspítalanum við Hringbraut. Yfir allt tímabilið greindust því að meðaltali 24 sjúklingar með brátt andnauðarheilkenni á ári, eða 7,9 sjúklingar á hverja 100.000 íbúa/ári. Meðalaldur sjúklinga var 55 ár (±18,6). Tafla I sýnir samanburð á tíðni, dánarhlutfalli, aldri og APACHE II stigun á milli ára.

Alls létust 36 sjúklingar á gjörgæsludeildum Landspítalans af völdum þessa heilkennis, eða 30%. Ef taldir eru með sjúklingar sem létust innan 30 daga frá útskrift af gjörgæsludeild var dánarhlutfall 37,5% (45 sjúklingar) en 39,2% ef miðað er við 90 daga frá útskrift af gjörgæsludeild (47 sjúklingar). Þeir sem létust höfðu marktækt hærra APACHE II stig, lægra PaO2/FiO2 hlutfall og voru einnig marktækt eldri (sjá töflu II). Ekki var marktækur munur á fjölda daga í öndunarvél og legutíma á gjörgæsludeild hjá þeim sem létust og þeim sem lifðu. Miðgildi legutíma á gjörgæsludeild var 13 dagar (1-71 dagar) og miðgildi legutíma á sjúkrahúsi var 24 dagar (3-186 dagar). Alls voru 111 sjúklingar barkaþræddir og meðhöndlaðir í öndunarvél en 9 sjúklingar þurftu einungis öndunaraðstoð með ytri öndunarvél. Miðgildi daga í öndunarvél var 10 dagar (1-64 dagar). Í öllum tilfellum nema einu var stuðst við þrýstingsstýrða öndunarvélameðferð.  Notuð var hátíðniöndunarvél  (high frequency oscillatory ventilation) í 16 tilfellum og var dánarhlutfall hjá þeim sjúklingum 44%. Grúfulega í 6-16 klukkustundir var notuð í 8 tilfellum og var dánarhlutfall 75%. Í fjórum tilfellum þurfti að nota hjarta- og lungnavél (ECMO) þar sem hefðbundin öndunarvélameðferð eða hátíðniöndunarvél dugðu ekki til og var dánarhlutfall þeirra sjúklinga 50%. Tafla III sýnir yfirlit um öndunarvélameðferð.

Miðgildi daga frá áfalli að staðfestu bráðu andnauðarheilkenni var þrír dagar (1-12 dagar). Heilkennið var komið fram hjá 44% sjúklinga innan tveggja daga en hjá 78% sjúklinga innan fjögurra daga. Dánarhlutfall var hæst ef heilkennið kom fram á áttunda degi eða síðar (57%), mynd 2.

Orsakir bráðs andnauðarheilkennis eru sýndar í töflu IV. Algengustu orsakir reyndust vera lungnabólga, sýklasótt og -ásvelging. Dánartíðni var mismunandi eftir orsökum. Orsakir voru flokkaðir eftir því hvort þær voru innan lungna eða utan og var skipting nokkuð jöfn þar sem í 56 tilfellum mátti rekja orsökina til áfalls innan lungna en í 64 tilfellum utan lungna. Ekki var marktækur munur á dánarhlutfalli þessara hópa.

Fyrir alla sjúklinga var reiknað lungnaáverkastig (LIS)14 samkvæmt PEEP-stillingu á öndunarvél, PaO2/FiO2 hlutfalli og útbreiðslu íferða í lungum á lungnamynd. Meðaltal lungnaáverkastiga var 3,1. Samkvæmt lungnaáverkakvarða Murray‘s er um brátt andnauðarheilkenni að ræða ef lungnaáverkastig er >2,5 en 13 sjúklingar reyndust  vera með lægra stig en 2,5 og lægsta gildið var 2,0. Lungnaáverkastig þeirra sem létust var 3,3 (±0,36) að meðaltali en 3,0 (±0,47) hjá þeim sem lifðu af, munurinn reyndist  tölfræðilega marktækur (p<0,01).

Umræða

Brátt andnauðarheilkenni er alvarlegur sjúkdómur sem leggst á unga sem aldna og er meðferð umfangsmikil og krefjandi. Langflestir sjúklingar þurfa meðferð í öndunarvél og dvelja tvær til þrjár vikur á gjörgæsludeild og heildarsjúkrahúsvist er að meðaltali 33 dagar, þannig að meðferðin er kostnaðarsöm. Þessi rannsókn er önnur athugun á bráðu andnauðarheilkenni á Íslandi en sambærileg rannsókn var gerð fyrir tímabilið 1988-1997 og voru þær niðurstöður hafðar til hliðsjónar.

Nýgengi

Samkvæmt niðurstöðum eldri rannsóknarinnar var nýgengi 5,9 tilfelli/100.000 íbúa/ári10 en hefur samkvæmt þessari rannsókn aukist í 7,9 tilfelli/100.000 íbúa/ár og er munurinn tölfræðilega marktækur (p=0,019). Í eldri rannsókninni voru teknir með sjúklingar á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og voru þeir um 5% af heildarfjölda. Í viðræðum við lækna þeirrar deildar kom fram að ekki höfðu greinst tilfelli þar á rannsóknartímabilinu 2004-2008 og var því ekki farið yfir innlagnir þar. Þetta má telja   galla þar sem hugsanlega hefði verið hægt að greina einhverja sjúklinga með nánari athugun. Hins vegar er um fremur lítinn fjölda sjúklinga að ræða og þrátt fyrir að einungis sé farið yfir sjúklinga Landspítalans hefur orðið marktæk fjölgun tilfella. Nýlegar rannsóknir erlendis frá gefa hins vegar vísbendingu um að tíðni sé jafnvel lækkandi síðastliðin ár.15 Ekki er ljóst af hverju nýgengi hefur aukist hér á landi, við greiningu tilfella var stuðst við sömu aðferð í báðum rannsóknum. Tíðnitölur hafa verið misjafnar síðan heilkenninu var fyrst lýst árið 1967, sennilega vegna breytilegra skilgreininga. Notast var við alþjóðlega AECC-skilgreiningu frá 1992 í þessari rannsókn sem og í eldri íslensku rannsókninni, og eru niðurstöður því bornar saman við niðurstöður nýlegra erlendra rannsókna, sem stuðst hafa við sömu skilgreiningu. Samkvæmt niðurstöðum skoskrar rannsóknar frá 1999 reyndist nýgengi þar vera 16 tilfelli á 100.000 íbúa/ári.16  Niðurstöður bandarískrar rannsóknar bentu til þess að nýgengi væri 58,7 tilfelli á 100.000 íbúa/ári.7 Í samnorrænni rannsókn sem náði meðal annars til Íslands var kannað nýgengi framvirkt á fjögurra vikna tímabili árið 1999. Samkvæmt niðurstöðum þeirrar rannsóknar er nýgengi 13,5 tilfelli á 100.000 íbúa/ári, miðað við íbúafjölda 15 ára og eldri.17 Þessar niðurstöður benda til þess að nýgengi bráðs andnauðarheilkennis sé nokkru lægra hér á landi, þrátt fyrir aukningu frá árunum 1988-1997.

Dánarhlutfall

Af þeim 120 sjúklingum sem féllu undir skilgreiningu á bráðu andnauðarheilkenni létust 36 (30%) á gjörgæsludeild. Dánarhlutfall hefur því lækkað marktækt frá árunum 1988-1997 þegar dánarhlutfallið var 40% (p<0,01). PaO2/FiO2 hlutfall og APACHE II stig þeirra sem létust voru marktækt lægri en þeirra sem lifðu og greinilegt að horfur versna með hækkandi APACHE II stigi og lágu PaO2/FiO2. Samanburður við niðurstöður eldri rannsóknar sýnir að á tímabilinu 2004-2008 höfðu sjúklingar marktækt hærra APACHE II stig (p=0,003). Þetta bendir til þess að ástand sjúklinganna sé alvarlegra en í fyrri rannsókn en þrátt fyrir það er árangur meðferðar betri. PaO2/FiO2 hlutfall er hins vegar marktækt hærra, sem bendir til þess að annaðhvort sé ástand lungna almennt betra eða að bætt öndunarvélameðferð sé að skila sér í betri loftskiptum sjúklinga, sem hlýtur að teljast líklegri skýring. Ætla má að aukin reynsla starfsfólks, betri öndunarvélameðferð og betri stuðningsmeðferð almennt stuðli einnig að betri lifun sjúklinganna. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að dánarhlutfall sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni á gjörgæsludeildum á Íslandi sé ekki hátt miðað við niðurstöður erlendra rannsókna sem hafa sýnt um 30-50% dánarhlutfall.7,16,17 Árangur meðferðar virðist því vera nokkuð góður hér á landi og sambærilegur við niðurstöður erlendra rannsókna.

Orsakir

Orsakir fyrir bráðu andnauðarheilkenni eru fjölmargar og voru á þriðja tug samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Algengustu orsakir reyndust vera lungnabólga, sýklasótt og ásvelging en stórar aðgerðir og fjöláverkar voru líka algengar orsakir.

Líklegt er að þetta skýri mun á tíðni sjúkdómsins milli gjörgæsludeilda Landspítala.  Fleiri greindust á gjörgæsludeild í Fossvogi en vegna sérhæfingar koma fleiri sjúklingar þar til meðferðar til dæmis vegna vegna sýklasóttar og fjöláverka sem eru algengar orsakir bráðs andnauðarheilkennis. Á deildinni við Hringbraut eru fleiri sjúklingar með hjartabilun og kann það að vinna gegn greiningu heilkennisins þar sem greiningin er ekki sett ef til staðar eru klínísk teikn um hjartabilun. Talsverður  breytileiki er á dánartíðni milli einstakra orsaka og má þar nefna sem dæmi að dánartíðni sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni eftir kviðarholsaðgerðir var 20%, eftir fjöláverka 25% en 38% í kjölfar sýklasóttar (sjá töflu IV). Dánartíðni var mjög svipuð hvort sem orsökin var innan lungna eða utan og er það í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna.18

Meðferð

Meðferð á bráðu andnauðarheilkenni byggist aðallega á stuðningsmeðferð þar sem reynt er að koma sjúklingnum yfir hina alvarlegu öndunarbilun. Þar skiptir öndunarvélameðferð mestu máli en á þeirri meðferð hafa orðið töluverðar framfarir á seinni árum. Algengt var áður að hafa sjúklinga á rúmmálsstýrðri öndunarvélameðferð þar sem andrýmd var um 10-15ml/kg. Slíkt getur haft í för með sér skaða á lungnablöðrum vegna ofþenslu lungna (volutrauma). Niðurstöður erlendrar rannsóknar benda til þess að lungnaverndandi öndunarvélameðferð skipti miklu máli í meðferð sjúklinga með brátt andnauðarheilkenni.11  

Með þeirri meðferð er meðalloftvegaþrýstingi haldið undir 30 cm H2O, andrýmd er haldið um 6 ml/kg, beitt er hæfilegu PEEP (Positive End Expiratory Pressure) og reynt að halda styrk súrefnis í innöndunarlofti  undir 60%.  

Samkvæmt niðurstöðum eldri íslensku rannsóknarinnar var í byrjun tímabils stuðst við rúmmálsstýrða meðferð í öndunarvél en á síðari hluta tímabils meira notast við þrýstingsstýrða meðferð.10 Dánarhlutfall þeirra sem fengu rúmmálstýrða meðferð var hærra. Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar var í nær öllum tilfellum stuðst við þrýstingsstýrða meðferð en hún er í eðli sínu meira lungnaverndandi en rúmmálsstýrð, þar sem loftvegaþrýstingstakmörk eru stillt fyrirfram. Hugsanlega gæti þetta skýrt að hluta lækkun dánarhlutfalls milli rannsóknartímabila.

Ef ekki tekst að viðhalda viðunandi loftskiptum um lungu (SaO2 >85%; pH>7,20) með hefðbundinni öndunarvélameðferð með lungnaverndandi stillingum þarf að huga að öðrum leiðum til að styðja við starfsemi lungna.11,12 Þá er stundum beitt hátíðniöndunarvélum (high frequency oscillatory ventilation, HFOV) eða grúfulegu. Í erfiðustu tilfellum hafa sjúklingar verið tengdir við hjarta- og lungnavél (ECMO, extracorporeal membrane oxygenation) til að súrefnismetta blóðið utan líkamans og hvíla þannig lungun meðan bólga og bjúgur í lungum hjaðnar. Slík meðferð er ekki áhættulaus fyrir sjúklinginn auk þess sem hún er flókin og dýr. Því þarf að vanda vel valið á þeim sjúklingum sem gangast undir slíka meðferð og um það gilda ákveðnar verklagsreglur. Þær verklagsreglur sem gilda á Landspítala eru byggðar á niðurstöðum enskrar rannsóknar (CESAR) en samkvæmt henni næst ágætur árangur við ECMO-meðferð hjá völdum sjúklingum.19

Borið saman við niðurstöður eldri íslensku rannsóknarinnar var oftar notast við hátíðniöndunarvél (7,7% á móti 13,3%) og ECMO (0,6% á móti 3,3%) á síðara tímabilinu og gæti það skýrt að einhverju leyti bættar horfur sjúklinga.

Samantekt

Tíðni bráðs andnauðarheilkennis hefur heldur aukist borið saman við eldri íslenska rannsókn. Að meðaltali greinast um 24 sjúklingar á ári með heilkennið, sem kemur fram um tveimur til þremur dögum eftir áfall sem oftast er sýklasótt, lungnabólga, stór skurðaðgerð eða alvarlegt slys. Flestir sjúklingar þurfa öndunarvélameðferð og um tveggja vikna legu á gjörgæsludeild. Horfur sjúklinga hafa batnað, sem líklega má þakka framförum í gjörgæslumeðferð. Aukin áhersla er lögð á lungnaverndandi öndunarvélameðferð og í erfiðum tilfellum grúfulegu, hátíðniöndunarvél eða hjarta- og lungnavél.

Heimildir

  1. Ashbaugh DG, Bigelow DB, Petty TL, Levine BE. Ashbaugh DG, Bigelow DB,  Petty TL, Levine BE. Acute respiratory distress in adults. Lancet, Saturday 12 August 1967. Crit Care Resusc 2005; 7: 60-1.
  2. Webster NR, Cohen AT, Nunn JF. Adult respiratory distress syndrome--how many cases in the UK? Anaesthesia 1988; 43: 923-6.
  3. National Heart and Lung Institutes. Respiratory Diseases. Task force report on problems, research approaches, needs. Washington DC: US Goverment printing Office. DHEW publication 1972: 167-80.
  4. Bernard GR, Artigas A, Brigham KL, Carlet J, Falke K, et al. The American-European Consensus Conference on ARDS. Definitions, mechanisms, relevant outcomes, and clinical trial coordination. Am J Respir Crit Care Med 1994; 149: 818-24.
  5. Fowler AA, Hamman RF, Good JT, Benson KN, Baird M, Eberle DJ, et al. Adult respiratory distress syndrome: risk with common predispositions. Ann Intern Med 1983; 98: 593-7.
  6. Villar J, Slutsky AS. The incidence of the adult respiratory distress syndrome. Am Rev Respir Dis 1989; 140: 814-6.
  7. Rubenfeld GD, Caldwell E, Peabody E, Weaver J, Martin DP, Neff M, et al. Incidence and outcomes of acute lung injury. N Engl J Med 2005; 353: 1685-93.
  8. Milberg JA, Davis DR, Steinberg KP, Hudson LD. Improved survival of patients with acute respiratory distress syndrome (ARDS): 1983-1993. Jama 1995; 273: 306-9.
  9. Jardin F, Fellahi JL, Beauchet A, Vieillard-Baron A, Loubieres Y, Page B. Improved prognosis of acute respiratory distress syndrome 15 years on. Intensive Care Med 1999; 25: 936-41.
  10. Sigvaldason K, Þormar K, Bergmann JB, Reynisson K, Magnúsdóttir H, Stefánsson ÞS, et al. Brátt andnauðarheilkenni (ards) á gjörgæsludeildum á Íslandi 1988-1997. Læknablaðið 2006; 92: 201-7.
  11. Ventilation with lower tidal volumes as compared with traditional tidal volumes for acute lung injury and the acute respiratory distress syndrome. The Acute Respiratory Distress Syndrome Network. N Engl J Med 2000; 342: 1301-8.
  12. Verbrugge SJ, Lachmann B, Kesecioglu J. Lung protective ventilatory strategies to clinical application. Clin Physical Funct Imaging 2007; 27: 67-90.
  13. Ramnath VR, Hess DR, Thompson BT. Conventional mechanical ventilation in acute lung injury and acute respiratory distress syndrome. Clin Chest Med 2006; 27: 601-13; abstract viii.
  14. Murray JF, Matthay MA, Luce JM, Flick MR. An expanded definition of the adult respiratory distress syndrome. Am Rev Respir Dis 1988; 138: 720-3.
  15. Li G. Eight year trend of Acute respiratory distress syndrome. Am J Respir Crit Care Med 2011; 183: 59-66.
  16. Hughes M, MacKirdy FN, Ross J, Norrie J, Grant IS. Acute respiratory distress syndrome: an audit of incidence and outcome in Scottish intensive care units. Anaesthesia 2003; 58: 838-45.
  17. Luhr OR, Antonsen K, Karlsson M, Aardal S, Thorsteinsson A, Frostell CG, et al. Incidence and mortality after acute respiratory failure and acute respiratory distress syndrome in Sweden, Denmark, and Iceland. The ARF Study Group. Am J Respir Crit Care Med 1999; 159: 1849-61.
  18. Agarwal R, Srinivas R, Nath A, Jindal SK. Is the mortality higher in the pulmonary vs the extrapulmonary ARDS? A meta analysis. Chest 2008; 133: 1463-73.
  19. Peek GJ, Clemens F, Elbourne D, Firmin R, Hardy P, Hibbert C, et al. CESAR: conventional ventilatory support vs extracorporeal membrane oxygen for severe adult respiratory failure. BMC Health Serv Res 2006; 6: 163.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica